c

Pistlar:

11. nóvember 2018 kl. 21:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skógrækt - fljótvirkasta leiðin

Flestum má vera ljóst að brýnt er að taka rösk­lega til hend­inni við fram­leiðslu á plönt­um til að hægt verði að gróður­setja í sam­ræmi við mark­mið sem stjórn­völd hafa kynnt um aukna skóg­rækt til að auka kol­efn­is­bind­ingu. Í frétt í Morgunblaðinu í vikunni kom fram að í ár er fram­leiðslan svipuð og hún var um 1990, en mark­miðið er að fjór­falda gróður­setn­ingu skógarplantna á næstu fimm árum. Til að ná sem fyrst ár­angri í bind­ingu kol­efn­is með skóg­rækt þarf að gróður­setja sem fyrst því trén fara ekki að binda kol­efni að gagni fyrr eft­ir 10-12 ár þegar þau eru vax­in úr grasi.

Hér hefur á þessum vettvangi margoft verið bent á að stækkun skóga á Íslandi og önnur uppgræðsluverkefni eru hagkvæmustu og fljótvirkustu leiðirnar til að vinna gegn kolefnisútblæstri á Íslandi. „Skítaredding,” segja sumir en það er auðvitað ekki rétt. Þetta er mikilvæg leið til þess að skapa nýtt jafnvægi í vistkerfinu og vinna gegn loftslagsbreytingum. Út um allan heim eru þjóðir að átta sig á þessu og í ljósi þess að Ísland er að mörgu leyti gróðurvana og skógar ekki nema um 2% af flatarmálinu þá eru mikil tækifæri fyrir hendi. Um allan heim eru þjóðir að setja í gang metnaðarfull verkefni í þeim tilgangi að endurheimta skóga og styrkja gróðurlendi í þeim tilgangi að vinna gegn loftslagsbreytingum. Dugar kannski ekki eitt og sér en getur haft mikil áhrif.

Mikil áhugi á skógrækt

Á Íslandi má víða finna mikinn áhuga á skógrækt og þekking er orðin góð á því sviði. Í frétt Morgunblaðsins rifjar Þröst­ur Ey­steins­son, skóg­rækt­ar­stjóri, upp að á ár­un­um upp úr 1990 hafi mik­ill hug­ur verið í skóg­ræktar­fólki hér á landi. Land­græðslu­skóg­ar voru ný grein skóg­rækt­ar og héraðsskóg­ar voru að fara af stað, en það verk­efni er nú skil­greint sem skóg­rækt á lög­býl­um. Víða var unnið að skóg­rækt og í nokk­ur ár voru gróður­sett­ar um millj­ón plönt­ur ár­lega á veg­um Skóg­rækt­ar­fé­lags Reykja­vík­ur með til­styrk borg­ar­inn­ar. Upp úr hruni fór að halla und­an fæti og smám sam­an dró úr fjár­magni til skóg­rækt­ar. Nú eru fram­leidd­ar um þrjár millj­ón­ir skógarplantna á ári en skógræktarstjóri vonast til þess að framleiðslan fari upp í tólf millj­ón­ir plantna á ári í lok þessa fimm ára tíma­bils. Það er einnig brýnt að efla skógrækt í borginni en tré eru besta vörnin gegn svifryki.

Auk­in kol­efn­is­bind­ing

Á fundi 10. sept­em­ber í haust kynntu sjö ráðherr­ar rík­is­stjórn­ar­inn­ar viðamikla aðgerðaáætl­un í lofts­lags­mál­um. Mark­miðið með áætl­un­inni er að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda og stuðla að auk­inni kol­efn­is­bind­ingu þannig að Ísland geti staðið við mark­mið sín í lofts­lags­mál­um. Alls verður tæplega 7 millj­örðum króna varið til sér­stakra aðgerða í lofts­lags­mál­um á næstu fimm árum, sem er stór­felld aukn­ing frá því sem verið hef­ur. Til samanburðar má nefna að það á að verja 4 milljörðum króna til að bæta húskost íslenskufólks við Háskóla Íslands.

Megin­á­hersl­urn­ar eru tvær; orku­skipti, þar sem sér­stak­lega er horft til hraðrar raf­væðing­ar sam­gangna og átak í kol­efn­is­bind­ingu þar sem skóg­rækt og land­græðsla gegna lyk­il­hlut­verki, auk þess sem mark­visst verður dregið úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda með end­ur­heimt vot­lend­is.

Gert er ráð fyr­ir að hægt verði að auka gróður­setn­ingu um millj­ón plönt­ur á næsta ári. Þegar hefur verið lögð drög að auk­inni plöntu­fram­leiðslu. Fjár­magnið á síðan að aukast hratt og verður mest 2023, en ráðstöf­un þess er m.a. til umræðu hjá Skóg­rækt­inni og Land­græðslunni í sam­vinnu við ráðuneyti. Þetta er góð byrjun en ástæða til að huga að enn meira fjármagni í þessar aðgerðir þegar frammí sækir. Það er miklu betri aðferð en að greiða sektir vegna þess að við getum ekki staðið við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.