c

Pistlar:

9. júní 2019 kl. 11:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heilbrigðisstefna: Sátt fyrir hverja?

Engum dylst að heilbrigðismál eru bæði dýr og mikilvægur málaflokkur fyrir þjóðina. Stefnumótun þar er því gríðarlega mikilvæg og nauðsynlegt að um hana ríki sem víðtækust sátt. Þingsályktunartillaga Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi í byrjun síðustu viku. Blásið var til blaðamannafundar í framhaldi þess og ráðherra talaði nokkuð gagnrýnislítið inn í myndavélarnar. Sagði að um mikilvæg tímamót væri að ráða og í tilkynningu sem hún lét senda út við sama tækifæri er staðhæft að stefnan verði „mikilvægur leiðarvísir“ fyrir forstjóra í heilbrigðiskerfinu. Augljóslega var hér verið að draga upp mjög takmarkaða mynd enda ekki einhugur um ágæti stefnunnar eins og ummæli Þórarins Guðnason, formanns Læknafélags Reykjavíkur, í Morgunblaðinu um helgina bera með sér. Hér hafa birst tveir pistlar síðan ráðherra efndi til heilbrigðisþings þar sem málsmeðferðin og niðurstaðan hefur verið gagnrýnd. Meðal lækna eru augljóslega miklar efasemdir enda augljós tilraun til að ríkisvæða sem mest í heilbrigðiskerfinu í samræmi við pólitíska stefnu ráðherrans. Það er ekkert sem segir að það sé skynsamleg stefna.

„Það hefur verið kallað eftir heilbrigðisstefnu sem geti ríkt viðtæk sátt um í samfélaginu. Að sú stefna og sú sátt lifi lengi, sé nothæf á hverjum tímapunkti og að það verði ekki kollsteypur með nýjum ráðherra. Því miður er þetta ekki sú breiða stefna sem heilbrigðisstarfsfólk og þjóðin var að kalla eftir,“ segir Þórarinn í áðurnefndu viðtali en hann gagnrýndi tilurð heilbrigðisstefnunnar harðlega í grein í Læknablaðinu fyrr á árinu. Þar sagði hann meðal annars að stefnan væri ekki afrakstur faglegrar og nútímalegrar stefnumótunarvinnu sem sátt hefði náðst um í samfélaginu heldur liður í að ríkisvæða heilbrigðisþjónustuna hratt og hljótt. Það kemur enda ekki á óvart að mest ánægja ríkir með framtakið í hinum opinbera geira.

„Veikleikar stefnunnar opinberast fyrst og fremst í því sem í hana vantar. Til dæmis er nær ekkert fjallað um endurhæfingu, öldrunarþjónustu, sjúkraflutninga, lýðheilsu, forvarnir, hjúkrunarheimili og geðheilbrigðismál,“ skrifaði Þórarinn í Læknablaðið. Auðvitað verður að horfa til þess hér er ekki um að ræða aðgerðaáætlun en hún hlýtur að koma í framhaldinu.lækna

Lítið sem ekkert samráð

„Vi alene vide“ eða vér einir vitum, er þekkt tilvitnun í Friðrik sjötta Danakonung sem taldi samráð við þegnana til lítils. Sami hugsunarháttur virðist ríkja í heilbrigðisráðuneytinu núna. „Það er mjög erfitt að vera ósammála því sem stendur í þessu plaggi enda er allt mjög almennt orðað. Staðreyndin er hins vegar sú að það vantar gríðarlega mikið í stefnuna,“ segir Hjálmar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Klínikurinnar, í samtali við Morgunblaðið. Hjálmar kveðst vera ósáttur við tilurð heilbrigðisstefnunnar og notar orðið handabakavinnubrögð þegar hann lýsir henni. Ekkert raunverulegt samráð hafi verið. „Þetta virðist eingöngu vera innanbúðarvinna í ráðuneytinu. Það var boðað til Heilbrigðisþings og svokallaðs vinnufundar svo það er auðvelt fyrir stjórnvöld að segja að allir hafi fengið tækifæri til að segja sína skoðun. Málið er hins vegar að öll fagfélögin, aðilarnir sem hefðu átt að vera í sjálfri vinnunni, þeim var markvisst haldið frá vinnu við þessa heilbrigðisáætlun. Athugasemdir Læknafélags Íslands eru til að mynda algjörlega hundsaðar. Það er verið að telja almenningi trú um að þetta sé gert í sátt og samvinnu en því fer fjarri. Þetta er einhliða stefna án tillits til þeirra sem eru að sinna málaflokknum.“ Aðrir horfa á þetta jákvæðari augum eins og kemur fram í frétt Morgunblaðsins: „Þetta er klárlega skref í rétta átt.
Það hefur alla tíð vantað stefnu í þennan málaflokk og ég lít það jákvæðum augum að þetta plagg sé komið fram,“ segir Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum en stefna heilbrigðisráðherra virðist vera sú að færa sem mesta af heilbrigðiskerfinu undir spítalann.

Augljóst er að öll áhersla núverandi heilbrigðisráðherra er að færa alla starfsemi í heilbrigðiskerfinu undir opinberan rekstur, óháð skilvirkni eða kostnaði. Það kann að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér og í raun undarlegt hve lítil umræða var um samþykkt þingsályktunarinnar í þinginu. Getur verið að Alþingi takið málið ekki nægilega alvarlega?