c

Pistlar:

16. október 2019 kl. 23:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjávarútvegurinn: Minna fryst, meira ferskt

Furðumiklar breytingar eru að eiga sér stað í íslenskum sjávarútvegi og hafa í raun gert það alla þessa öld. Það ætti kannski ekki að koma á óvart þegar horft er til breyttra neysluvenja að útflutningsverðmæti ferskra afurða hefur aukist verulega og nam verðmæti þeirra rúmlega 25% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild á árinu 2018 samanborið við um 11% um síðustu aldamót. Þetta er gríðarleg aukning og hefur auðvitað þau áhrif að fullvinnsla sjávarafurða dregst saman hér heima.sjávar1

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 240 milljörðum króna á árinu 2018 og jókst um 43 milljarða frá fyrra ári. Hefur útflutningsverðmæti sjávarafurða ekki verið meira í krónum talið síðan árið 2015. Útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um tæp 22% á milli áranna 2017 og 2018 í krónum talið. Gengi krónunnar hefur veruleg áhrif á útflutningsverðmæti sjávarafurða og þar með tekjur sjávarútvegsfyrirtækja, enda er rúmlega 98% af sjávarafurðum flutt út. Það var einmitt gengi krónunnar sem var meðal áhrifaþátta sem leiddi til aukningar, en það veiktist um tæp 4% á milli áranna 2017 og 2018 sé tekið mið af ársmeðaltali gengisvísitölu krónunnar. Aðrir áhrifaþættir lögðust á sömu sveif, það er magn sjávarafurða sem hafði hvað mest segja um þá aukningu sem varð á útflutningsverðmæti sjávarafurða og svo verð afurða í erlendri mynt.

Alls voru flutt út 671 þúsund tonn af sjávarafurðum árið 2018, 61 þúsund tonnum meira en árið 2017. Þrátt fyrir að aukningin sé umtalsverð er hún ívið minni en það sem útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um á sama tímabili, eða 10% á móti 22%.

Frakkland stærsti markaðurinn

Rúmlega 90% af útflutningsverðmætunum fóru til sex stærstu viðskiptaþjóðir Íslendinga með ferskar sjávarafurðir á árinu 2018. Verulegar breytingar hafa orðið á mikilvægi einstakra markaða fyrir ferskar sjávarafurðir á undanförnum árum. Frakkland er stærsti markaður Íslendinga og þar á eftir kemur Bandaríkjamarkaður. Jafnframt má sjá að vægi þessara tveggja landa hefur aukist veruleg á þessum áratug. Á sama tíma hefur vægi Bretlands skroppið umtalsvert saman. Um þetta má nú finna ágæta samantektir með góðri myndrænni framsetningu á upplýsingasíðu sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi halda úti. Er hér stuðst við upplýsingar þaðan.

Rússabannið og frystar afurðir

Og það segir sig kannski sjálft að á sama tíma og markaðurinn kallar á ferskar afurðir þá dregst markaðurinn fyrir frystar afurðir saman. Hlutdeild frystra sjávarafurða var um 47% af heildar útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2018. Hefur vægi þeirra skroppið talsvert saman á þessum áratug. Rúmlega 80% af útflutningsverðmæti sjávarafurða fór til þessara 10 landa á árinu 2018 og sjá má af hlutdeild annarra landa, að vægi þessara tíu hefur aukist töluvert frá árinu 2014. Skýrist það meðal annars af viðskiptabanni Rússa en á árunum 2009 til 2015 fóru rúmlega 12% af verðmæti frystra afurða til Rússlands. Bretland hefur verið stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með frystar sjávarafurðir og hefur vægi þess markaðar verið á svipuðu róli á síðustu árum. Kína var þriðja stærsta viðskiptaþjóðin á árinu 2018 og sjá má að sá markaður hefur verið á verulegri siglingu á þessum áratug.sjávar2

Þeir stærstu verða stærri

Rúmlega 76% af útflutningsverðmæti sjávarafurða fór til 10 landa á árinu 2018 og sjá má af hlutdeild annarra landa, að hlutdeild þessara 10 þjóða hefur aukist töluvert á undanförnum árum. Bretland hefur verið stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með sjávarafurðir, en þó hefur vægi þess markaðar skroppið talsvert saman á undanförnum árum. Á fyrsta áratug þessarar aldar var að jafnaði um fjórðungur alls sjávarfangs fluttur út til Bretlands, miðað við verðmæti. Í fyrra nam hlutdeild Bretlands rúmum 15% og hefur hún ekki verið minni á þessari öld. Á sama tímabili hafa aðrir markaðir verið að sækja í sig veðrið og ber hæst að nefna Frakkland, Bandaríkin og Kína.

Saltfiskurinn dregst verulega saman

Vægi saltaðra sjávarafurða hefur dregist verulega saman á þessari öld. Um síðustu aldarmót voru þær 21% af útflutningsverðmæti sjávarafurða í heild en á síðustu árum hefur hlutdeild þeirra verið rúm 9%. Um 93%% af útflutningsverðmæti saltaðra sjávarafurða fóru til fimm stærstu viðskiptaþjóða Íslendinga á árinu 2018. Nokkurra breytinga gætir í vægi einstakra viðskiptalanda á þessum áratug og hlutdeild stærstu viðskiptalandanna fjögurra miðað við árið 2018, það er Spánar, Portúgals, Ítalíu og Þýskalands, hefur verið að aukast töluvert. Á sama tíma hefur því vægi annarra landa, þar með talið Nígeríu, skroppið töluvert saman segir í samantekt SFS.

Harðfiskurinn heldur sér

Vægi hertra sjávarafurða nam rúmum 3% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2018 sem er svipað og vægi þeirra hefur að jafnaði verið á þessari öld. 92% af útflutningsverðmæti hertra afurða fór til fjögurra stærstu viðskiptaþjóða Íslendinga á árinu 2018. Það gefur auga leið að Nígería er langstærst í viðskiptum með hertar sjávarafurðir. Þó hefur hlutdeild Nígeríu skroppið nokkuð saman á síðustu árum en ójafnvægi í gjaldeyristekjum þeirra veldur því eins og fjallað hefur verið um hér. Vægi annarra landa, eins og Portúgals og Spánar, hefur aukist nokkuð á sama tímabili.

Sama með mjöl og lýsi

Hlutdeild fiskimjöls og lýsis var rúm 14% af heildar útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2018. Hefur vægið verið á svipuðu róli á þessum áratug, með einhverjum lítilsháttar sveiflum. Rúmlega 91% af útflutningsverðmætunum fór til þessara sjö stærstu viðskiptaþjóða Íslendinga á árinu 2018. Noregur er langstærsta viðskiptaþjóð Íslendinga með fiskimjöl og lýsi enda ein stærsta fiskeldisþjóð heims. Talsverðar sveiflur hafa verið á milli ára á vægi útflutnings á mjöl og lýsi til einstakra viðskiptalanda á undanförnum árum og virðast Bretland og Bandaríkin vera einu löndin þar sem leitnin hefur verið nokkuð stöðug upp á við.