c

Pistlar:

18. ágúst 2019 kl. 16:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Talið niður í Brexit

Sjónvarpsstöðin Sky birtir á síðu sinni dagatal sem telur niður tímann þar til Brexit verður að veruleika þann 31. október næstkomandi (74 dagar til stefnu en Sky sýnir niðurtalninguna niður í sekúndur!) Ekki er ráð nema í tíma sé tekið enda margir farnir að telja niður til jólanna nú þegar! Brexit umræðan kemur og fer í bylgjum og sumt af því sem flýtur með er ekki beinlínis til að hjálpa fólki að fá raunsannar upplýsingar. Ný skýrsla sem átti að færa okkur Íslendingum sannanir fyrir því að við værum ein þeirra þjóða sem færu verst út úr Brexit gleymdi að taka með í reikninginn þær ráðstafanir sem nú þegar er búið að grípa til, meðal annars með tvíhliða samningaviðræðum við Breta sem vitaskuld þjóna hagsmunum beggja þjóða. Sem betur fer sáu glöggir blaðamenn Morgunblaðsins þetta. Vissulega er þörf á skynsamri nálgun en þegar samningaviðræður eiga sér stað vilja báðir koma sem best út úr því.esb

Greinilegt er að útgönguáætlun Evrópusambandsins eins og hún birtist í 50. grein stofnsáttmálans virðist ekki veita mikla aðstoð við að tryggja farsæla útgöngu enda greinilega ekki hugsuð til þess. Reyndar munu höfundar greinarinnar látið hafa eftir sér að þeir hafi ekki séð fyrir sér að þessi grein yrði nýtt. Augljóslega þarf ESB að laga regluverkið en spurning er hvort það er vilji til þess svona beint ofan í útgöngu Breta. Sú aðferðafræði, að fyrst þurfi að klára útgöngusamning áður en samið er um samstarfið eftir það, er eins bjánaleg og hún hljómar.

Meðferðin á Theresu May

Hér í pistlum hefur stundum verið vakin athygli á því að málið snýr ekki eingöngu að Bretum. Evrópusambandsmegin er ekki síður mikilvægt að fá einhverja skynsama niðurstöðu í málið og ef ESB á að vera málsvari lýðræðis og lýðræðislegra vinnubragða er ekki síður mikilvægt fyrir það að ljúka útgöngunni með einhverskonar samningi. Skyldi maður halda. Engum duldist að forkólfar ESB nýttu sér pólitíska og persónulega veikleika Theresu May þannig að hún komst hvorki lönd né strönd. Hvað ætluðu þeir sér með þeirri taktík? Að stöðva útgönguna? Ef svo er þá er það beinlínis í andstöðu við 50. greinina þó ófullkomin sé. Auðvitað ætlar Boris Johnson ekki að falla í sömu gryfju og hefur einfaldlega sniðgengið beinar viðræður við ESB enda sýndi framkoma þeirra við Theresu May að það er til lítils. Kannanir sýna að Bretar standa á bak við Johnson enda fyrir löngu orðnir þreyttir á þessum hringlanda. Forystumenn ESB eru ekki að afla sér mikilla vinsælda meðal almennings í Bretlandi með framferði sínu.brex

Er Evrópa að missa af lestinni?

Eins undarlegt og það nú er þá virðist umræða um snúast endalaust um vandamál Breta. En margir hafa orðið til að benda á uppdráttarsýki ESB. Einn þeirra er Larry Elliott, viðskiptaritstjóri breska blaðsins The GuardianÍ grein sem hann birti í mars síðastliðnum vakti hann athygli á því að efnahagur ESB væri að eldast samfara öldrun fólksins. Jú, vissulega eru mörg fyrirtæki á heimsvísu til í Evrópu en öfugt við Bandaríkin eru engin þeirra yngri en 25 ára. Af hverju verða ekki til fyrirtæki á borð við Google, Facebook og Amazon í Evrópu? Þegar best lét þá jafnaðist Volkswagen á við Ford og Simens á við General Electric. En nú er hún Snorrabúð stekkur. Ný fyrirtæki á heimsvísu verða ekki til í Evrópu. Það er fátt sem bendir til þess að Evrópa verði stór þátttakandi í fjórðu iðnbyltingunni eða við þróun gervigreindar. Í hvað fara rannsóknarsjóðir ESB, væri freistandi að spyrja?

Ein aðal tilgangurinn með evrusvæðinu var að búa til efnahagssvæði sem hefði styrkleika af stærðinni og gæti stutt við samkeppnishæfni efnahagslífsins. Það virðist ekki hafa orðið raunin að mati Elliott. Hvenær ætla stjórnendur ESB að horfast í augu við það?