c

Pistlar:

9. ágúst 2019 kl. 15:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Glötum við þekkingarforskoti á nýtingu jarðvarma?

Nýting jarðvarma er eitthvert merkilegast verkfræðilega framlag okkar Íslendinga. Hitaveita Reykjavíkur (nú Orkuveita Reykjavíkur) tók til starfa árið 1930 og síðan má segja að nýting jarðvarma hafi aukist jafnt og þétt um land allt og sé þannig ein umfangsmesta orkunýting landsmanna. Þannig hefur okkur Íslendingum tekist að hita upp stóran hluta af hýbýlum okkar og um leið náð tökum á því að beisla jarðvarma til orkunýtingar.

Samhliða þessu hefur orðið til mikil þekking á þessu sviði, bæði verkfræðilega, umhverfislega og markaðslega. Í þessari þekkingu eru falin mikil verðmæti og íslendingar hafa verið ótrúlega umsvifamiklir við jarðvarmaframkvæmdir erlendis og getið sér gott orð vegna þekkingar sinnar og reynslu. Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna skýrasta dæmið um það en þar aðstoða Íslendingar þróunarlönd við að byggja upp sérfræðingahópa til að rannsaka og nýta jarðhitann eins og áður hefur verið bent á hér. Nú er hætta á að það forskot glatist.

Í ágætri grein í Morgunblaðinu fyrr í vikunni var bent á þá jákvæðu þróun að lönd úti í heimi nýti jarðvarma meira og betur. Þar er því haldið fram að það sé ákveðinn sigur fyrir okkur Íslendinga að jarðhitavinnsla hafi náð sér á strik í löndum eins og Keníu, Indónesíu og Filippseyjum. Í öllum þessum löndum höfum við Íslendingar komið að með þróunaraðstoð, Jarðhitaskólanum og útsendri sérfræðiþekkingu.jarð

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins má sjá á lista sem birtur var á vefnum Think Geoenergy að Kenía hefur ýtt Íslandi niður í 9. sæti á lista yfir lönd sem nýta jarðhita hvað mest. Hér fylgir með mynd af þessari nýtingu úr Morgunblaðinu. En í umræddri umfjöllun Think Geoenergy kemur einnig fram að framleiðsla orku með jarðvarma í heiminum náði 14.900 megavöttum í síðasta mánuði.

Þurfum að halda þekkingunni við

En það er fróðlegt að lesa það sem haft er eftir Guðna A. Jóhannessyni, orkumálastjóra, í greininni. Hann bendir á að Indónesía sé með margfalda orkugetu á við Ísland varðandi jarðhita og ekkert óeðlilegt að þeir fari fram úr í jarðvarmavinnslu. En Guðni kemur með áhugaverðar ábendingar: „Til þess að geta haldið áfram að sinna sérfræðivinnu og aðstoða erlend ríki þurfum við að hafa ferska reynslu af uppbyggingu jarðhitavirkjana og sérfræðinga sem haft hafa verkefni hér heima. Núna sneyðist um þessi verkefni og innlendi markaðurinn er að dragast saman,“ segir Guðni sem segist hafa áhyggjur ef ekkert verður að gert. Undir það er hægt að taka, hér er mikil skammsýni á ferðinni.

Hætta er á að með tímanum verði ekki hægt að veita eins markvissa þróunaraðstoð og nú er gert og draga þurfi úr sölu á útfluttri sérfræðiþekkingu jarðhitasérfræðinga. Guðni segir að Íslendingar eigi að halda áfram að þróa jarðhita og vatnsafl á landinu með skynsamlegum hætti.

Skoða betur áform um friðlýsingar

Guðni bendir á annað mikilsvert. Það þurfi að skoða miklu betur áform um friðlýsingar stórs hluta landsins með tilliti til þess að Íslendingar hafi miklu hlutverki að gegna í loftslagsmálum. Þá þurfi að tryggja afkomu landsmanna til framtíðar og orkutengdur iðnaður sé eitt af þeim gefnu tækifærum sem Íslendingar hafi í hendi. Mikil þróun hefur verið í jarðvarmanýtingu víða um heim og kappkostað er við að nýta hreinar orkulindir til orkuframleiðslu en á Íslandi hafi aukningin verið tiltölulega lítil undanfarin ár.

Guðni bendir réttilega á að það sé í rauninni ekki hægt að sjá margt annað í atvinnulífinu sem hafi sömu vaxtarmöguleika. Íslendingar verða að gæta þess að skerða ekki möguleika sína til atvinnuuppbyggingar og orkunýtingar, sérstaklega ekki þegar hún er jafn umhverfisvæn og jarðvarmi. Hægt er að taka undir að vinna við rammaætlun hefur hallast of mikið á náttúruverndarhliðina og of lítið tillit tekið til samfélagslegra og efnahagslegra þátta. Að þessu leyti eru Íslendingar á skjön við þróunina annars staðar í heiminum.