c

Pistlar:

20. júní 2019 kl. 16:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Átti að bjarga WOW?

Einu sinni sem oftar er erfitt að finna réttu orðin þegar kemur að því að skilgreina efnahagsástandið hér á landi í dag. Ljóst er þó að það hefur hægt verulega á hagkerfinu, svo mjög að það má tala um samdrátt og þær raddir gerast háværari sem telja að samdrátturinn verði meiri og langvinnari en talið var fyrir nokkrum mánuðum. Allar hagvaxtarspár frá því í upphafi árs eru farnar út í veður og vind. Á móti vinnur að Seðlabankinn hyggst standa við fyrirheit sín um að lækka vexti. Það breytir því ekki að að öllum líkindum mun landsframleiðslan dragast saman.wow

Stærsti einstaki atburðurinn sem getur skýrt þetta er fall WOW en augljóst er að áhrif þess voru vanmetin. Hvort það eitt og sér hefði réttlæt að fara í björgunarleiðangur skal ósagt látið. Þrír Vestfirðingar, þeir Hallgrímur Sveinsson, Guðmundur Ingvarsson og Bjarni G. Einarsson, skrifa grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: „Hefði ekki verið heppilegra að handstýra nauðlendingu WOW air?“ Þó erfitt sé að sjá að nákvæm greining liggi að baki þá skal ekki lítið gert úr hyggjuviti þremenninganna. Þeir eru ekki einir um þessa skoðun og margir telja að ríkisvaldið hefði átt að grípa inní ferlið þegar útséð hafi verið með önnur úrræði. Tímaþátturinn einn og sér er reyndar til að flækja málin því þó að upplýst hafi verið að mál WOW hafi verið inni á borði ríkisstjórnarinnar þá er ómögulegt að segja hvaða upplýsingar lágu fyrir á hverjum tíma. Augljóst er að enn eiga eftir að koma fram mikilsverðar upplýsingar þar sem félagið er í gjaldþrotameðferð. Eins og vikið var að í pistli hér fyrir skömmu þá er þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, búin að biðja um rannsókn á þætti opinberra eftirlitsaðila í málinu. Það virðist því þegar kominn vilji til þess að skoða hina opinberu aðkomu að málinu.

Hagstjórnarmistök?

En þremenningarnir eru síður en svo einir um þessa skoðun. Fyrir rúmum 10 dögum skrifaði Marinó G. Njálsson tölvunarfræðingur þetta á Facebook-síðu sína: „Að bjarga ekki WOW (og láta Skúla sigla sinn sjó) eru einhver stærstu hagstjórnarmistök síðustu áratuga. Ég varaði við því að gera ekkert og benti á líklegar afleiðingar. Í mínum huga snerist þetta aldrei um að bjarga Skúla, heldur að koma í veg fyrir hrun í gjaldeyristekjum, tekjum ferðaþjónustunnar og tekjum ríkissjóðs og síðast en ekki síst bjarga störfum fólks. Hvað voru menn að hugsa, sem tóku þá ákvörðun að láta WOW sigla sinn sjó?“ Ekki var annað að sjá en að þessi skoðun Marinós fengi talsverðar undirtektir meðal þeirra sem tóku þátt í umræðunni á Facebook.

Sá er þetta skrifar verður var við að margir styðja afskipti ríkisvaldsins. Það er reyndar áberandi að ríkisstjórnin virtist ekki hafa nein sérstök úrræði tiltæk þegar á reyndi. Það vita allir að embættismenn munu aldrei taka slíka ákvörðun eða stýra henni. Þeir skrifa skýrslur meðan húsið brennur. Ákvörðunin var því ríkisstjórnarinnar en hún mat það svo að það væri ekki fýsilegt. Velta má fyrir sér hve margar leiðir voru skoðaðar. Bent hefur verið á að þýska ríkisstjórnin stýrði Air Berlín inn til lendingar þegar á þurfti fyrir ári og virtist ekki kosta miklu til. En aðstæður voru aðrar hér.

Verulegur samdráttur

Aldrei í sögu Atvinnuleysistryggingasjóðs og Ábyrgðasjóðs launa hafa jafn margir misst vinnuna á sömu stundu og við gjaldþrot WOW og frá upphafi var ljóst að starfsemi Vinnumálastofnunnar yrði að miklu leyti helguð þessu verkefni vikurnar á eftir. Runólfur Ágústsson, fyrrverandi formaður stjórna Atvinnuleysistryggingasjóðs og Vinnumálastofnunar, veltir upp áhrifum gjaldþrots WOW og fjöldauppsagna víða í kjölfarið á útgreiddar atvinnuleysisbætur. Augljóslega fannst honum að meira hefði mátt gera.

Hverjar eru afleiðingarnar? Talið er að samdráttur í flugi til Íslands sé um 30%, ferðamönnum hefur fækkað um 20% (apríl til áramóta miðað við sama tíma árið 2018, samkvæmt spá Isavia), um 52% fækkun skiptifarþega milli ára (apríl - desember, samkvæmt spá Isavia). Marinó telur að þetta hafi í för með sér samdrátt í gjaldeyristekjum upp á 140 til 200 milljarða króna, bara á þessu ári. Það muni síðan leiða til samdráttar í tekjum ríkissjóðs upp á 30 til 40 milljarða króna á þessu ári. Samfara þessu verði aukning atvinnuleysis með útgjöldum upp á milljarða á ári eins og áður sagði. Um leið verður að skera niður útgjöld til að vernda fjárlög.

En inngrip voru ekki auðveld, þó ekki væri nema vegna samkeppnissjónarmiða. Hafa má í huga að Indigo Partners gátu líklega fengið WOW á silfurfati og Icelandair líka en hvorugt félagið vildi stíga inn. Það er því vandséð hvernig íslenska ríkið átti að fara að því að bjarga flugfélagi sem meira að segja eigandinn er búinn að sjá að er ekki hægt að reka á íslenskum vinnumarkaði. En um þetta verður án efa deilt enn um sinn.