c

Pistlar:

5. nóvember 2018 kl. 18:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Venesúela: Land götubarna og hungurs

Inni á fréttasíðu BBC má nú finna dagsgamalt fréttainnslag sem segir frá því að mæður í Venesúela skilji börnin sín eftir - nánast setji þau út á guð og gaddinn - af því að þær geta ekki séð þeim farboða. Í fréttinni er rætt við nokkur þessara barna sem reyna að komast af með betli og ránum eða einhverju enn verra en það. Fréttin er lýsandi fyrir það ástand sem nú ríkir í Venesúela og hefur alloft verið fjallað um í pistlum hér. Á sama tíma má sjá að einstaka vinstri menn hér heima á Íslandi reyna að finna vísbendingar um að sósíalistastjórnin í Venesúela sé nú ekki alvond. Jafnvel að viðskiptabann Bandaríkjanna hafi eitthvað með það að gera hvernig ástandið er í landinu. Best væri ef hægt væri að kenna Donald Trump um hvernig komið er fyrir þessari olíuauðugustu þjóð heims. Þar er nú matur lúxusvara og fólk leitar að einhverju til að nærast á í nærliggjandi ruslahaugum. Fréttamaður BBC segir að meira að segja meðal fjölskyldumeðlima sé slegist um mat, örvæntingin sé alger og fátt sem minnir á siðað þjóðfélag.vene

Á sama tíma og ofbeldi hefur aukist gríðarlega fjölgar hópum götubarna sem oftast eru í mestri hættu þegar baráttan fyrir lífsviðurværi harðnar. Fyrstu árin eftir að upplausnin hófst fjölgaði götubörnum um 40 til 50%. Það sem af er þessu ári hefur ástandið versnað en frekar og þeim fjölgað um 60% segir starfsmaður hjálparskýlis í Caracas við fréttamann BBC. Skömmu síðar er rætt við verðandi móður sem hyggst gefa barn sitt, úrræði sem sífellt fleiri mæður í Venesúela grípa til.

Gríðarlegur flóttamannastraumur

Daglega streyma þúsundir manna frá Venesúela, nágranalöndin finna harðast fyrir því. Í október var talið að um 870 þúsund flóttamenn væru í Kólumbíu, 360 þúsund í Perú, 290 þúsund í Bandaríkjunum, ríflega 210 þúsund á Spáni, 105 þúsund í Chile, 95 þúsund í Argentínu, 75 þúsund í Panama, 50 þúsund í Brasilíu og 40 þúsund í Equador. Mörg önnur lönd hafa tekið við flóttamönnum en nágranalöndin eru að springa undan flóðinu. Í Brasilíu hafa yfirvöld orðið að bregða á það ráða að fljúga með flóttamenn í burtu frá flóttamannabúðum við landamærin þar sem óánægja heimamanna vex hröðum skrefum. Þessi straumur flóttamanna er einstakur miðað við að ekki ríkir styrjöld í landinu, að minnsta kosti ekki samkvæmt hefðbundnum skilningi þess orðs. Þeir sem hafa einhver fjárráð flýja með öðrum hætti en Venesúela er smám saman að missa sitt verðmætasta fólk.Fernando Albán

Stjórnarandstæðingar myrtur

Óöldin er alger í landinu og sósíalistastjórn Maduro svífst einskis. Á sama tíma og heimurinn hefur fylgst með morðmáli Jamal Khashoggi í forundran og stjórn Saudi Arabíu situr undir miklu ámæli er lítið fjallað um hvernig forsetinn Nicolás Maduro og leyniþjónusta Venesúela taka á andstæðingum stjórnarinnar. Þá er hægt að finna ríflega mánaðargamla frétt um sviplegan dauða stjórnarandstæðingsins Fernando Albán en leyniþjónustan heldur því fram að hann hafi framið sjálfsmorð með því að stökkva ofan af 10 hæð höfuðstöðva hennar. Mynd af honum fylgir hér með. Vitaskuld trúir því engin en umfjöllunin um þetta virðist ekki ná neinni sérstakri athygli heimsmiðlana og skiptir litlu þó Sameinuðu þjóðirnar séu að rannsaka málið enda var hann að koma af alsherjarþingi SÞ þegar hann var óvænt hnepptur í varðhald. Fleiri þekktir stjórnarandstæðingar hafa verið teknir úr umferð. Antonio Ledezma, fyrrum borgarstjóri Caracas og Leopoldo López, fyrrum borgarstjóri Chacao hafa verið í stofufangelsi lengi. Nú berast fréttir af því að þeim sé haldið í herfangelsi og búi þar við harðræði.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.