c

Pistlar:

20. ágúst 2019 kl. 11:09

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heimsveldi og hungur hjá Viktoríu drottningu

Breska heimsveldið var á hátindi sínum á valdatíma Viktoríu drottningar en í Ríkissjónvarpinu má nú sjá aðra þáttaröðina um þessa merkilegu drottningu. Viktoría var drottning Bretlands frá 1837 og keisaradrottning Indlands frá 1. janúar 1877. Hún ríkti í yfir sextíu ár, lengur en nokkur annar breskur þjóðhöfðingi þar til Elísabet önnur tók fram úr henni árið 2015. Sem gefur að skilja höfum við haft aðgang að talsverðu leiknu efni um ævi Viktoríu og margt af því er heldur skáldað búningadrama eins og gefur að skilja. Meira að segja þættirnir sem nú eru sýndir í Ríkissjónvarpinu hafa með sér eilítinn sápukeim þar sem samband hennar við Albert prins er í forgrunni.viktor


Ævi Viktoríu hefur verið gerð skil í ótal þáttum og myndum. Sjálfsagt muna margir eftir því þegar Judi Dench lék hana á eldri árum í myndinni Mrs Brown en hún var gerð 1997. Þar mátti sjá skáldaðar hugleiðingar um samband hennar og John Brown húshaldara hennar í Skotlandi en hún var ekkja lengstan hluta ævi sinnar. Svo undarlegt sem það var, þá birtist Judi Dench aftur 20 árum síðar, þá orðin Dame, í mynd sem gekk út á svipað samband, þá við indverskan þjón af múslimaættum, Abdul Karim, sem leikinn var af Bollywood stjörnunni Ali Fazal. Söguþráðurinn í Viktoría & Abdul var með líkum hætti. Viktoría, þá orðin háöldruð, virðist hafa tekið miklu ástfóstri við þjóninn Abdul, ættingjum hennar til sárrar skapraunar. Svo mjög að þau íhuguðu að hafa af henni hátíðarhöld þegar hún var búin að ríkja í 60 ár, árið 1897. Svo virtist sem þau óttuðust að siðsemin, sem kennd var við hennar nafn, væri að hrynja á síðustu metrum valdatíðar Viktoríu. Auðvitað var það ekki svo en myndin lýsir einlægu og fallegu sambandi, kannski svolítið úr stíl við hið blóðuga samband heimsveldis hennar við Indverja.


Heimsendaspámaðurinn Malthus

En svona þættir gefa skemmtilega sýn á tíðarandann og þó að sagnfræðin sé sjálfsagt svona og svona þá er þáttaröðin um Viktoríu áhugaverð fyrir söguaðdáendur. Það er margt sem ung drottning þarf að átta sig á og á einum stað í öðrum þættinum sést þegar Viktoría er að reyna að setja sig inn í mannfjöldaspár prestsins og hagfræðingsins Thomas Robert Malthus (1766-1834) en hann var á sinn hátt heimsendaspámaður þess tíma, svolítið vinstrigrænn í hugsun! Malthus taldi að það væri óhjákvæmilegt að mannfjöldaþróunin færi fram úr fæðuframboði sem myndi að lokum leiða til hungursneyðar. Þegar ein slík ríkti á Írlandi vegna óstjórnar og lélegra viðbragða við uppskerubresti vísuðu breskir ráðmenna í kenningar Malthusar. Ástandið væri sönnun á réttmæti þeirra og á Írlandi ætti sér stað „leiðrétting,“ sem byggðist á því að Írar væru orðnir fleiri en landið gæti borið.

Við erum minnt á það í þáttunum að holræsismálum í London hafði ekkert farið fram síðan á tímum Rómverja og eins furðulegt og það er þá hafði kannski ekki miklu þokað fram árhundruðin á undan. Jú, ákveðin þekkingarauki hafði svo sem orðið í heiminum, svo sem á sviði stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og að hluta til náttúrufræði. En hvað hafði gerst á öðrum sviðum? Jú, ýmis verkþekking hafði sannarlega batnað og endurreisnin, skynsemishyggjan og aukin þekking í náttúruvísindum hafði haldið innreið sína en eigi að síður létu stjórnendur heimsveldisins milljónir Íra deyja úr hungri. Þetta var ekki atvik sem gerðist í fjarlægum hlutum heimsveldisins. Það var ekki hægt að skýla sér á bak við það.

Hungursneyð á Írlandi

Hungursneyðin á Írlandi var án efa eitt það ömurlegasta sem kom upp á veldistíma Viktoríu. Rétt við hallardyrnar hrundu Írar niður í hrönnum og ef marka má þættina virðist hún hafa tekið það nærri sér og knúið stjórnmálamenn, þá sem stýrðu í hennar nafni, að bregðast við. Auðvitað gerðist það allt of seint og enn eru sagnfræðingar að þrátta um tölu þeirra sem dóu en á þeim tíma var stjórnsýslan á engan hátt fær um að takast á við slíkan vanda. Írar guldu trúarfordóma, hörmulegrar stjórnsýslu og í raun kynþáttahyggju. Breska yfirstéttin virtist líta á þá sem óverðuga og það er rifjað upp að kaþólskir Írar voru lánir gjalda bresku biskupakirkjunni tíund þó þeir hefðu engan áhuga á því og sjálfsagt ekki efni á því heldur. Írska lágstéttin var landlaus leiguliðastétt sem hrökklaðist af jörðum sínum ef ekki var hægt að gjalda landskuldina. Hvatning til að bæta stöðu sína var lítil sem engin og leiguliðarnir bjuggu við endalaust hokur. Ekki bætti fyrir að menntaðir ráðamenn töldu á þeim tíma kenningar Malthusar í fullu gildi eins og áður sagði.

Eins og oftast er raunin, þá varð hungursneyðin á Írlandi ekki vegna skorts á mat. Matvælaskortur skýrist yfirleitt af öðru, skort á samgöngum, óeðlilegum viðskiptaháttum, og í þessu tilviki kornlögunum sem voru sett 1815, eftir að Napóleon hafði verið sigraður. Kornlögin voru sett í stað sérstaks stríðsskatts, sem hafði verið lagður á, þegar átökin við Napóleon stóðu yfir. Samkvæmt þeim mátti ekki flytja inn hveiti fyrr en verð á innlendu hveiti hafði náð ákveðnu marki og þá voru jafnframt settir háir tollar á hið innflutta hveiti. Kornlögin leiddu þannig til verulegrar hækkunar matarverðs og margir börðust gegn þeim. Vikuritið The Economist var meðal annars stofnað í því skyni að berjast fyrir afnámi kornlaganna og fyrir frelsi í viðskiptum og virðist hafa haft árangur sem erfiði því kornlögin voru afnumin árið 1846, þremur árum eftir að blaðið var stofnað.

Á fimm ára tímabili frá 1837 til 1842 var hungursneyð í Bretlandi og það skýrir að einhverju leyti tregðu breskra stjórnvalda að bregðast við hungrinu á Írlandi. Eins og oft áður þá mátu menn ástandið heima fyrir þannig að heimsveldið væri einungis þremur máltíðum frá uppreisn. Að fara að senda Írum mat hefði hugsanlega kynnt undir vannærðar stéttir iðnaðarborga Englands, eða svo töldu ráðamenn. Það grátlegasta var að allan tímann sem hungur geisaði á Írlandi var korn sent þaðan yfir til Bretlands. En kartaflan, matur fátæka fólksins, hún brást. Að lokum munu um ein milljón Íra hafa dáið úr hungri og tvær milljónir fluttust í burtu í því sem var án efa versta hungursneyð Evrópu á 19. öld. Flestir fluttu til Bandaríkjanna og fundu þar betra líf.VICTORIA_SERIES2_EP1_-25

Bestir í að stjórna

Valdatími Viktoríu var kenndur við hana og talað var um að sólin settist aldrei í heimsveldi hennar. Gladstone lávarður sagði að Bretar væru ekki bestir í listum eða menningu en þeir væru bestir að stjórna. Bretar litu í raun á sig sem farsæla stjórnendur sem breiddu út lýðræði, frjálslyndi og viðskiptafrelsi. Öfugt við Spánverja sem ráku heimsveldi sitt sem sigurvegarar eða konkvistadorar, landvinningamenn. Það sést kannski skýrt af því að Viktoría var ekki krýnd keisaradrottning Indlands fyrr en 1877 en fram að því hafði Austur-Indíafélagið ráðið öllu á Indlandi. Það var stofnað svo snemma sem árið 1600 vegna verslunar við Austur-Indíur og hafði í raun séð um að vinna Bretum land sem síðar gekk til krúnunnar. Það var einna fyrirferðarmest á Indlandsskaga og stjórnunarsaga þess ekki alltaf falleg en byggðist samt á hugmyndinni um viðskiptafrelsi sem að endingu lagði grunn að veldi Breta og byggði upp einstakt heimsveldi á æviskeiði Viktoríu drottningar.