c

Pistlar:

17. júní 2018 kl. 22:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bankahrunið: Höfum við ekkert lært?


Ef við sláum inn setninguna: Höfum við ekkert lært? á Google þá eru flest svörin tengd bankahruninu 2008. Það er ekki óeðlilegt, slík áhrif hefur bankahrunið haft á alla umræðu í samfélaginu síðan þá. Bankahrunið og eftirköst þess hafa yfirgnæft alla umræðu í samfélaginu í bráðum að verða 10 ár. Og ekki að sjá að því sé nokkuð að linna. Framundan er 10 ára afmæli bankahrunsins og líklega leggja margir orð í belg. Umræðan er reyndar þegar byrjuð en síðasta föstudag stóð Félag stjórnmálafræðinga fyrir ráðstefnu í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála. Dagskráin eftir er tileinkuð því að 10 ár eru liðinn frá efnahagshruninu á Íslandi. Einn fyrirlesarinn, Vilhjálmur Árnason siðfræðingur, spurði hvort við hefðum ekkert lært? Heiti fyrirlestrarins var: „Höfum við ekkert lært? Hugleiðingar um hrunið og lærdóma af því.” Því miður hafði ég ekki tækifæri til að hlusta á fyrirlesturinn en ráðstefnan sýnir að enn er tekist á um lærdóm og skilning á þeirri atburðarás sem átti sér stað í aðdraganda hrunsins, hruninu sjálfu og eftirmálanum.

Einn þáttur bankahrunsins tengist afbrotum og líklega má segja að þar hafi uppgjörið verið hvað mest áberandi en ríflega 300 Íslendingar höfðu réttarastöðu grunaðs manns. Þar fórum við allt aðra leið en aðrar þjóðir. Í forvitnilegu viðtali við Helga Gunn­laugs­son af­brota­fræðing í Morgunblaðinu um helgina segir hann frá nýrri bók sinni þar sem hann skoðar ýmsa fleti af­brota og viðhorf Íslend­inga til þeirra. Bókin heitir, Af­brot og ís­lenskt sam­fé­lag, og fjallar um allt frá af­brota­fræði kvik­mynda og bjór­bann­inu upp í þyngri kyn­ferðis­brota­mál og svo efna­hags­hrunið.banka

Kerfishrun eða einstaklingsábyrgð

Í bók­ Helga eru efna­hags­brotn ekki und­an­skil­in. Í viðtalinu segist Helgi hafa velt upp ýmsum þáttum, til dæm­is hvort rekja megi or­sak­ir hruns­ins ein­göngu til stjórn­enda banka og emb­ætt­is­manna og segist hann spyrja hver ábyrgð ein­stak­linga á kerf­is­hruni sé. Margt hefur verið skrifað um það. „Efnahagshrunið veldur því að nú blasir við að kerfið var rotið og að tilraunin með fyrirmyndarsamfélag frjálshyggjunnar á Íslandi bar feigðina í sér frá upphafi,” skrifaði Sverrir Jakobsson sagnfræðingur og bróðir forsætisráðherra í Fréttablaðið 20. apríl 2010. Sverrir kenndi öllum flokkunum um efnahagshrunið nema Vinstrihreyfingunni-grænt framboð, hún hafi „farið aðra leið.” Sverrir taldi vandann fyrir hrunið kerfislægan, ekki persónubundinn. Eigi að síður höfum við eytt 10 árum í að rannsaka mikinn fjölda einstaklinga og þannig meira og minna rænt þá stórum hluta starfsævinnar.

Helgi segir for­vitni­legt að skoða hvaða áhrif „þjóðar­hremm­ing­ar” eins og þær sem hér urðu 2008 hafa á af­brot. Hann segir að í mála­skrá lög­reglu megi sjá aukn­ingu í hefðbundn­um auðgun­ar­brot­um árið 2008 og fram­an af 2009 sem hann segir þó ekki þurfa að tengj­ast hrun­inu beint því slík­ar sveifl­ur koma oft fram. Í raun hafði banka­hrunið óveru­leg áhrif á tíðni hefðbund­inna af­brota. „Efna­hags­brot­in eru þó sér kapí­tuli og þar hafa Íslend­ing­ar sér­stöðu því hundruðir fengu stöðu sak­born­ings og tug­ir ein­stak­linga voru dæmd­ir í fang­elsi meðan slíkt var ekki gert í sama mæli er­lend­is þótt fjár­mála­stofn­an­ir hafi víða hrunið. Ég velti þeim spurn­ing­um upp, hvort og hvernig sé hægt að draga ein­stak­linga til ábyrgðar fyr­ir kerf­is­hrun því eins og til dæm­is í Banda­ríkj­un­um, þar sem stór­ar stofn­an­ir hrundu, var það ekki gert í sama mæli og hér og spurn­ing­in um sak­næma ein­staklings­ábyrgð varð aldrei eins áber­andi.”

Helgi bendir á að hér­lend­is voru saka­mál­a­rann­sókn­ir tengd­ar hrun­inu mjög um­fangs­mikl­ar og í raun ein­stak­ar. „Ef við mynd­um heim­færa um­fang ís­lensku rann­sókn­anna út frá mann­fjölda yfir á til dæm­is Wall Street vær­um við að tala um að um eitt hundrað þúsund banda­rísk­ir starfs­menn hefðu verið fengn­ir til að rann­saka það sem þar gerðist. Ég er ekki að segja að ekki eigi að draga neinn til nokk­urr­ar ábyrgðar, refsi­verð hátt­semi átti sér óneit­an­lega stað í fjár­mála­kerf­inu, en það er slá­andi að skoða um­fang þess­ara rann­sókna og mál­sókna og hversu langt var gengið hér í alþjóðlegu sam­hengi.“

Stemn­ing­in í fjár­mála­heim­in­um og þjóðfé­lag­inu fyr­ir hrun

Helgi bendir á í viðtalinu að nýjar leiðir hafi verið fetaðar í fjár­mála­líf­inu sem aldrei höfðu áður verið farnar á Íslandi. Hann vísar til hraðrar einka­væðingar, markaðir stækkuðu út fyr­ir land­stein­ana og hug­mynd­ir um markaðsfrelsi og lítið op­in­bert eft­ir­lit hafi orðið ofan á og and­rúms­loftið gagn­vart slíku já­kvætt. Síðan hryn­ur kerfið og þá urðu all­ar þess­ar at­hafn­ir grun­sam­leg­ar, sem höfðu áður þótt eðli­leg­ar segir Helgi. Í þessu samhengi má hafa í huga fleyg orð Warren Buffett að „í heimi viðskiptanna gefur baksýnisspegillinn alltaf skýrari mynd en ef horft er út um framrúðuna“.

Nálgun Helga er athyglisverð en hann leitar að víðara samhengi en margir aðrir sem hafa tekið þátt í opinberri umræðu. „Ég reyni að skoða banka­hrunið í víðu sam­hengi. Marg­ir telja að banka­menn hafi fyrst og fremst framið refsi­verða hátt­semi til auðgun­ar fyr­ir sjálf­an sig, en í mjög mörg­um til­fell­um voru menn ein­fald­lega að reyna að bjarga hlut­un­um fyr­ir horn í stærra sam­hengi, þegar öll sund lokuðust á alþjóðamörkuðum í aðdrag­anda hruns­ins. Djarft hafði verið teflt og fallið var hátt.“

Rifja má upp að var niðurstaða Rannsóknarnefndar Alþingis (RNA) að skýringar á falli bankanna sé fyrst og fremst að leita í örum vexti þeirra og þar með stærð þeirra þegar þeir féllu í október 2008. Efnahagur og útlán bankanna uxu fram úr því sem innviðir þeirra þoldu. Utanumhald og eftirlit með útlánum fylgdi ekki eftir útlánavextinum. Útlánavöxtur móðurfélaga bankanna var að meðaltali tæp 50% frá upphafi árs 2004 fram að falli bankanna. Vöxturinn var mestur og stöðugastur í útlánum til eignarhaldsfélaga annars vegar og erlendra aðila hins vegar. Aukning útlána til erlendra aðila var þó sýnu meiri. Sérstaklega var aukningin mikil á seinni hluta árs 2007. Hinn mikli útlánavöxtur bankanna olli því að eignasöfn þeirra urðu áhættusamari. Niðurstaða rannsóknanefndarinnar hefur verið gagnrýnd fyrir að horfa ekki út fyrir landsteinanna en óhætt er að segja að fjármála- og efnahagskerfi heimsins hafi leikið á reiðiskjálfi. Um það véluðu ekki 300 einstaklingar á Íslandi. Það höfum við þó lært.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.