c

Pistlar:

16. september 2018 kl. 10:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ítalía - enn í skugga mafíunnar

Það er alltaf tilhlökkun að heimsækja Ítalíu og nú er stefnan sett þangað eina ferðina enn. Saga landsins og fegurð er einstök og fólkið gott. Maturinn dásamlegur. Það hvílir hins vegar stór skuggi yfir landinu. Hann birtist í umfangi skipulegrar glæpastarfsemi. Hún virðist samofin þjóðlífinu og dregur því miður draga máttinn úr hagkerfinu og spillir samfélaginu, sérstaklega í suðurhluta landsins. Hér hefur áður verið fjallað um Napólí-borg sem ber með sér einkenni upplausnar, hirðuleysis og jafnvel hnignunar. Sem er auðvitað mikil synd þar sem hún hefur svo margt til brunns að bera.mafia

Þó að ameríska mafían hafi verið verulega veikluð undanfarna áratugi með samstilltu átaki lögreglu og ákæruvalds er mafían í gamla landinu sterk sem aldrei fyrr. Þrátt fyrir margra ára viðleitni borgara, blaðamanna og embættismanna eru sveitastjórnir á Ítalíu áfram undir ægivaldi mafíunnar. Þannig virðast margir í stjórnsýslunni enn halda verndarhendi yfir fjölmörgum mafíahópum, það er helst að heimamenn kippist við þegar þeir verða varir við innrás erlendra mafíuhópa eins og til dæmis frá Albaníu. Rannsókn sem gerð var árið 2013 hjá Università Cattolica og sameiginlegri rannsóknarmiðstöð um glæpi (e. Joint research Centre on Transnational Crime) áætlaði að starfsemi mafíunnar á Ítalíu væri að velta hvorki meira né minna en 33 milljörðum Bandaríkjadala. Þessi upphæð skiptist að mestu á milli fjögurra mismunandi hópa að því er kemur fram í nýlegri umfjöllun Fortune tímaritsins.

Camorra og Napólí

Camorra mafían mun vera farsælust þessara hópa í efnahagslegu tilliti og talin raka saman 4,9 milljörðum dala á ári. Starfsemi hennar nær allt frá kynlífsiðnaðinum til vopnasölu, auk eiturlyfjasölu, falsanna, veðmálastarfsemi og fjárhættuspilum. Að ógleymdri okurlánastarfsemi sem löngum hefur verið kjarni mafíunnar. Saga Camorra í Napólí nær langt aftur í tímann, eða allt aftur til 19. aldar, þegar hún var upphaflega stofnuð innan fangelsismúra. Starfsemin blómstraði á óróatímum 19. aldar þegar margir töldu sig þurfa auka vernd frá ribböldum og misyndismönnum. Mafían bauð verndarþjónustu og tók stundum að sér að vera leiðandi afl í pólitískri baráttu meðal fátækra íbúa Suður-Ítalíu. Undanfarið höfum við fengið að skyggnast inn í skelfilegan heim Camorra mafíunnar í samnefndum þáttum sem Ríkissjónvarpið hefur sýnt. Þættirnir sýna vel þá hnignun mennskunnar sem fylgir skipulagðri glæpastarfsemi þar sem óttinn stýrir för. Það er öfugsnúið að orðið mafía þýddi upphaflega heiðursmaður.

Ndarangheta

Ndarangheta er næststærsti mafíu-hópur Ítalíu þegar horft er til tekna en hún hefur hreiðrað um sig á Calabria-svæðinu. Ndarangheta hefur haslað sér völl í svipaðri starfsemi og Camorra en hefur einnig byggt upp mikil sambönd við Suður-Ameríku og stýrir innflæði eiturlyfja þaðan, sérstaklega kókaíns. Þau flæða síðan norður um Evrópu. Ndarangheta hefur sterk ítök í dómskerfinu, bæði heima fyrir og í Suður-Ameríku og hefur því ítök sem hefur reynst erfitt að vinna á. Mafían hefur nýtt það til að efla starfsemi sína í Bandaríkjunum og byggt upp tengsl við Gambino- og Bonnano-fjölskyldurnar sem stýra að hluta glæpastarfseminni í New York. Í febrúar handtóku ítalska lögreglan tugi meðlima Ndrangheta og Gambino og voru þeir ákærðir fyrir starfsemi sem tengdist flutningi fíkniefna yfir Atlantshafið.

Cosa Nostra er að mörgu leyti hin upphaflega mafía og hún er á Sikiley. Á Ítalíu mun það tíðkast að kenna aðeins Cosa Nostra á Sikiley við mafíu en hópa á skaganum öðrum nöfnum. Á Sikiley er líka að finna Stidda-mafíuna (La Stidda). Sacra Corona Unita hefur síðan hreiðrað um sig í Apulia. Fleiri skipulagðir glæpahópar finnast á Ítalíu, sérstaklega í Róm en ítök gömlu mafíuhópanna eru enn sterk eins og áður sagði.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.