c

Pistlar:

19. janúar 2019 kl. 15:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ísland í öfundsverðri stöðu

Í síðasta pistli gerði ég að umtalsefni jákvæða þróun viðskiptajöfnuðar en þar virðast vera að eiga sér stað straumhvörf án þess að sjá megi mikla umræðu þar um. Því má segja að rekstur landsins sé kominn í góða stöðu að því leyti sem viðskiptajöfnuður tákni hana. Nýjar upplýsingar um skuldastöðu landsins renna enn frekari stoðum undir það að efnahagurinn sé líka góður. Getur verið að Ísland sé að færast í öfundsverða stöðu, með góðan efnahags- og rekstarreikning og myndarlegan óskuldsettan gjaldeyrisforða? - Stöðu sem ber að leitast við að viðhalda og verja?

Einstök breyting á skuldum ríkissjóðs

Heildarskuldir ríkissjóðs, að frádregnum endurlánum og sjóðsstöðu ríkissjóðs, námu um 593 milljörðum um áramótin, samkvæmt nýrri samantekt Lánamála ríkisins. Hrein skuld ríkissjóðs hefur því lækkað um rúma 290 milljarða frá desember 2013. Þá er ekki tekið tillit til þess að ríkissjóður á sem svarar 400 milljörðum króna í íslensku bönkunum sé miðað við eigið fé. Með þessum niðurgreiðslum hefur skuldin farið úr því að vera 50% af vergri landsframleiðslu í að vera rúm 21% af vergri landsframleiðslu. Það má fullyrða að þá séu fá ef nokkur dæmi þess að slík breyting hafi orðið í nokkru ríki fyrr né síðar á svo skömmum tíma. Með fylgir graf Morgunblaðsins.hrein skuld

Morgunblaðið vitnaði til þess í frétt sinni af þessu tilefni að þær upplýsingar fengust frá Seðlabankanum að hinn 26. febrúar næstkomandi væri stór flokkur á gjalddaga, nánar tiltekið skuldabréf að fjárhæð 52 milljarðar króna. Skuldin væri í krónum og hefði niðurgreiðslan áhrif á lausafjárstöðu ríkissjóðs. Fyrir vikið myndi niðurgreiðslan væntanlega ekki hafa áhrif á nettóskuldir en hins vegar lækka brúttóskuldir. Um væri að ræða skuldabréf sem gefið var út 2008 til 10 ára. Það var einmitt um haustið 2008 sem bankakerfið hrundi og er uppgjörið á bréfinu því táknrænt fyrir hagsveifluna.

Ríkisábyrgðir að lækka

Þá skiptir ekki síður máli að ríkisábyrgðir eru að lækka verulega að undanskyldum ábyrgðum vegna LÍN. Þannig hefur ábyrgt vegna Landsvirkjunar farið úr því að nema 310 milljörðum árið 2013 í að nema 96 milljörðum núna, lækkað um ríflega tvo/þriðju. Sömuleiðis hefur ábyrgð vegna Íbúðalánasjóðs lækkað verulega.

Þegar á allt þetta er litið er ljóst að fjármál ríkisins eru að færast í einstætt horf. Hvort það gefur færi til þess að hefja sjóðssöfnun til að skapa stöðugleika í framtíðinni skal ósagt látið en það er skiljanlegt að menn horfi til þess.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.