c

Pistlar:

7. mars 2019 kl. 22:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Jóhönnustjórnin framlengdi kreppuna

Í bók sinni Lífið í lit - sem kom út fyrir stuttu - lítur Helgi Magnússon, iðnrekandi og fjárfestir, um öxl og fer yfir margt forvitnilegt í íslensku samfélagi. Hér er ætlunin að skoða það sem hann segir um vinstri stjórnina sem hér sat 2009 til 2013, Jóhönnustjórnina. Augljóslega er Helgi mjög gagnrýnin á það sem hann kallar glæfralegar yfirlýsingar um háskalega stöðu þjóðarbúsins sem hann segir að hafi líka sýnt skort á söguþekkingu. Þar sem Helgi sat einmitt í hringiðu atburðanna sem fjárfestir og valdamaður í lífeyrissjóðakerfinu en augljós áhrif Helga og aðkoma hans að mörgum mikilvægum ákvörðunum gera lýsingar hans á atburðunum sérlega forvitnilegar.

Helgi bendir á í bók sinni að samkvæmt athugunum hagfræðings Samtaka iðnaðarins var kreppan 2009 níunda auðmerkjanlega niðursveiflan í íslenskum efnahagsbúskap frá árinu 1940. Umhverfið hér hefði alla tíð verið sveiflukennt og Íslendingar byggju að langri reynslu af áföllum í efnahagslífinu. Helgi taldi að aðstæður væru þó betri en áður þar sem atvinnulífið hvíldi nú á mun breiðari grunni en fyrr. Við Íslendingar hefðum því átt að geta unnið okkur hratt út úr kreppunni. Það varð ekki og kennir Helgi röngum ákvörðunum Jóhönnustjórnarinnar um en hér verða ummæli Helga í bókinni rakin með leyfi höfundarins, Björns Jóns Bragasonar. Gefum Helga orðið.helgi magg2

Stjórnvöld framlengja kreppuna

„Við hjá Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins lögðum ofuráherslu á grundvallaratriðin á þessum tíma: Til að ná árangri yrði að eiga sér stað verðmætasköpun í atvinnulífinu. Enginn efnahagsbati yrði með útþenslu hins opinbera.
Ástandið átti eftir að versna stórum eftir því sem leið á árið 2009. Ofan á bankahrun og efnahagskreppu bættist stjórnmálakreppa. Fyrri ríkisstjórn var hrakin frá völdum þegar brýna nauðsyn bar til myndunar þjóðstjórnar. Allur fyrri hluti ársins fór í „pólitískan sandkassaleik“ eins og ég kallaði það í grein í tímaritinu Íslenskur iðnaður. Janúar var notaður til að fella ríkisstjórnina. Febrúar og mars fóru svo í flokksþing og prófkjör og apríl lagðist undir stutta kosningabaráttu. Þá fylgdi stjórnarmyndun og við völdum tók þriðja ríkisstjórnin á fjórum mánuðum sem varð að horfast í augu við síversnandi veruleika í efnahagsmálum, meðal annars vegna þess að dýrmætur tími hafði farið til spillis.

Til að gæta allrar sanngirni er skylt að geta þess að á stóli iðnaðarráðherra sat á þessum tíma stjórnmálamaður sem skildi vel hvernig bregðast ætti við vandanum. Það var Össur Skarphéðinsson. Hann vildi beita sér fyrir kraftmikilli uppbyggingu og boðaði metnaðarfulla iðnaðarstefnu. Fleiri ráðherrar voru framsýnir. Kristján Möller samgönguráðherra gerði sitt ýtrasta til að ná samstöðu um víðtækar framkvæmdir að fjárhæð 80 til 100 milljarðar króna næstu árin, en þetta var hluti af svokölluðum stöðugleikasáttmála sem ríkisvaldið og aðilar vinnumarkaðarins undirrituðu í júní 2009.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sveik flest það sem hún lofaði samkvæmt sáttmálanum en alveg fram á haustið 2010 voru horfur á að unnt yrði að hrinda í framkvæmd myndarlegu samgönguátaki sem var hluti sáttmálans. Þær aðgerðir hefðu haft í för með sér mikla atvinnusköpun þegar skortur var á vinnu, sér í lagi við verklegar framkvæmdir og þar með hefði mátt draga verulega úr þeim fólksflótta sem ríkti þessi árin. Samgöngubætur hefðu aukið umferðaröryggi og þar með bjargað mannslífum og verið marktækt skref í þá átt að hefja vegferð okkar út úr kreppunni,“ segir í bókinni.

Helgi segir að unnið hafi verið að langtímalausn á fjármögnun þessara verkefna í samstarfi við lífeyrissjóði. „Ég sat í samninganefnd Landssamtaka lífeyrissjóða sem undirbjó átakið með Kristjáni Möller. Við höfðum fallist á ávöxtunarkröfu sem var vel viðunandi, nærri 2,8 eða 2,9. Þessir samningar voru komnir á lokastig þegar Kristján hvarf úr ríkisstjórn að undirlagi Jóhönnu Sigurðardóttur. Hann þótti „of hagvaxtarsinnaður“ fyrir hina nýju leiðtoga á vinstrivængnum.““helgi

Ögmundur sveik áform Kristjáns

Ögmundur Jónasson tók við af Kristjáni Möller og að sögn Helga reyndi hann hvað hann gat til að kveða í kútinn áform í samgöngumálum með margvíslegum útúrsnúningum og klækjum hins æfða fjölmiðlamanns og áróðursmeistara eins og Helgi bendir á. Hann rifjar upp að Ögmundur hafi talað um „innstæðulausar ávísanir“ en ætlunin var að lífeyrissjóðir lánuðu fé til samgönguátaksins, langtímalán til 50 ára. Á sama tíma var atvinnuleysi í hámarki og fjárfestingar í lágmarki.

„Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hófst handa við mestu skattahækkanir í manna minnum. Við hjá Samtökum iðnaðarins vöruðum við því að stórauknir skattar myndu dýpka kreppuna, því þeir drægju úr framkvæmdavilja og frumkvæði fólks og fyrirtækja. Samtök atvinnulífsins lögðu á móti til að mótuð yrði vaxtarstefna og keppt að aukinni verðmætasköpun sem skilaði auknum tekjum í sameiginlega sjóði. Árin á undan hafði tekist að ná fram margvíslegum umbótum á skattkerfinu sem voru nú aflagðar á skömmum tíma. Samtök iðnaðarins höfðu lengi barist fyrir afnámi vörugjalda í iðnaði sem fyrr en varði voru komin á nýjan leik. Eignaskattur hafði blessunarlega verið aflagður en sneri nú aftur undir heitinu „auðlegðarskattur“. Flest nágrannaríkjanna höfðu fyrir löngu horfið frá eignaskatti þar sem hann tekur venjulega ekki mið af greiðslugetu eða afkomu og brýtur gegn mannréttindum borgaranna. Fjármagnstekjuskattur var einnig hækkaður um 80% og svo mætti lengi telja.“

Ofurskattastefna hægði á hjólum atvinnulífsins

Helgi segir að þessi ofurskattastefna hafi hægði á hjólum atvinnulífsins, aukið á atvinnuleysið og reikningurinn verið sendur fyrirtækjunum með hækkuðu tryggingagjaldi. „Við hjá Samtökum iðnaðarins sýndum fram á að hægt væri að ráðast í umtalsverða hagræðingu í rekstri hins opinbera án þess að það bitnaði á velferð og menntakerfi, en nauðsynlegt var að draga úr yfirbyggingu hins opinbera (sem bara óx á þessum tíma og hefur vaxið enn frekar síðan). Vinstristjórnin skellti skollaeyrum við þessum ábendingum okkar og fór sínu fram. Því miður hafa síðari ríkisstjórnir ekki undið ofan af þessum skemmdarverkum á skattkerfinu nema að litlu leyti. Í ræðu minni á Iðnþingi 2010 sagði ég meðal annars:
Ástæða þess að svo illa gengur að endurreisa efnahag Íslendinga er einkum sú að það eru hér áhrifamikil öfl sem virðast vera á móti hagvexti og beita afli sínu gegn endurreisn atvinnulífsins vegna þess að þau telja að hag landsmanna verði betur borgið í framtíðinni án hagvaxtar.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra tók þessi ummæli til sín og virtist hafa umhverfst af reiði segir Helgi og bætir við: „Í sjónvarpsviðtali sagði hún það vera „raunalegt að Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins einblíni á virkjanir og stóriðju“. Raunar hafði ég einnig sagt í ræðu minni að nú væri gríðarlega sterk undiralda í nýsköpun, hátækni, hönnun og sprotafyrirtækjum – en Svandís kaus að skauta framhjá þeim hluta ræðunnar í gagnrýni sinni. Ráðherrarnir völdu bara úr það sem þeim fannst henta í því stríði sem þeir höfðu kosið að eiga í við samtök fyrirtækja.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, var ekki síður óhress með ummæli mín og gagnrýndi mig í ræðu sinni á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins á Hilton Nordica nokkrum dögum síðar og sagði orðrétt: „Ég er orðinn þreyttur á þessu kjaftæði, að ríkisstjórnin sé ekkert að gera í atvinnumálum.“ Þá svaraði hann fyrir þá gagnrýni sem ég og fleiri höfðum haft á Vinstri græna og Svandísi Svavarsdóttur vegna orku- og stóriðjumála. Raunar bað hann mig að standa upp og þrumaði út úr sér: „Hár og myndarlegur maður sem ætti stundum að gæta orða sinna“! Ég stóð upp, veifaði þéttsetnum salnum sem klappaði, enda var þetta fundur Samtaka atvinnulífsins og ég á heimavelli, en Steingrímur ekki. Þarna naut ég stuðnings flestra en fáir í salnum sem fylgdu Steingrími að málum. Steingrímur sagði líka að við talsmenn atvinnulífsins ættum að taka Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, okkur til fyrirmyndar. – „Hlustið á Vilhjálm Egilsson,“ sagði hann. Þar færi hófstilltur maður – eitthvað annað en við hinir.

Þrátt fyrir að ég væri ekki á mælendaskrá þá gat ég ekki stillt mig um að biðja um orðið fyrst að mér að sveigt, hélt upp í pontu og sagði Steingrím ekki segja okkur í Samtökum atvinnulífsins fyrir verkum – hverja við hlustuðum á – við hefðum ráðið Vilhjálm Egilsson til starfa og hlustuðum vel á hann. Svo bætti ég við: „Villi sat tólf ár á Alþingi og hefur sýnt að það getur verið líf eftir þingsetu. Fleiri ættu að láta á það reyna.“ Þá skellti salurinn upp úr,“ segir Helgi.

Jóhönnustjórnin: Loforð svikin og ráðherra brýtur lög

Helgi rifjar upp að aðilar vinnumarkaðarins höfðu undirritað stöðugleikasáttmálann við ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms í júní 2009, en samkvæmt honum hafði ríkisstjórnin tíma fram í nóvember 2009 til að ryðja úr vegi hindrunum vegna atvinnuuppbyggingar hér á landi. „Þegar til átti að taka töldu nokkrir ráðherrar sig ekki bundna af samningnum og svo fór að ríkisstjórnin sveik sáttmálann í ýmsum veigamiklum atriðum. Þetta varð til þess að Samtök atvinnulífsins sögðu sig frá sáttmálanum og síðar Alþýðusambandið einnig,“ segir Helgi og bætir við.

„Þegar komið var fram á haust 2010 töluðu forkólfar ríkisstjórnarinnar enn á ný um að fá aðila vinnumarkaðarins „að borðinu“ til að setja upp „samstarfsáætlun“ og „vinna að framgangi afmarkaðra verkefna“ eins og það var kallað. Þarna átti einfaldlega að sviðsetja meint samstarf. Í nóvember 2010 skrifaði ég um þessi mál í grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Þeir sömu og sviku“ (ég valdi enga tæpitungu í fyrirsögnum eins og sjá má): Er sanngjarnt að ætlast til þess af okkur sem erum í forystu atvinnulífsins eða verkalýðshreyfingarinnar að við förum að treysta þessu fólki núna eftir þá reynslu sem fékkst síðastliðinn vetur? Ég segi nei við því. Ég sé reyndar ekki að neitt hafi breyst sem réttlætir að við höfum ástæðu til að gera samkomulag við ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar við höfum þessa bitru reynslu af efndum – eða öllu heldur svikum varðandi stöðugleikasáttmálann,“ segir Helgi.
Hann rifjar upp að þingmenn hafi verið hvattir til að koma sér saman um mikilvægar aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum þvert á línur milli stjórnar og stjórnarandstöðu til að binda enda á niðursveifluna og leiða þjóðina út úr ógöngunum.

Viðvarandi stjórnarkreppa

„Viðvarandi stjórnarkreppa eða pólitísk kreppa stóð uppbyggingu, hagvaxtar aukningu og verðmætasköpun fyrir þrifum. Svandís Svavarsdóttir, um hverfisráðherra tafði mjög fyrir uppbyggingu í orkufrekum iðnaði, en Samtök iðnaðarins eru þó ekki sérstök stóriðjusamtök. Okkur fannst brýnt að halda því til haga og bentum gjarnan á mikilvægi annarra iðnfyrirtækja, til dæmis Marels og Össurar sem höfðu orðið til úr engu öðru en hugmyndum en voru komin í forystu á sínum sviðum á heimsmarkaði og veittu þúsundum atvinnu. Þessi tvö fyrirtæki eru dæmi um það hvað hægt er að gera á Íslandi ef þolinmæði er viðhöfð.

Deilum okkar Svandísar var hvergi nærri lokið, en fá skrif mín frá þessum árum vöktu jafnharðar deilur og grein sem birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2011 undir heitinu „Svandís er dýr“. Svandís hafði áður neitað að staðfesta skipulag nokkurra hreppa við Þjórsá sem gerði ráð fyrir mjög hagkvæmri virkjun. Neitun Svandísar var bæði ómálefnaleg og til þess fallin að tefja fyrir mikilvægri uppbyggingu og fjárfestingu hér á landi. Hún var aðeins að þóknast þröngum pólitískum hagsmunum Vinstri grænna með synjuninni. Þarna var ekki verið að sökkva óspilltri náttúru svo náttúruverndarsjónarmið áttu ekki við. Samtök atvinnulífsins og fleiri aðilar höfðu haldið því fram á opinberum vettvangi að ákvörðun ráðherra væri ólögmæt, enda kom það líka á daginn og ráðherrann var dæmdur, fyrst í undirrétti og síðar í Hæstarétti. Eftir dóminn í Hæstarétti hafði Svandís sagt að uppi væri „túlkunarágreiningur“ um málið. Ekki bar hún meiri virðingu fyrir lögunum en svo. Ég talaði enga tæpitungu í greininni „Svandís er dýr“. Ráðherrann hlyti að segja af sér eftir að hafa gerst sekur um lögbrot. Annars yrði hann alls ómarktækur og einskis virði sem handhafi framkvæmdarvalds innan ríkisstjórnarinnar: Ef ráðherra víkur ekki við slíkar aðstæður skulum við hætta öllu tali á Íslandi um bætta stjórnsýslu og það að læra af hruninu og allt sem var rætt um í rannsóknarskýrslu Alþingis. Átti ekki að breyta vinnubrögðum á öllum sviðum? Átti ekki að bæta stjórnsýsluna? Átti ekki að bæta samfélagið? Eða átti aðhaldið einungis að gilda um tiltekna stjórnmálaflokka og tiltekna hópa í þjóðfélaginu? Átti það til dæmis ekki að gilda um þá sem eru vinstri eða grænir eða Vinstri grænir?

Ég bjóst auðvitað við að einhverjir hrykkju við að lesa þessa grein mína um Svandísi (þótt ekki væri nema fyrir titilinn) en kannski urðu viðbrögðin ögn meiri en mig hafði grunað fyrirfram. Það var auðvitað ágætt. Mér þótti vænt um að sjá að ég hafði hreyft við mönnum og vakið athygli þeirra. Til þess var greinin líka skrifuð.
Þorsteinn Pálsson sagði meðal annars um málið í sínum vikulega pistli í Fréttablaðinu: „Meirihluti Alþingis telur án skoðunar að umhverfisráðherrann hafi staðist öll pólitísk siðgæðispróf. Það bendir til að siðaviðmiðin liggi sunnar í álfunni en Norðurlönd.“
Svandís lét sér ekki segjast þrátt fyrir hæstaréttardóminn – frekar en aðrir íslenskir ráðamenn sem gerst hafa sekir um lögbrot – og sat sem fastast á ráðherrastóli,“ segir Helgi í bók sinni sem er greinilega merkileg heimild um samskipti viðskiptalífsins við Jóhönnustjórnina. Helgi er greinilega ekki í vafa um að aðgerðir stjórnarinnar hafi dýpkað kreppuna og er margt sem bendir til þess að þar hafi hann rétt fyrir sér.