c

Pistlar:

23. mars 2019 kl. 17:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Farandverkamannalandið Ísland

Í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs er vakin athygli á því að 16.000 ný störf í hafa orðið til í ferðaþjónustu síðustu 10 ár. Um leið hefur ferðaþjónustan verið stærsti drifkraftur fordæmalausrar fjölgunar erlendra ríkisborgara. Frá 2010 hefur launþegum af erlendum uppruna fjölgað um 14.000 segir í skýrslunni. Af þessu má sjá að uppgangurinn í ferðaþjónustunni hefur að stórum hluta orðið til vegna innflutnings vinnuafls. Sjálfsagt má sjá svipaða þróun í byggingaiðnaðinum. Hér á landi vinna tugþúsundir fólks af erlendum uppruna. Mikilvæg viðbót við okkar vinnumarkað og hafa gefið honum ákveðin sveigjanleika sem meðal annars er ætlað að vinna gegn sveiflum sem að endingu leiða til óstöðugleika og verðbólgu.kjara

Senda 50 þúsund krónur heim á mánuði

Skýrsluhöfundar telja það öfugsnúið að kjarabaráttan á Íslandi snúi öðru fremur að þeirri atvinnugrein sem hefur skapað flest störf, laðað til landsins fólk í leit að betra lífi sem sendir að meðaltali 50.000 krónur heim í hverjum mánuði og greiðir ein hæstu laun í þessum iðnaði á heimsvísu sé skotspónninn í yfirstandandi kjaradeilum.

„Með því eru fetaðar hættulegar slóðir með lífskjör landsmanna enda er deginum ljósara að í ferðaþjónustu sem og víða annars staðar í atvinnulífinu er lítið svigrúm til launahækkana um þessar mundir. Síðast reyndist vissulega vera meira svigrúm en talið var, enda féll flest með efnahagslífinu árin 2015–2017, og átti það inni kjarabætur eftir batann í kjölfar hrunsins. Ekkert bendir til þess að það sé raunin í dag og hlutirnir eru frekar að snúast gegn okkur,“ segir í skýrslunni.

Þessa daganna erum við minnt á hve skjótt hlutirnir geta snúist gegn okkur ef ekki er farið að með gát. Þetta eru ekki ný sannindi, allir vita hve dýrkeypt verkföll geta verið en enn dýrari eru samningar sem engin innistæða er fyrir. Samningar sem leiða til verðbólgu er versta niðurstaða kjarasamninga fyrir verkafólk. Til viðbótar þarf það erlenda farandverkafólk sem hér er að huga að því að veiking krónunnar getur orðið því dýrkeypt. Samningar sem hafa í för með sér verðbólgu og veikingu krónu draga úr getu fólksins til að senda peninga heim til sín. Kaupeyririnn - íslenska krónan - rýrnar og þá fæst minna fyrir hana erlendis. Að ekki sé talað um ef kemur til uppsagna. Þá er hætt við að farandverkafólkið finni fyrst fyrir því eins og gerðist í kjölfar bankahrunsins 2008.

Aðferðafræði þjóðarsáttarinnar hent

Til að koma í veg fyrir óraunhæfa samninga, kollsteypur og vond vinnubrögð við kjarasamningagerð hefur undanfarna áratug verið reynt að byggja upp samskiptakerfi á vinnumarkaði með það að markmiði að byggja upp traust, skýrari markmiðssetningu, nákvæmari vinnureglur og stefnumörkun sem horfir frekar til kaupmáttar en krónutöluhækkana. Svona norræna útgáfan af þjóðarsáttinni, segja menn gjarnan. Þar er horft til þess að kaupmáttur hefur aukist hægt og jafnt í Skandinavíu undanfarna áratugi. Kröfugerð og nálgun sem við sjáum nú á íslenskum vinnumarkaði en því einstök og vekur furðu.

Þegar nýr formaður var kosinn hjá VR, stærsta verka­lýðsfé­lag lands­ins, var hann spurður um fram­hald Salek-sam­komu­lags­ins og vinn­unn­ar í kring­um það mód­el. Hann boðaði strax breytingar. „Úrslit­in eru kýr­skýr. Ég fer ekki að vinna að nor­rænu samn­inga­mód­eli þegar ég er kos­inn til að gera það ekki,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson í samtali við Morgunblaðið fyrir tveimur árum þegar hann var kosinn. Frá formanni Eflingar hafa komið enn undarlegri yfirlýsingar enda virðist hún taka stríð fram yfir frið sé það í boði. Afraksturinn birtist nú í kjaradeilu sem nýtur augljóslega minni og minni stuðnings á meðan höfuðpaurarnir forherðast.

Lögmál hagfræðinnar verða ekki rofin. Samningar sem ekki byggja á framleiðniaukningu eða betri rekstri munu að endingu leiða til verðbólgu, verðmætarýrnunar og lakari kjara þegar upp er staði.