c

Pistlar:

13. janúar 2019 kl. 22:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Af hverju gleyma allir Venesúela?

Er Venesúela hið gleymda land? Þannig má spyrja þegar horft er til þeirra hörmunga sem sósíalistastjórn landsins er búin að leiða yfir það. Nú er Nicolás Maduro, forseti Venesúela, að hefja sitt annað kjörtímabil í kjölfar kosninga sem allir vita að voru falsaðar. Hann lætur myrða stjórnarandstæðinga og blaðamenn, þrjár milljónir landsmanna hafa flúið og verðbólga síðasta árs var stjarnfræðileg. Efnahagurinn er í rúst, fólk á ekki til hnífs og skeiðar - allir hafa það jafn skítt! Flestir sjá að þetta getur ekki gengið lengur hjá sósíalistunum í Venesúela en samt er eins og alþjóðasamfélagið þegi. Hér hefur í allmörgum pistlum undanfarin ár verið reynt að skýra ástandið sem virðist því miður versna dag frá degi.

Leiktjöld í framtíðarhryllingsmynd

Í nýrri fréttaskýringu frá Noah Smith, pistlahöfundi hjá Bloomberg fréttaveitunni, er minnt á alvarleika ástandsins í Venesúela. Staðreyndin er sú að erfitt er að lýsa svo vel sé áhrifum stjórnartíðar sósíalistanna Hugo Chavez og eftirmanns hans á daglegt líf í Venesúela. Bloomberg hefur undanfarið birt röð fréttaskýringa um það helvíti sem landsmenn eru að ganga í gegnum. Þar er sagt frá hinu eilífu baráttu íbúa höfuðborgarinnar Caracas við að lifa af eins og ástandið er orðið í borginni. Fólk hefur flúið borgina umvörpum en á sama tíma fara svöng börn í hópum um göturnar eins og áður hefur verið rakið hér, heilsugæsla og almenn læknisþjónusta heyrir sögunni til, ofbeldi er eins og farsótt í borginni og vatn af skornum skammti. Hin svokallaða Bolivíska-bylting sem Chaves var alltaf að stæra sig af hefur gert það að verkum að þetta áður friðsama millistéttarland hefur umbreyst og er nú eins og leiktjöld í framtíðarhryllingsmynd.venezuela_protest_flag001-e1491425661760

Noah Smith segir það mikilvægt fyrir önnur lönd að draga réttan lærdóm af ástandinu í Venesúela, ekki síður fyrir þau auðugri. Hann varar þannig við tali stjórnmálamanna eins og öldungadeildarþingmannsins Bernie Sanders og fulltrúadeildarþingkonunnar Alexandriu Ocasio-Cortez en bæði hafa þau tekið sósíalisma opnum örmum, sem og margir ungir Bandaríkjamenn í seinni tíð.

Hvar er skýringa að leita?

En hvað orsakar það ástand sem nú ríkir í Venesúela? Noah Smith fellst ekki á að skýringa sé að leita í lækkandi olíuverði þó það hafi ekki gert landsmönnum auðveldara fyrir. Önnur olíuútflutningsríki hafi lent í því sama, átt í erfiðleikum án þess að samfélagshrun eins og í Venesúela hafi dunið yfir. Hann dregur fram þrjár skýringar sem byggjast á sósíalískri efnahagsstjórn. Í fyrsta lagi megi nefna til alvarleg mistök á sviði efnahagsmála sem birtist í röngum ákvörðunum á sviði ríkisfjármála. Þá hafi þjóðnýting sósíalista á iðnaðinum gert illt verra og í þriðja lagi afskipti af hinum ríkisrekna olíuiðnaði. Allt þetta hafi skapað forsendur fyrir þeirri óðaverðbólgu sem nú geisar í landinu og virðist óviðráðanleg. Eina ráð stjórnvalda er að reyna að taka upp einhverskonar verðlagsstýringu sem gerir það að verkum að vörur eru nánast ófáanlegar nema á svarta markaðinum. Þeir einu sem treysta sér til að standa í viðskiptum þar gera það annað hvort með dollara að vopni eða í formi vöruskipta. Þó menn greini á um hvernig óðaverðbólga fer af stað, verðlagshöft, gengisfellingar, fjárlagahalli - eru líklegir sökudólgar - þá eru menn sammála um að það sé erfitt að ná stjórn á henni þegar hún er einu sinni farinn af stað. Við sjáum hér heima á Íslandi að sósíalistar virðast hafa til þess að gera litlar áhyggjur af verðbólgu. Í Venesúela vildu margir geta fært tímann aftur til þess er þær ákvarðanir voru teknar sem leiddu til núverandi óðaverðbólgu sem eyðileggur efnahag landsins.

Hugo Chavez var hrifin af hverskonar þjóðnýtingu, skipti litlu hvort fyrirtækin voru innlend eða erlend. Allt taldi hann betra undir stjórn ríkisins. Vandinn var sá að þjóðnýtingin og ríkisrekstrarstefnan gróf undan áhuga atvinnulífsins á að fjárfesta. Nú er svo komið að verulega skortir á fjárfestingu landinu sem mun grafa undan framtíðarhagvexti þess. Sex ár til viðbótar með Nicolás Maduro munu ekkert gera til að bæta úr því. Heimspressan gerði ekki mikið úr innsetningarathöfn hans í byrjun árs. Kannski að hún trúi því ekki að þetta muni endast.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.