c

Pistlar:

4. desember 2018 kl. 20:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kemur fiskurinn aftur í Kauphöllina?

Það er skiljanlegt að fjármálafyrirtæki og greiningaraðilar velti fyrir sér þeim möguleikum að sjávarútvegsfyrirtæki verði á ný í lykilhlutverki í íslensku kauphöllinni. Fyrir tveimur áratugum var allt að 40% af markaðsvirði hlutafjár í Kauphöllinni í sjávarútvegi. Segja má að hápunktinum hafi verið náð 1999/2000 þegar 24 íslensk sjávarútvegsfyrirtæki voru skráð í kauphöll. Á þessum tíma nýttu félög í sjávarútvegi og tengdri starfsemi kosti kauphallar við innri og ytri vöxt eins og greiningardeildin Arion banka bendir á í nýrri skýrslu sem hér er til umræðu. Skráð félög leiddu samrunaþróun í greininni og fjárfestar fylgdust vel með henni. Í skýrslunni eru leiddar að því líkur að sjávarútvegurinn fari á mis við kosti skráningar í kauphöll og fjárfestar fara á mis við sjávarútveginn.

Það er alveg rétt að sjávarútvegurinn gegndi lykilhlutverki í að byggja upp íslenska kauphöll á sínum tíma. Það er staðreynd sem er mörgum gleymd. Í kringum aldamótin voru flest stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins skráð í Kauphöll Íslands og næstum helmingur allra aflaheimilda var í eigu skráðra félaga. Skráð félög voru leiðandi í sameiningum í sjávarútvegi og félög með bakgrunn í sjávarútvegi á borð við Bakkavör, Marel og Sæplast nýttu kosti kauphallar til ytri vaxtar. Að auki voru skráðir í Kauphöllina hlutir í hlutabréfasjóðum sem fylgdu þeirri fjárfestingarstefnu að eiga aðeins hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum. Fiskurinn flæddi um kauphöllina.

Pólitísk óvissa slæm

Upp úr aldamótum skildu hins vegar leiðir milli íslenskra fjárfesta og sjávarútvegsfyrirtækja. Í framhaldinu féll sjávarútvegurinn í skugga annarra greina og áhugi og stuðningur við sjávarútveg meðal fjárfesta minnkaði hlutfallslega. Aðeins eignarhlutur um 10% aflaheimilda við Ísland er skráður í kauphöll. Skráð skuldabréf sjávarútvegsfyrirtækja í kauphöll eru engin. Hlutdeild markaðsfjármögnunar í langtímafjármögnun sjávarútvegsins er langtum minni en vægi greinarinnar í atvinnulífinu sem þo fer minnkandi eins og meðfylgjandi graf úr skýrslunni sýnir. Það bendir á að vægi tekna sjávarútvegsfyrirtækja hefur helmingast á síðastliðnum 15 árum.tekjur

Greiningardeildin kemur með athyglisverða nálgun á það af hverju félögin fóru úr Kauphöllinni. Sem fjárfestingakostur lentu sjávarútvegsfélögin í skugga annarra félaga, sérstaklega lyfja- og fjármálafyrirtækja. Þá skipti máli minnkandi áhugi almennra stofnanafjárfesta. Þá kann að vera að greining sjávarútvegsfélaganna sem fjárfestingakosts hafi verið ónóg og hagræðing og tæknilegar framfarir fengu ekki verðskuldaða athygli fjárfesta. Einnig skipti máli að ónógur stuðningur var almennra fjárfesta við greinina á tímum erfiðra ákvarðana um hagræðingu. Þá var lakari ávöxtun hlutabréfa sjávarútvegsfyrirtækja samanborið við ávöxtun annarra félaga, sérstaklega lyfja og fjármálafyrirtækja. Virkni markaðarins skipti auðvitað miklu en lítið framboð, þröngt eignarhald og fá viðskipti með hlutabréf sjávarútvegsfyrirtækjanna fældi fjárfesta frá. En líklega hefur ekkert haft eins mikil áhrif og viðvarandi pólitísk óvissa í kringum kvótakerfið

Vantar næst stærstu útflutningsgreinina

Að dómi greiningardeildarinnar er þetta miður, bæði fyrir sjávarútveginn en ekki síður fjárfesta. Sjávarútvegur er næst stærsta útflutningsgrein landsins. Afkoman sveiflast talsvert með gengi krónunnar en greiningardeild Arion banka bendir á að þennan áratuginn hefur EBITDA-hagnaður sjávarútvegsins verið á bilinu 9-23% af EBITDA hagnaði íslensks atvinnulífs.

Fjárfestingar í íslenskum sjávarútvegi hafa síðustu ár verið fjármagnaðar úr rekstri eða með bankalánum. Eiginfjárstaða í greininni er sterk en afkoma hefur versnað. Greiningardeildin telur að fjárfestingar í tækjabúnaði, ytri vexti eða nýsköpun verði í auknum mæli fjármagnaðar með þolinmóðu lánsfjármagni. Samanlagt bókfært eigið fé og langtímaskuldir sjávarútvegsins eru liðlega 600 milljarðar króna. Samtals var bókfært virði eigin fjár og langtímaskuldir sjávarútvegsins 622 milljarðar króna í lok árs 2017 eins og kemur fram í meðfylgjandi grafi.eigið

Fjárfest í erlendu sjóðsstreymi

En hvað er í þessu fyrir fjárfesta? Greiningardeildin telur að eignasöfn nær allra íslenskra fjárfesta sé undirvigtuð í sjávarútvegi. Með fjárfestingu í sjávarútvegi bjóðist þannig fjárfestum samtímis að fjármagna íslenskt atvinnulíf og stuðla að auknu vægi erlends sjóðstreymis í eignasöfnum. Því sé tímabær frekari skráning eigin fjár og skulda sjávarútvegs í kauphöll. Greiningardeild Arion banka telur að það sé til þess fallið að bæta fjármögnun félaganna til lengri tíma litið og styðja við fjárfestingu og nýsköpun. Um leið séu skráð hlutabréf og skuldabréf sjávarútvegsfyrirtækja til þess fallin að styrkja innlend eignasöfn.

Allt þetta er satt og rétt en sjálfstraust íslenskra fjárfesta hefur verið lítið undanfarin ár. Það er ljóst að styrkja þarf ytri stöðu og þó sérstaklega pólitíska umgjörð sjávarútvegsins áður en fjárfestar stökkva á vagninn.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.