c

Pistlar:

10. maí 2019 kl. 17:09

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ál í 50 ár á Íslandi

Árs­fund­ur Sa­máls, samtaka álfyrirtækja á Íslandi, var hald­inn í gær. Þar var meðal ann­ars farið yfir stöðu og horf­ur í áliðnaði á Íslandi og rætt um sam­keppn­is­um­hverfið á heimsvísu. Á þeirri hálfu öld sem liðin er frá því að álfram­leiðsla hófst á Íslandi nem­ur heild­ar­fram­lag áliðnaðar, með óbeinu fram­lagi til ís­lenskr­ar verðmæta­sköp­un­ar, 1.150 millj­örðum króna. Yfir 2000 manns hafa með beinum hætti atvinnu af álframleiðslu hér á landi og 5000 manns ef afleidd störf eru talin. Það munar um minna en eins og dyggir lesendur þessara pistla ættu að vita hefur alloft verið vikið að þessu hér.álið

Yf­ir­skrift fund­ar­ins var „Álið er hluti af lausn­inni,“ en á þess­um tíma­mót­um eru 50 ár liðin frá því álfram­leiðsla hófst á Íslandi. Merkileg tímamót en segja má að með því hafi verið gerð fyrsta tilraun til að rjúfa hið einhæfa atvinnulíf sem hér var og renna fleiri stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar. Landsvirkjun fagnaði 50 ára afmæli sínu 2015 en saga áliðnaðarins og Landsvirkjunar er samofin. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætti á fundinn og talaði fyrst og fremst um umhverfismál en ríkisstjórnin hefur boðað aðgerðaráætlun í umhverfismálum innan skamms.

Loftslagsmál í forgrunni

Lofts­lags­mál og um­hverf­is­mál voru enda í for­grunni á fundinum og var meðal annars fjallað um þann ár­ang­ur sem náðst hef­ur í lofts­lags­mál­um í ís­lensk­um áliðnaði, en kol­efn­is­los­un hef­ur dreg­ist sam­an um 75% frá ár­inu 1990. Þá eru frekari aðgerðum í far­vatn­inu hjá ál­ver­un­um til þess að draga enn frek­ar úr los­un. Engum blöðum er um það að fletta að á heimsvísu er mikilvægt að ál sé framleitt með umhverfisvænum hætti hér á landi.

En Kína framleiðir nú ríflega helming alls áls í heiminum og gerir það með eins óumhverfisvænum hætti og unnt er. Um leið eru þeir að auka útflutning sinn og ryðjast um á heimsmarkaði. Framleiðsla Kínverja minnir á að þeir í raun svindla í heimsviðskiptum eins og Bandaríkjaforseti er nú að benda á. Til hvers eru Íslendingar að reyna að standa sig þegar Kínverjar gera það ekki? Jú, auðvitað af því að það er rétt að gera í sjálfu sér svo vitnað sé til siðspeki Immanúels Kants en afleiðingar af framleiðslusvindli Kínverja - með vísun í hve lítt þeir hafa skeytt um umhverfisþáttinn - er að það er skekkja í viðskiptaumhverfinu. Kínverjar borga ekki það sem þeir eiga að borga fyrir að menga. Magnús Þór Ásmundsson, stjórnarformaður Samáls, benti svo einnig á að það væri ekki íslenskum rafmagnsframleiðendum til framdráttar að selja upprunavottorð orkunnar svo erlendir framleiðendur sem menga geti keypt sér aflátsbréf.magnus

Mikilvægi álklasans

Álver á Íslandi keyptu vör­ur og þjón­ustu af inn­lend­um fyr­ir­tækj­um fyr­ir um 23 millj­arða króna í fyrra að raf­orku und­an­skil­inni. Hundruð ís­lenskra fyr­ir­tækja veita ál­ver­um þjón­ustu ásamt stofn­un­um á borð við há­skóla og Ný­sköp­un­ar­miðstöð. Þess til viðbótar kaupa álfyrirtækin um 75% þeirrar orku sem hér er framleidd.

Í sam­tali í Morg­un­blaðinu í dag minn­ist Pét­ur Blön­dal, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ál­fyr­ir­tækja (Sa­máls) á Ísland, þess er Michael Port­er, einn þekkt­asti fræðimaður heims á sviði viðskipta, hélt fyr­ir­lest­ur á Íslandi árið 2006. „Þá sagði hann að tveir klas­ar hefðu mynd­ast á Íslandi. Ann­ars veg­ar sjáv­ar­klasi og hins veg­ar orku- og málm­klasi,“ seg­ir Pét­ur og held­ur áfram: „Áliðnaður­inn er til­tölu­lega ung grein á Íslandi í sam­an­b­urði við sjáv­ar­út­veg. Við leggj­um mikið upp úr því að stuðla að grósku í áliðnaðinum og höf­um í því skyni komið á fót Álklasa, þar sem starfa um 40 fyr­ir­tæki og stofn­an­ir. Smám sam­an hef­ur ís­lensk­ur áliðnaður verið að feta sig eft­ir virðiskeðjunni með flókn­ari og virðis­meiri afurðum og bættri ork­u­nýt­ingu.“

Álframleiðsla nýtur umtalsverðra styrkja víða um heim þannig að íslenskur áliðnaður er að berjast við skakka samkeppni sem getur reynst okkur dýrkeypt, meðal annars vegna kolefnisleka eins og formaður samtaka álframleiðenda kallaði það. Benda má á að fyrir ekki löngu síðan voru framleiddar um 3 milljónir tonna af áli á Ítalíu. Öll sú framleiðsla er nú horfin. Það gæti verið okkur lexía.