c

Pistlar:

8. nóvember 2018 kl. 11:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Björguðu efnahagsmálin Trump?

Það er engum blöðum um það að fletta að nýjar tölur um efnahaginn í Bandaríkjunum hjálpuðu Donald Trump og repúblikanaflokknum í kosningunum á þriðjudaginn. 250 þúsund ný störf í október, minnkandi atvinnuleysi, meiri launahækkanir en höfðu sést í áratugi og góður hagvöxtur. Menn geta endalaust gagnrýnt Donald Trump fyrir framgöngu og orðbragð en hann virðist vera að ná einhverjum árangri á efnahagssviðinu þó vissulega deili menn um hverju það sé að þakka og hve langvinnt það verður. Kjósendur virðast hafa horft til þess þó að demókratar hafi vissulega fagnað sigri í Fulltrúadeildinni enda höfðu þeir úr helmingi meira fjármagni að spila. Það er reyndar undantekningarlítil regla að flokkur forsetans tapar slíkum kosningum á miðju kjörtímabilinu. Sjálfur einbeitti Trump sér að því að aðstoða í baráttunni um sæti í Öldungadeildinni og hvort sem það er því að þakka eða ekki þá komu repúblikanar óvenju vel út úr þeirri kosningu og bættu við sig sætum.trumpkos

Varnarsigur?

Niðurstaða kosninganna er því varnarsigur fyrir forsetann sem var miðpunktur kosningabaráttunnar. Öfugt við ýmsa forseta áður þá hafði hann sig mikið í frammi og virtist hafa gert kosningabaráttu repúblikana gagn. Með meirihluta í Fulltrúadeildinni geta demókratar ráðið nefndum og ráðum og hafið ferli til að koma Trump frá (e. impeachment) eins og margir þeirra hafa hótað. Einnig má gera ráð fyrir að aukinn kraftur færist í margvíslegar rannsóknir svo sem þá er Robert Mueller stýrir. En meirihlutinn í Öldungadeildinni kemur í veg fyrir að slíkt ferli leiði til sakfellingar. Um leið er ljóst að Trump mun áfram geta farið sínu fram í utanríkismálum. Augljóslega munu margir demókratar í Fulltrúadeildinni hugsa um lítið annað en að reyna að koma honum frá og munu sjálfsagt næstu tvö árin mótast af slíkum átökum. Trump hefur aflað sér margra óvina með orðum sínum og framgöngu enda lítið sóst eftir málamiðlunum. Hann mun ekki veigra sér við að taka slaginn.

Viðskiptastríðin sýndarmennska?

En þó að tölur séu að mörgu leyti jákvæðar í efnahagslífinu þá hafa margir áhyggjur af framgöngu Trump á alþjóðlegum vettvangi. Viðskiptastríð eða hótanir um slíkt hafa verið fyrirferðamikil í stjórnartíð hans þó að stundum sé hann ranglega borin sökum þar. Menn ræða til dæmis lítið um hið sérkennilega ástand sem lengi hefur verið í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins en þar virðast báðir aðilar keppast við að leggja sektir á fyrirtæki hvors annars. Bandarísku netrisarnir og tæknifyrirtækin hafa verið undir hælnum á evrópskum samkeppnisyfirvöldum um leið og bandarísk yfirvöld hafa lagt þungar sekir á ýmis fyrirtæki, svo sem Volkswagen og Deutsche Bank. Þessi barátta hófst áður en Donald Trump kom til sögunnar. Nú eru stofnanir Evrópusambandsins að undirbúa að leggja veltuskatta á netrisana sem allir eiga heimilisfesti sitt í Bandaríkjunum.

Svo virðist sem Trump hafi lag á því að koma niður á lappirnar eftir að hafa rofið samninga og sett viðskiptastríð af stað. Þannig lokuðust samningar við nágranaríkin Kanada og Mexíkó og í leiðinni tókst Trump að niðurlægja Justin Trudeau, hinn unga forsætisráðherra Kanada. Að þessu sögðu blasir við að persóna Trump truflar marga þegar verið er að meta ástandið í Bandaríkjunum þessa stundina.

En þó tölurnar séu um margt góðar þá má eins og áður sagði velta fyrir sér hvað þær endist. Það á eftir að koma í ljós hve lengi örvunaráhrif skattalækkana varir og þá eru vextir á uppleið. Það er þegar farið að hafa áhrif á hlutabréfaverð. Trump lofaði að lækka fyrirtækjaskattinn úr 35% í 15% fyrir forsetakosningar, en varð síðar að sætta sig við 21%. Trump mun væntanlega vilja sigla inn í kosningarnar 2020 með efnahagslífið á fullri ferð en óvíst að það takist.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.