c

Pistlar:

20. maí 2019 kl. 11:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagfræði og hagsýni

„Það er ekki hægt að kenna mönnum hagfræði. Annað hvort eru þeir hagsýnir eða ekki.“ Þessi setning er höfð eftir Birni Pálssyni bónda á Löngumýri, alþingismanni og þekktum orðháki í sinni tíð. Auðvitað má strax gera athugasemd við setninguna á þeim forsendum að ekki sé samasemmerki milli hagfræði og hagsýni, fræða og lífshátta. Páll heitinn Skúlason heimspekingur setti fram tilgátuspurningu um hvort hægt væri að kenna gagnrýna hugsun? Spurning er afar mikilvæg frá sjónarhóli vísinda og fræða og hún er það ekki síður frá sjónarhóli kennslu og skólastarfs rétt eins og velta má fyrir sér með hagfræði og hagsýni. Velta má fyrir sér hvort slíkir hlutir verði kenndir en sjálfsagt hefur Björn haft í huga þau gömlu íslensku sannindi að það er sitthvað búmaður og búskussi.

Í annarri sögu af Birni er vitnað til þess að hann sagði að bændur yrðu ríkir einfaldlega af því að þeir borðuðu minna en þá langaði í! Þannig var nú hagfræði fyrri tíma. En látum það liggja milli hluta. Á hverjum tíma þurfa menn að glíma við að ná endum saman, bæði í heimilishaldi og þeim sameiginlega rekstri sem þjóðfélagið setur á herðar nútímamanninum. Á þeirri vegferð virðist tilhneiging til þess að hið sameiginlega bókhald aukist jafnt og þétt og virðist manni stundum sem ekkert verði við ráðið. Er það virkilega svo að fleiri og fleiri trúi því að ríkisvaldið fari betur með peninga en einstaklingar? Að engin verkefni verði unnin til sameiginlegra þarfa án þess að ríkið komi að því?ferða

Úr plús í mínus

Þessa daganna erum við minnt á að skjótt skipast veður í lofti í hagkerfinu og samkvæmt nýrri spá hagdeildar Landsbankans má gera ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman á þessu ári eftir fádæma hagsvaxtartíma. Við förum úr plús í mínus. Svo virðist sem margir hafi misreiknað áhrif falls WOW en leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag metur það svo að við Íslendingar verðum af 100 milljarða gjaldeyristekjum á árinu. Það er því ljóst að þröngt verður fyrir dyrum hjá mörgum búmanninum í ferðaþjónustunni. En um leið getum vonast eftir því að þessi niðursveifla vari stutt því sömu spámenn spá betri tíð og jákvæðum hagvexti strax á næsta ári. Þetta ár snýst því öðru fremur um að lifa af, hvaða skilaboð svo sem felast í því.

En hvernig á að bregðast við svona tíðindum? Hagkerfi eru flókin fyrirbæri en bjartsýni neytenda er lykilþáttur þar sem einkaneysla stendur undir um það bil helmingi landsframleiðslu. Nú virðast íslenskir neytendur óvenju hagsýnir og tilbúnir að borða minna en þá langar til. Skuldastaða heimila landsins er óvenju góð og sama má reyndar segja um ríkissjóð og ýmsa aðra opinbera aðila eins og var vikið að í pistli hér fyrir skömmu. En hvernig skal bregðast við samdrættinum og ef hann stendur svo stutt, sem spáð er, kallar það á sérstakar aðgerðir? Jú, ljóst er að opinberir sjóðir verða af talsverðum skatttekjum vegna samdráttarins. Eðlilegt er að taka tillit til þess og best væri ef reynt væri að skera niður í rekstri fremur en fjárfestingum enda vitað mál að það er uppsöfnuð fjárfestingaþörf víða í samfélaginu.

Vaxtalækkun til marks um nýjan veruleika

Spáspekingar Landsbankans virðast telja að að slakinn framundan muni ekki hafa neikvæð áhrif á verðbólguþróun. Við höfum séð verðbólgu vaxa undanfarið en því er spáð að hún gangi hratt niður. Seðlabankinn er búin að gefa rækilega í skyn að hann vilji og geti lækkað vexti og áðurnefndur leiðarahöfundur Fréttablaðsins orðar væntingar margra þegar hann kallar eftir 50 punkta vaxtalækkun. Þrátt fyrir allt virðast verðbólguvæntingar skaplega. Allt þetta getur stuðlað að því að við fáum vaxtalækkun á samdráttartíma, nokkuð sem við eigum ekki að venjast á Íslandi en er kannski til marks um lögmál hagfræðinnar geti eftir allt saman átt við hér.

Dr. Már Wolfgang Mixa gerði það að umtalsefni í pistli hér á bloggsíðum Morgunblaðsins að þróun vaxta væri um margt óvenjuleg núna enda sjáum við að vaxtaálag ofan á verðtryggða vexti er óvenju lágt. Væntingar eru um að verðtryggðir vextir lífeyrissjóðanna fari undir 2% á næstunni. Ef það gengur eftir er ljóst að vaxtakostnaður íslenskra heimila er að lækka verulega. Og ef verðbólgan gengur hratt niður ætti fjármagnskostnaður íslenskra heimila að ganga niður.

Þorsteinn Gylfason heimspekingur og prófessor við Háskóla Íslands, var eitt sinn spurður um það hvað væri menning. Þorsteinn hugsaði sig dágóða stunda um, en sagði svo: „Menning er að gera hlutina vel.“ Má vera að það sé tímabært að við Íslendingar reynum að sýna bæði hyggindi og ráðdeild við aðstæður sem kalla á að gera hlutina vel.