c

Pistlar:

23. janúar 2019 kl. 20:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Arkitektúr sem breytir borgum

Það var merkilegt að fylgjast með heimildarmynd um Frank Gehry, einn fremsta og þekktasta arkitekt heims, sem sýnd var fyrr í vikunni í Ríkissjónvarpinu. Í kynningu þáttarins var sagt að Gehry væri þekktur fyrir að skapa það sem í fyrstu virðist ómögulegt. Það er nokkuð til í því og þó hann sjálfur kunni ekki á tölvu þá væru sjónhverfingar hans í byggingalistinni sjálfsagt ómögulegar ef ekki kæmi til hin stafræna tækni. Hann virðist hafa það að markmiði að allar byggingar í hans nafni stingi í stúf við umhverfið og skapi þannig sinn eigin heim.frankgehry600

Tilefni myndarinnar var að á 84 aldursári var Gehry fengin til að hanna Tækniháskólann í Sidney sem var fyrsta húsið eftir hann í Ástralíu og hugsanlega það eina þó hann virki enn í fullu fjöri. Augljóst var að fólk greindi á um hvort útkoman væri meistaraverk eða hörmung. Sá er þetta skrifar hallast að hinu fyrrnefnda þó það sé langt í frá að Gehry sé óskeikull.

En margt í myndinni fékk mann til að hugsa um áhrif arkitektúrs á umhverfið og hvaða mátt djarfar og nýstárlegar byggingar hafa. Að hluta til finn ég sjálfan mig í ákveðinni mótsögn þar sem ég er hefðarsinni að sumu leyti en dáist um leið að ýmsu því sem módernískur arkitektúr, eins og sá er Gehry stendur fyrir, getur fært okkur. Þannig hef ég leyft mér að styðja gamla bæinn á Selfossi og hugmyndir um að byggja í eldri stíl í miðbæ Reykjavíkur. Ekki af því að módernískar byggingar séu ekki fallegar heldur til að styðja við söguna auk þess sem byggingar í gamla stílnum eru minimalískari en annað það sem við fáum að sjá og vinna vel með rýmið milli húsa sem sumir segja að nútímaarkitektúr snúist um.

Reykjavík og Bilbaó

Þetta má yfirfæra á margt sem er að gerast í Reykjavík þessi misserin. Nú eiga sér stað miklar framkvæmdir undir merkjum þéttingar sem gerir það að verkum að gömul svæði fá nýjar byggingar. Útlit og hönnun bygginganna vekja að sjálfsögðu athygli og þá ekki síður hvernig þær koma út í gamla miðbænum, hvernig þær falla að bæjarmyndinni sem er fyrir. Það er ekki hægt að ætlast til þess að allar byggingar séu tímamótabyggingar og við erum enn að jafna okkur á byggingu Hörpunnar sem varð til í því oflætisástandi sem hér varð til á síðasta áratug. Harpan er hins vegar orðin að kennileiti í Reykjavík og ein af þeim byggingum sem gefa borginni karakter og umtal. Það beinir sjónunum aftur að frægustu byggingu Frank Gehrys, Guggenheim-listasafninu í Bilbaó, Baskahéraði Norður-Spánar. Þegar ákveðið var að byggja safnið var Bilbaó ekki hátt skrifuð, hafði vissulega sinn sjarma en var í hugum flestra utanaðkomandi óspennandi iðnaðarborg sem hafði ekki mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Bygging Gehrys gjörbreytti þessu - og reyndar svo mjög að ljóst er að borgin hefur ekki ráðist í arðbærari framkvæmd. Hún þurfti reyndar ekki að gera annað en að útvega lóðina og svo sá Guggenheim-safnið og styrktaraðilar þessum um afganginn. Frá upphafi hefur fólk streymt til Bilbaó til að skoða safnið og tekjur borgarinnar af því einu hafa verið gríðarlegar auk þess sem ferðamannastraumurinn hefur fært henni miklar tekjur.

Hækkar fasteignaverð

En það er annað sem eftirtektarverðar byggingar geta gert. Það sést vel í kringum nýbyggingu Gehrys við Tækniháskólann í Sidney. Nánast um leið og ljóst var að ráðist yrði í bygginguna tók umhverfið að taka mið af henni, fasteignaverð fór að hækka og menn fóru að verja meira í nýjar byggingar. Verðmætaaukning birtist einnig í því að aðrir fóru að huga að eignum sínum og hverfið - sem hafði ekki verið hátt skrifað í Sidney - jókst að virðingu og naut meiri eftirtektar. Allt nánast vegna einnar byggingar. Þetta segir okkur auðvitað þá sögu að húsagerðarlist og tengsl hennar við umhverfið skiptir alla bæi og borgir miklu. Hugsanlega höfum við ekki gefið því nægilega gaum til þessa hér á landi.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.