c

Pistlar:

21. september 2018 kl. 17:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Danske Bank setur met í peningaþvætti

Það er ekki bjart yfir starfsemi Danske Bank, stærsta banka Danmerkur, um þessar mundir. Bankastjórinn farinn, stjórnarformaðurinn á leið út og búið að kæra hóp millistjórnenda bankans til lögreglu. Bæði Fjármálaeftirlitið og fjármáladeild rannsóknalögreglunar eru að skoða starfsemi bankans sem virðist hafa flækst í eitt stærsta peningaþvættismál sögunnar. Talið er að 200 millj­arðar evra hafi runnið í gegn­um úti­bú bank­ans í Eistlandi á grunsamlegan hátt. Viðskiptavinir flýja bankann og verðmæti hans og traust hrunið.

Evrópskir og danskir fjölmiðlar hafa flutt fréttir af málinu undanfarið enda undrast menn umfang þess. Það vekur einnig athygli að það er langt síðan grunsemdir um athæfið kom upp en dönsk yfirvöld virðast hafa viljað gera sitt besta til að halda málinu í láginni eins og sést af heldur pasturslítilli rannsókn danska fjármálaeftirlitsins frá því í vor. Hún var litlu betri en innri rannsókn bankans sjálfs. Í ljósi nýjustu vendinga hefur eftirlitið neyðst til að taka upp rannsóknina en danskir fjölmiðlar hafa farið hamförum undanfarið.browder

Bill Browder kemur til sögunnar

Þegar vendingar síðustu mánaða eru skoðaðar þá sést að hlutur William (Bill) Browder er stór. Hann vakti athygli eistneskra yfirvalda á hugsanlegu peningaþvætti strax árið 2012 og síðar hafði hann samband við dönsk yfirvöld. Browder hefur því unnið hörðum höndum að því að vekja athygli á vandanum. Browder er þekktur fyrir að hafa sett á laggirnar vogunarsjóð í Rússlandi á seinni hluta níunda áratugarins og lendir upp á kannt við Pútin eftir ævintýralegan uppgang. Hann stýrði Hermitage Capital Management sem réði um tíma yfir 4,5 milljörðum Bandaríkjadala. Honum var úthýst frá Rússlandi og hans nánasti samverkamaður pyntaður og drepinn. Browder hefur síðan verið óþreytandi (og ódrepandi) við að berjast gegn spillingu Pútin-veldisins og kom miklu höggi á það með samþykkt Magnitsky-laganna sem hafa haft gríðarleg áhrif. Bók hans Eftirlýstur (Red Notice) kom út hér á landi fyrir nokkrum árum og vakti mikla athygli.

En hvað með íslenska peningaþvættið?

Allt síðan Samson-hópurinn auðgaðist í Rússlandi voru miklar sögusagnir um rússneska peninga í íslensku fjármálalífi. Á stundum mátti halda að Ísland væri miðstöð peningaþvættis fyrir rússnesku mafíuna. Líklega er ekki á neinn hallað þó sagt sé að Guðmundur Ólafsson fyrrverandi lektor við Háskóla Íslands og náinn vinur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, hafi verið hvað duglegastur að halda þessum kenningum á lofti. Oft við góðan hljómgrunn íslenskra fjölmiðla. Annar háskólamaður, Robert Wade prófessor við London School of Economics, varð fyrirferðamikill í umræðunni hér í aðdraganda og eftirmála hrunsins. Wade var í nánu vinfengi við vinstri sinna á Íslandi og einnig í kunningjahópi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

Wade var einn þeirra sem ýttu mjög undir umræðu um glæpsamlegt athæfi hefði átt sér stað og vildi kalla til sérstaka rannsakendur (e. forensic accountants). Wade átti greiða leið inn í umræðuþáttinn Silfur Egils. Þar líkti Wade Íslandi við rannsóknarstofu þegar kemur að hruni fjármálakerfis. „Ísland er mjög öfgafullt dæmi,“ sagði hann í Silfri Egils í upphafi árs 2010. Wade sagði í sama þætti að það væri firra að halda því fram að fjármálakerfi landsins hefði ekki hrunið, ef ekki hefði verið fyrir hrun fasteignamarkaðar í Bandaríkjunum. „Hvort sem fjármálakreppa hefði myndast á heimsvísu eða ekki hefði Ísland farið í þrot,“ sagði Wade og rökstuddi það með miklum lántökum bankanna miðað við þjóðarframleiðslu sem og óstöðugleika og ójöfnuði í fjárhagslegri stöðu almennings. Óhætt er að segja að enn sé deilt um þetta.

Wade reyndist hins vegar ekki hlutlaus fræðimaður. Það sést glöggt þegar nokkurrar ára gömul grein hans í Challenge, bresku tímariti vinstri menntamanna, er skoðuð. Þar tíundaði hann hvaða hluti þurfi að skoða í ljósi hrunsins hér á landi; „hvernig mælikvarðinn á hamingjuna breytist þegar heil efnahagskerfi riða til falls, hvernig mönnum gat yfirsést spillingin og klíkustarfsemin í íslenska kerfinu, hvernig bankamenn frá litlu landi gátu orðið á heimsmælikvarða á örfáum árum, hvernig ofurbjartsýn trú á að hækkandi eignaverð jafngilti auðæfum villti mönnum sýn.” Lokahnykkurinn á þessari upptalningu segir síðan sína sögu en þar beinlínis staðhæfir hann að íslenskir bankar hafi stundað peningaþvætti: „how the bankers were able to zoom from obscurity to world players in less than a decade (a Russian money-laundering connection?)”

Engin tengsl fundist

Auðvitað er það ekki nýlunda að reynt sé að kenna íslenska viðskiptamenn við rússneskt peningaþvætti. Satt best að segja var þetta íþrótt um nokkuð langan tíma og er skemmst að minnast á umfjöllun danska Ekstrablaðsins um Kaupþing og fleiri íslenska aðila. Sátt tókst á milli Kaupþings og Ekstrablaðsins í byrjun árs 2008 þar sem blaðið greiddi Kaupþingi skaðabætur og baðst auk þess afsökunar. Í afsökunarbeiðninni kom fram að blaðið hafði ekki ætlað sér að væna bankann um ólöglega starfsemi enda gátu þeir ekki rökstutt fullyrðingar sínar með neinum hætti. Við hrunið kviknaði líf í þessum sögum aftur enda áttu þeir sem fyrir urðu erfiðara með að koma leiðréttingum áleiðis.

Staðreyndin er sú að engir bankar hafa verið rannsakaðir jafn ítarlega og íslensku bankarnir sem hafa haft yfir sér slitastjórnir og skilanefndir sem eyddu gríðarlegum fjármunum í að gera þá upp. Ekki er vitað til þess að neitt hafi komið þar upp sem bendir til skipulags eða kerfisbundins peningaþvættis eins og nú má sjá hjá Danske Bank.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.