c

Pistlar:

10. apríl 2019 kl. 10:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sólbakaður efnahagur Ítalíu

Þegar horft er í kringum sig hér í Sýrakusu á Sikiley beinast hugsanir ekki endilega að efnahagslegum vandamál. Stundum er eins og lífið í sólríkari löndum geti gengið nokkurn veginn óháð efnahagslegum lögmálum nútímans. En svo er ekki og hér í þriðja stærsta hagkerfi Evrópusambandsins hefur verið viðvarandi uppdráttarsýki í langan tíma. Svo mjög að hagur almennings á Ítalíu hefur lítið sem ekkert batnað síðan árið 1999, um það leyti sem evran var tekin upp. Hér hefur ríkt stöðnun og opinberar skuldir hafa haldið áfram að aukast eftir upptöku evrunnar. Sem vel að merkja Ítalir áttu aldrei að fá, en Ashoka Mody, fyrrum fulltrúi Þýskalands og Írlands í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, hefur fjallað rækilega um það í bók sinni, Eurotragedy: A Drama in Nine Acts, sem hér hefur áður verið vitnað til. Mody telur að það hafi verið hagfræðileg mistök að hafa Ítali með í evrusamstarfinu, mistök sem skýrist af tilteknum sögulegum forsendum.ortigia 9.4.3

Evran mistök fyrir Ítali?

Ashoka Mody hefur einnig bent á þá staðreynd að Evrópski seðlabankinn hefur reynst ófær um að koma hagvexti af stað á evrusvæðinu upp á eigin spýtur. „En þegar menn horfast í augu við vaxtartregðuna í hinu alþjóðlega hagkerfi og sérstaklega heimsversluninni – er það í allra þágu að beita sér fyrir samhæfri lækkun á gengi evrunnar. Á sama tíma þarf samhæfða örvun fjárfestinga alþjóðlega til að skapa ný tækifæri til vaxtar,“ skrifaði Mody í grein í Morgunblaðinu fyrir fimm árum síðan. Því miður á þessi greining enn við.

Núverandi skuldir Ítala nema um 2,4 trilljónum evra og er ríflega 130% af landsframleiðslu Ítala og stærsta skuld innan ESB. Bankakerfið er sem lamað og útlán í lágmarki sem kemur niður á fjárfestingum eins og áður hefur verið vikið að hér. Sitjandi ríkisstjórn Ítalíu ætlaði að örva hagkerfið með ríkisútgjöldum, sem hleypa myndi ríkissjóðshallanum yfir 3% af vergri landsframleiðslu (VLF), en var gerð afturreka með fjárlagafrumvarpið af Brüssel-valdinu. Tillögurnar sýndu vel þá örvæntingu sem farin er að grafa um sig meðal Ítala.

Heillandi en blóðug saga

En aftur að Sikiley. Hér í Sýrakusu er undursamlega fallegur bæjarhluti á eyjunni Ortygia sem er eins og hún leggur sig á heimsminjaskrá UNESCO. Saga borgarinnar er svo gömul að fornminjar má finna allstaðar enda var hún ú lykilstöðu á tímum Grikkja og Rómverja og frameftir aldir. Hér má því finna menningarstrauma allstaðar að sem gerir hana heillandi þó margt í þeirri sögu sé vissulega blóðug. Í steinnámu í útjaðri borgarinnar voru einu sinni geymdir 7000 herfangar frá Aþenu og áttu fæstir þeirra afturkvæmt. Í kringum árið 400 fyrir Krist bjuggu hér um 300.000 manns og borgin ein sú voldugasta við Miðjarðarhafið. Hér er því glæsta sögu að finna.ortigia4

Við leigjum af ítölskum hjónum sem hafa komið hér upp leiguíbúð til ferðamanna af miklum metnaði og hér í þröngum götum Ortygia má heyra töskuhljóð túristanna skella á steinlögðum strætum. Víða má finna gistingu en hér er afskaplega þéttbýlt á eyjunni og fasteignaverð hátt. Vissulega rekst maður á talsvert af húsum í niðurníðslu og maður verður undrandi að sjá heilu húsin tóm eða í eyði. En svo er inn á milli verið að gera upp og bæta þannig að vel má sjá framfarir enda nýtur Sýrakusa vaxandi vinsælda sem ferðamannastaður. Það ætti ekki að koma á óvart því hér er allt sem ferðamaðurinn getur óskað sér; saga, matur, vín, afþreying og menning en hér fylgja með myndir úr gamla bænum í Sýrakusu.
Opinber mannvirki virðast vera í þokkalegri hirðu og mörgu virðist því þoka í átt til framfara.