c

Pistlar:

22. júní 2019 kl. 13:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mannfjöldaþróun: Hvað á að gera við allt þetta fólk?

Morgunblaðið rifjaði það upp í ágætri fréttaskýringu í vikunni að gert er ráð fyrir að íbúum jarðar fjölgi úr 7,7 milljörðum í 9,7 milljarða fyrir árið 2050 og að fjöldi íbúa Afríku sunnan Sahara tvöfaldist. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Jarðarbúum gæti síðan fjölgað í ellefu milljarða fyrir lok aldarinnar. Þetta er að mestu í takt við fyrri spár sem sýna að þrátt fyrir lægri fæðingartíðni þá er erfitt að grípa í mannfjölgunarbremsuna. Líklega mun ekkert eitt setja meiri áraun á gæði jarðarinnar en fjölgun fólks en um þetta sama efni var fjallað hér í pistli á sumardaginn fyrsta.

Það tók mannkynið 200.000 ár að ná einum milljarði en aðeins 200 ár að ná 7 milljörðum. Það eru ekki nema um 100.000 ár síðan menn byrjuðu að dreifa sér um jörðina og uppfylla hana. Við upphaf tímatals okkar er talið að um 150 til 200 milljónir manna hafi búið á jörðinni.mannf

Frjósemi og betri viðurgerningur og betra fæði stuðlaði öðru fremur að mannfjöldaaukningu. Yfirleitt er miðað við að frjósemi þurfi að vera sem svarar 2,1 barni á hverja konu til þess að viðhalda mannfjöldanum til langs tíma. Í skýrslunni er gert ráð fyrir því að meðalævin lengist yfirleitt, meðal annars í fátækum löndum þar sem hún er sjö árum skemmri en í öllum heiminum. Meðalævilengd jarðarbúa er nú 72,6 ár og gert ráð fyrir því að hún verði 77,1 ár um miðja öldina.

Níu lönd sjá um fjölgunina

Í skýrslu SÞ kemur fram að spáð er mikilli mannfjölgun í nokkrum löndum, meðal annars vegna þess að íbúarnir lifa lengur, en í öðrum löndum er útlit fyrir að barnsfæðingum haldi áfram að fækka. Gert er ráð fyrir því að árið 2050 verði rúmur helmingur íbúa jarðar í aðeins níu löndum: Indlandi, Nígeríu, Pakistan, Kongó, Eþíópíu, Tansaníu, Indónesíu, Egyptalandi og Bandaríkjunum.

Talið er að íbúum Kína, fjölmennasta ríkis heims, fækki um 2,2% fyrir árið 2050. Íbúum hefur fækkað um að minnsta kosti prósent í alls 27 löndum frá árinu 2010 vegna lægri fæðingartíðni.mannfj

Fækkun í mörgum löndum

Í grein Morgunblaðsins er rakið að í skýrslu SÞ kemur fram að dauðsföll eru nú fleiri en barnsfæðingar í Hvíta-Rússlandi, Eistlandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Ítalíu, Japan, Rússlandi, Serbíu og Úkraínu en gert er ráð fyrir því að aðflutningur fólks vegi upp á móti því. Meðalfæðingartíðnin í heiminum lækkaði úr 3,2 börnum á hverja konu árið 1990 í 2,5 börn í ár og gert er ráð fyrir því að hún lækki í 2,2 börn fyrir árið 2050.

Allt frá tíð breska prestsins Thomasar R. Malthus (1766 - 1834) hafa menn óttast að mannkynið festist í gildru fólksfjölgunar án hagvaxtar. Það hefur ekki orðið en miklu fleira fólk á jörðinni getur reynst erfitt viðfangsefni. Þess ber þó að geta að allt eru þetta spár og þær hafa oft brugðist um þetta efni.