c

Pistlar:

19. október 2019 kl. 10:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rosa miklir peningar í samgöngur, takk!

Nánast daglega berast nýjar fréttir af því að miklir fjármunir séu að fara að streyma í innviðafjárfestingar hér á landi. Einstaka daga virðast haldnir fleiri en einn fundur þar sem þetta er tilkynnt. Stundum gengur svo mikið á að ekki næst að tilkynna öllum ráðherrum hvað er í gangi og svo virðist sem framkvæmdamennirnir hafi haft vit á að blanda ekki fjárveitingavaldinu í málið til að spara sér tíma!

Allt er þetta gott og blessað. Vitað var að nauðsynlegt er að taka til hendinni í samgöngumálum eins og oft hefur verið fjallað um í pistlum hér. Í raun er merkilegt að fylgjast með umræðunni núna og þeim yfirlýsingunum sem fylgja og átta sig á að lítið sem ekkert hefur verið gert í samgöngumálum í höfuðborginni undanfarna tvo áratugi og lítið yfir höfuð á höfuðborgarsvæðinu. Að því slepptu að reiðhjólastígar hafa verið lagðir sem er vel en kom þó ekki í veg fyrir að bíllausi dagurinn var haldinn á akveg. Var það ekki óþarfi?

Það er eðlilegt að styðja við almenningssamgöngur og hjólreiðar. En Reykjavík verður aldrei á pari við þær borgir sem menn vilja miða sig við í þeim efnum, svo sem Kaupmannahöfn og Amsterdam. Annað veðurfar, aðrar þarfir. Viðameiri úrlausnir eins og Borgarlína virðast enn furðu ómótaðar, illa skilgreindar og með óburðuga kostnaðaráætlun. Lengst af hafa Íslendingar treyst á bílinn og svo virðist enn. Staðbundin vandræði ættu ekki að þurfa að spilla því og áfram verðum við fámenn þjóð í stóru landi. Bíllinn verður áfram þarfasti þjónninn og með hverju árinu koma nýjar og sparneytnari tegundir.borgarlína

Miklubrautarstokkurinn

En vitaskuld blasir við að höfuðborgarbúar eiga eftir að upplifa mikil óþægindi og rask næstu árin á meðan verið er að vinna þau verk sem hafa verið boðuð. Tekið skal dæmi. Nú er sagt að færa eigi Miklubraut í stokk. Fyrst að norðanverðu, á svæðinu við Landspítalann, sem er loksins í uppbyggingarfasa þó að flestir viti að það er of seint og á vitlausum stað. En spyrja má sig hvernig í ósköpunum á að leiða umferðina framhjá á meðan Miklabraut verður sett í stokk? Jarðgöng um Hlíðarfót gátu á einum tíma virkað sem hjáleið fyrir hluta umferðarinnar sem fer um Miklubraut en hún sést hvergi á dagskrá núna. Hver verður hjáleiðin þegar ráðist verður í framkvæmdina á einhverjum umferðaþyngsta stað borgarinnar og tímasetningar benda til þess að verkið geti skarast við uppbyggingu nýja Landspítalans, gengur það? Fyrir utan að hægt er að undrast að vegaspotti sem hefur nýlega verið tekin í gegn og kostaði myndarlegar fjárhæðir skuli nú aftur tekin upp. Ekki mikil fyrirhyggja það.

Sæbraut í stokk

Annað sem ég hef verið að undra mig á sem íbúi í Vogahverfi er að nú á að setja Sæbraut í stokk hér fyrir neðan okkur á Langholtsveginum og settur verðmiði upp á 10 milljarða króna á verkið. Gott og vel, en aftur spyr maður sig; hver verður hjáleiðin? Hvert fer umferðin á meðan? Eins og áður er allt gert í vitlausri tímaröð. Nú er hafin uppbygging í Vogabyggð og húsin rísa hratt þar núna þó mér sé tjáð að treglega gangi að selja. Þarna er ætlunin að rísi 1300 íbúðir og því ljóst að veruleg umferð mun fylgja svæðinu. Þarna hefðu geta verið hjáleiðir á meðan framkvæmdum við stokkin verður, en það er líklega of seint núna. Vissulega mun Sæbrautarstokkur bæta umferðaflæðið því eins og staðan er nú þá mun enginn komast frá Vogabyggðasvæðinu og fráleitt að halda að Skeiðavogur geti flutt umferð þaðan. Ætlunin er að flytja börn úr Vogabyggð í Vogaskóla í sérstökum rútum. Vogabyggð hefur líklega í för með sér um 20 til 30 milljarða króna hækkun á kostnaði við Sundabraut, þannig að það er ekki nema von að borgaryfirvöld séu að reyna rukka innviðagjald af byggðinni þar. Lagalegur grundvöllur að þeirri gjaldtöku er vægast sagt óviss og er nú komin til dómstóla.umferð

Skattar, innviðagjöld eða eitthvað annað

Útsvarsgreiðendur í Reykjavík hafa verið seinþreyttir til vandræða en framúrkeyrsla ólíklegust smáverka vekja ugg meðal þeirra. Kostnaðaráætlanir framkvæmdanna vekja eðlilega tortryggni og þegar fréttamenn spurðu borgarstjóra beint um málið niðri í Ráðhúsi í vikunni vék hann sér undan að svara. Það er ekki einu sinni hægt að segja að hann hafi vikið sér fimlega undan því heldur setti hann bara á einræðu um annað. Þó var hann spurður einfaldrar spurningar (sem hafði verið til umræðu inni í borgarstjórn) um það hver ætti að greiða ef áætlanir stæðust ekki. Eðlileg spurning þar sem verkin byggjast á einhverjum reiknireglum um skiptingu kostnaðar milli ríkisvaldsins og borgarinnar. Það trúir því engin að kostnaðaráætlanir stórra og flókinna verka standist og því eðlilegt að fá botn í hvernig uppgjörinu verður háttað.

Þá er engin leið fyrir almenning í landinu að átta sig á hvað verður hægt að gera af þeim fjölmörgu framkvæmdum sem settar hafa verið fram til þessa því enn vantar skýra framkvæmdaáætlun. Þá er með öllu óljóst hvernig verður greitt fyrir framkvæmdirnar og hvaða auka álögur verða lagðar á ökumenn. Efasemdir um lögmæti innviðargjaldsins eru nú orðnar að dómsmálum og mikil andstaða við að leggja á sérstök vegagjöld innan höfuðborgarsvæðisins og þannig tvírukka í sumum tilvikum. Flýtigjöld eiga ekki við um framkvæmdir sem fólk hefur orðið að bíða eftir í áratugi. Í pistlum hér hefur verið bent á að Sundabraut beri veggjöld vegna eðlis framkvæmdarinnar. Það á tæpast við um flestar aðrar framkvæmdir hér í og við höfuðborgina.