c

Pistlar:

12. ágúst 2018 kl. 9:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hitadagar í München

Hér í München er búið að vera heitt í sumar. Þegar við mættum hingað í gær var okkur tjáð að hér hefði 17 daga í röð hitinn farið yfir 30 gráður. Og það er heitt, tjáði gestgjafi okkar heldur raunamæddur á svip. Það var svo sem ekkert raunamætt við hann, ung stúlka sem býr hér á neðri hæðinni með móður sinni og leigir fallega uppgerða þakíbúð til að drýgja tekjurnar í gegnum Airbnb. Við búum rétt í útjaðri München, nánartiltekið Rambaldistraße 25 ef einhver á leið framhjá. Er í hálfgerðri sveit en erum komin í bæinn eftir stuttan akstur.

Höfum tekið þrjá leigubíla það sem af er og segja má að bílstjórarnir hafi allir verið af sitthvorum uppruna. Þeir eru þó allir aðdáendur FC Bayern München og Yousuf, okkar fyrsti bílstjóri, sem var af afrískum uppruna, benti stoltur á Arena völlinn glæsilega þegar við ókum framhjá honum. Ég spurði hvort hann héldi að Bayern yrði búið að vinna í mars eða apríl þetta árið? Hann brosti að spurningunni enda geta stuðningsmenn FC Bayern München verið nokkuð öryggir með sig, þeir eru vanalega komnir með meistaratitilinn í hendurnar löngu áður en tímabilinu lýkur. Hann taldi að salan á Arturo Vidal til Barcelóna skipti ekki máli. Nóg væri af góðum leikmönnum og nýir yrðu keyptir ef vantaði. Næst þegar við pöntuðum bíl var ég orðinn svo uppfærður að ég notaði smáforrit (app) og hringdi inn bíl frá myTaxi, einhverskonar útgáfa heimamanna af Uber en þarna hafa leigubílstjórar snúið vörn í sókn og reka sjálfir þetta forrit. Þessi bílstjóri var ættaður úr arabaheiminum og spilaði háværa tónlist, vingjarnlegur en villugjarn þó hann notaði leiðakort í símanum sínum. Á heimleiðinni tókum við bíl í miðbænum, það var Heinz á leigubílabiðstöð af gamla skólanum. Hann hafði búið í marga ættliði á þessum slóðum og notaði ekki leiðarkort. Sagði að það væru 7000 götur í München og sagðist þekkja þær flestar. Hann kannaðist þó ekki við Rambaldistraße og en má eiga það að hann var fljótur að átta sig á leiðarlýsingunni þegar ég sýndi honum GoogleMaps!hof

Borðað í kapp við geitunga

Við komum við í Enska garðinum hér í München og fórum í eitt af þessum matarmusterum heimamanna sem kallast bjórgarðar. Þetta var fyrsta heimsókn mín á slíkan stað og margt áhugavert, flest nánast spaugilegt. Hér er allt mjög skilvirkt. Matarstöðvar á tilteknum stöðum, nánast sjálfsafgreiðsla og svo greitt þegar þú gengur í gegnum hlið út í almenninginn þar sem langar raðir af bekkjum bíða umkringdir geitungasvermi sem heimamenn taka lítið eftir en vekur skelfingu aðkomumanna. Um matinn sjálfan er kannski ekki margt að segja en hann virðist viðeigandi við þetta tilefni og umhverfi. Til að allt gengi sem best fyrir sig er bjórinn seldur á sér dælustöðvum, hálfslíterkrúsir til vinstri og heilslíterkrúsir til hægri. Og bjórinn rennur í stríðum straumum. Þessi helsta matarstöð Enska garðsins er við Kínverska hofið sem er strýtulaga timburbygging. Í henni spilaði hljómsveit Tíróla-tónlist sem er nokkurn veginn jafn áhugaverð og blágrass (e. bluegrass) tónlist sú sem Ríkissjónvarpið sá ástæðu til að sýna marga þætti með fyrir allmörgum árum. Sú reynsla er illgleymanleg og sama má segja um Tíróla-tónlistina. Hún hefur hvorki upphaf né endir og er nánast fullkomlega stefnulaus. Hún er framleidd með blásturshljóðfærum og segja má að þar sé illa farið með góð hljóðfæri.

Eins og áður sagði er búið að vera heitt. Í gær var 25 stiga hiti og ásættanlegt, daginn áður hafði rignt hraustlega með tilheyrandi þrumuveðri. Framundan er aukin hiti á ný og heimamenn segjast vera búnir að fá nóg enda loftkæling alla jafnan ekki notuð á þessum slóðum, það eru kannski heitar nætur framundan.