c

Pistlar:

9. janúar 2019 kl. 17:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stóra fréttin sem allir missa af

Ekk­ert bana­slys hefur orðið á ís­lensk­um fiski- og flutn­inga­skip­um tvö síðustu ár og mun það vera í fyrsta skipti sem ekk­ert bana­slys verður meðal lög­skráðra sjó­manna tvö ár í röð. Það er til marks um tíðarandann að Íslendingar virðast taka þessu sem sjálfsögðum hlut og fréttir um þetta vekja næsta litla athygli. Í eina tíð hjó Ægir stór skörð í raðir íslenskra sjómanna á hverju ári og skildi eftir fjölskyldur í sárum. Mér er þetta hugleikið þar sem afi minn, Kristján Stefánsson, tíndist í hafi með Súlunni árið 1963 þegar ég var þriggja ára. Flestar íslenskar fjölskyldur hafa orðið fyrir slíkum missi og það verður aldrei nógsamlega þakkað hve mikið öryggi sjómenn búa nú við. En það er ekki sjálfsagður hlutur en ég hef nokkrum sinnum áður vakið athygli á þessari þróun.

Árin 2008, 2011 og 2014 urðu held­ur ekki bana­slys meðal lög­skáðra sjó­manna, en ekki var óal­gengt á árum áður að tug­ir sjó­manna létu lífið í slys­um ár­lega. Jón Aril­íus Ing­ólfs­son, rann­sókn­ar­stjóri sigl­inga­sviðs rann­sókna­nefnd­ar sam­göngu­slysa, sagði í samtali við Morgunblaðið þetta bera vitni um já­kvæða þróun sem hafi orðið og ákveðna menn­ingu sem nú sé að finna í flot­an­um.

„Með til­komu Slysa­varna­skóla sjó­manna 1985 hef­ur margt breyst um borð í ís­lensk­um fiski­skip­um og skip og búnaður eru betri og ör­ugg­ari en áður,“ seg­ir Jón Aril­íus í um­fjöll­un um mál þetta í Morg­un­blaðinu í upphafi árs. Þessu til viðbótar má nefna að ný ákvæði í sigl­inga­lög­um um rann­sókn­ir sjó­slysa tóku gildi 1986 og 2001 voru sett ný lög og reglu­gerð í kjöl­farið um mála­flokk­inn.banaslys2

Er eitt hættulegasta starfið

Félag vélstjóra og málmtæknimanna fagnar þessu auðvitað og má að mati félagsins helst þakka stofnun Slysavarnaskóla sjómanna 1985 þennan árangur. Sjómennskan er eitt hættulegasta starf sem til er og því mikilvægt að öryggismál séu tekin föstum tökum.

Á vísindavef Háskóla Íslands er hægt að finna fjölda banaslysa á sjó á árunum 1971-2010 og kemur þar fram að banaslys á íslenskum sjómönnum voru 203 á árunum 1971-1980 en hefur farið fækkandi síðan þá. Hér fylgir með graf sem þar er að finna.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.