c

Pistlar:

5. ágúst 2019 kl. 13:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Var evran mistök?

Í dag nota um það bil 340 milljónir manna í 19 löndum evruna. Þessi sameiginlegi gjaldmiðil hefur búið til það sem er kallað er evrusvæðið innan Evrópusambandsins. Sameiginlegur gjaldmiðill, studdur af Seðlabanka Evrópu átti að vera æðsta stig hinnar efnahagslegu sameiningar. Pólitísk eining hlyti síðan að koma í kjölfarið eins og flestir forystumenn ESB hafa róið að öllum árum undanfarið og vikið var að í síðasta pistli.

Það hefur hins vegar varla farið framhjá mönnum að miklar efasemdir hafa verið um evruna, bæði meðal stjórnmálamanna, hagfræðinga og fræðimanna. Óhætt er að segja að þau lönd sem ekki hafa tekið upp evruna innan ESB hafi gert það af tveimur ástæðum; þau hafa ekki fengið það eða ekki viljað það. Bretland er stærsta ríkið innan ESB sem ekki notar evru sem gerir útgöngu Breta úr sambandinu mun einfaldari. Allar vangaveltur Grikkja um að ganga út úr evrunni strönduðu á framkvæmdinni, enginn í Grikklandi treysti sér að fara í slíka aðgerð þó þeir fegnir vildu eins og Yanis Varoufakis, hagfræðingur og fyrrverandi fjármálaráðherra í Grikklandi lýsti ágælega í bók sinni Adults in the Room: My Battle with Europe’s Deep Establishment sem fjallað var um hér í pistli á síðasta ári.

Greining Ashoka Mody

Hér hefur áður verið greint frá skoðunum hagfræðingsins Ashoka Mody en hann var innsti koppur í búri hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og einn valdamesti maður sjóðsins í Evrópu og stýrði meðal annars aðgerðum hans á Írlandi eftir bankahrunið. Ashoka Mody hefur undanfarið verið í fylkingarbrjósti þeirra hagfræðinga sem gagnrýnt hafa samrunaferli Evrópusambandsins hvað harðast og þó einkum framkvæmd og stefnumótun varðandi eitt myntsvæði eða evruna. Á síðasta ári kom út bók hans Eurotragedy: A Drama in Nine Acts, sem hefur hlotið mikla athygli. Þar fer hann yfir söguna og forsendur að baki því að ákveðið var að setja evruna á flot en hún fagnaði 20 ára afmæli sínu um nýliðin áramót.

Mody fer rækilega yfir söguna að baki evrunni og hvernig til hennar var stofnað í pólitískum hrossakaupum milli Frakka og Þjóðverja. Evran hafi verið draumur franska forsetans Pompidou en hann og fleiri Frakkar sáu ofsjónum yfir styrk þýska marksins í samanburði við frankann. Frakkar töldu að með sameiginlegri mynt myndu þeir hafa betri stöðu til að keppa við Þjóðverja. Það var svo ekki fyrr en í stjórnartíð Helmuts Kohl, kanslara Þýskalands, að evran varð að veruleika þvert á ráðgjöf þýska seðlabankans og fjármálaráðuneytisins þýska. Ráðgjafar Kohl sáu að hann var harðákveðinn í þessu, þetta átti að vera arfleifð hans eins og Ashoka Mody rekur rækilega í bók sinni. Að lokum var Kohl þó beðinn um að sleppa Ítalíu, því að ríkisfjármálin þar myndu aldrei ráða við að vera á sameiginlegu myntsvæði. Það varð ekki.2019.02-Sumarhefti

Stöðugur gjaldmiðill?

Í nýlegu viðtali við Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra í tímaritinu Þjóðmálum fer hún yfir stöðuna með athyglisverðum hætti en vitaskuld hefur ESB og upptaka evru haft áhrif á hina pólitísku umræðu hér heima. Lilja bendir á að kjarninn í rökum pólitískra stuðningsmann Evrópusambandsins hér á landi sé að Íslendingar þurfi stöðugri gjaldmiðil og það eigi að vera evran. „Mér finnst umræðan ekki byggð á því hvað er sjálfbært fyrir íslenskt hagkerfi. Umræðan einkennist oft af fyrirsögnum og það vantar dýpt,“ segir Lilja en fróðlegt er að lesa röksemdir hennar.

„Færustu hagfræðingar veraldar færa fyrir því góð rök að evran hafi verið mistök fyrir þau hagkerfi þar sem samleitni hagsveifla er ekki nægjanleg. Ábatinn af þátttöku í sameiginlegu myntsvæði verður að vera meiri en kostnaðurinn. Barry Eichengreen nefnir að ábatinn sem fólginn er í því að lækka viðskiptakostnað vegna sameiginlegrar myntar sé lítill og hægt sé að kaupa varnir á gjaldeyrismörkuðum gegn slíku. Milton
Friedman sagði á sínum tíma að slæm framkvæmd á peningastefnu væri til þess fallin að skaða hagkerfið og hagvaxtarmöguleika til framtíðar. Paul Krugman og Joseph Stiglitz eru á sama máli,“ segir Lilja en hún víkur að bók Ashoka Mody í viðtalinu.

Sameiginleg mynt krefst sameiningar á mörgum sviðum

Lilja bendir á að það er mjög vandasamt að vera með sameiginlega mynt án þess að vera með sameiginlega stefnu í ríkisfjármálum og sameiginlega skuldabréfaútgáfu. Hún vitnar til Wolfgang Schäuble, forseta þýska þingsins og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem hefur látið hafa eftir sér að draga megi í efa hvort þróun Evrópusambandsins sé á réttri leið, þar sem ekki var farið í að styðja við peningastefnuna þegar henni var hrint í framkvæmd. Nú sé það of seint og erfitt verði að sannfæra aðildarríki ESB um að setja á laggirnar pólitískt sambandsríki.

Lilja segir að það sé ekki nóg að tala bara um stöðugan gjaldmiðil sem mælikvarða á lífsgæði. „Við höfum nú upplifað eitt mesta hagvaxtarskeið sögunnar með uppbyggingu ferðaþjónustunnar, sem leitt hefur af sér mikið innflæði á gjaldeyri. Við höfum verið með hagvöxt upp á um 4% að meðaltali og þá vilja sumir að við séum á sama tíma meðlágvaxtagjaldmiðil með neikvæða raunvexti. Við hefðum með þannig gjaldmiðil endað í óraunhæfum hagvexti og allt hefði farið úr böndunum,“ segir Lilja í viðtalinu við Þjóðmál og vísar aftur til skrifa Milton Friedman. Það er fróðlegt að sjá Lilju setja hagþróunina undanfarið í samhengi við þessi skrif og þessar kenningar um samspil peningastefnu og hagvöxt.

Eigin peningastefna auðveldar að fást við hagsveiflur

Lilja bendir á að nú sé samdráttur í íslenska hagkerfinu en þá komi eigin peningastefna til hjálpar, nokkuð sem við gætum ekki notið ef við værum á evrusvæðinu. „Hagsveiflur eru ekki samfelldar á milli Íslands og lykilhagkerfa í Evrópu. Því þurfum við að vera með sveigjanlegri mynt og þá peningastefnu sem tekur mið að því sem er að gerast hér. Við erum nú með stóran gjaldeyrisforða og hreina erlenda skuldastöðu upp á 21% af landsframleiðslu, sem er nýlunda í íslenskri hagsögu. Skilyrðin eru okkur hagfelld en hagkerfið er vissulega smátt og við erum alltaf viðkvæmari fyrir utanaðkomandi aðstæðum. Við þurfum alltaf að vera á tánum en ég fullyrði að við hefðum aldrei getað unnið með jafngóðum hætti úr fjármálahruninu ef við hefðum verið í ESB. Við getum líka horft á kenningar Mundell um hið hagkvæma myntsvæði. Ein forsendan fyrir því að það gangi upp er sveigjanlegur vinnumarkaður. Hann er það að einhverju leyti í Evrópu en þó ekki að fullu. Bara það að það eru mörg mismunandi tungumál í Evrópu hamlar því að vinnumarkaðurinn sé sveigjanlegur, ólíkt því sem gerist til dæmis í Bandaríkjunum þar sem það er minna mál að flytja á milli svæða í leit að nýjum tækifærum eða eftir því sem efnahagurinn blæs.“