c

Pistlar:

4. nóvember 2019 kl. 21:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ofurskattar og reglugerðafargan

Engum blöðum er um það að fletta að alskyns skattar og álögur skerða samkeppnisstöðu íslensks viðskiptalífs um þessar mundir. Ljóst er að mjög skortir á skilningi á mikilvægi þess að íþyngja ekki fyrirtækjum með reglugerðum og kostnaði. Ef menn gæta ekki að sér er mjólkurkúm hagkerfisins slátrað. Ef fyrirtækin rísa ekki undir kvöðunum fara þau á hausinn og allir eru verr settir. Það þýðir ekki að henda endalaust sandi inn í tannhjól atvinnulífsins, að lokum stöðvast þau. Lítum á nokkur dæmi sem hafa birst í fjölmiðlaumræðunni að undanförnu.

Fyrst til að taka eru fasteignaskattar en sem hlutfall af landsframleiðslu eru þeir hæstir á Íslandi á öllum Norðurlöndum, eða um 2%, tvöfalt hærri en í háskattalandinu Svíþjóð, þar sem þeir eru um 1%. Fasteignaskatturinn á atvinnuhúsnæði hittir atvinnulífið illa. Hann er tiltekið hlutfall af fasteignamati, en mat atvinnuhúsnæðis á landinu hækkaði um um það bil 77% á árunum 2014 til 2020. Þótt sum sveitarfélög hafi lækkað álagningarprósentu til að mæta þessum gríðarlegu hækkunum matsins nemur hækkun skattbyrði atvinnulífsins vegna fasteignaskatts á þessum tíma um 70%. Það skiptir miklu máli í þessari mynd að stærsta sveitarfélagið, Reykjavík, þar sem yfir 35% alls atvinnuhúsnæðis er að finna, hefur allan tímann haldið fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði í lögbundnu hámarki, þótt álagningarprósenta á íbúðarhúsnæði hafi verið lítillega lækkuð til að sýna eigendum þess sanngirni. Það hefur ekki átt við atvinnurekstur sem mun auðvitað hafa alvarlegar afleiðingar.leiga1

Hamfarir á veitingamarkaði

Forvitnilegt er að sjá þær hamfarir sem hafa verið á veitingamarkaði undanfarið. Morgunblaðið hefur fjallað um það í fréttum sínum að mikil hreyfing hefur verið á veitingamarkaði síðasta árið. Í ágúst greindi blaðið frá því að síðasta árið hefðu samtals um 40 staðir hætt eða hafið starfsemi í Reykjavík. Á þessu ári hefur mörgum þekktum veitingastöðum verið lokað. Af þeim má nefna Essensia, Nonnabita, Aalto bistro, Boston, Ostabúðina, Skelfiskmarkaðinn, Mikkeller & friends, Systur og fyrrverandi Michelin-staðinn Dill sem þó munu vera vonir um að opni á ný. Þá hefur verið talsverð hreyfing á plássunum í mathöllunum við Hlemm og á Granda, veitingastaðir hafa hætt en nýir komið í staðinn. Augljóslega er rekstrarumhverfið mjög erfitt. Fjölmörg viðtöl við veitingamenn sanna það, þeir puða og puða en hafa ekkert upp úr þessu. Skattar og reglur eyða hagnaðinum.

Sveinn Kjartansson matreiðslumaður var í viðtali við Ríkisútvarpið fyrir nokkrum dögum. Sveinn er velliðinn veitingamaður en hann lokaði nýverið veitingastaðnum Aalto Bistro sem hann rak í rúm fimm ár í Norræna húsinu. Hann segir í viðtalinu að forsendurnar fyrir einyrkjaveitingahúsarekstri brostnar. „Í mínu tilfelli var það þannig svona undir lokin að ég vann myrkranna á milli, alveg fleiri hundruð klukkutíma í mánuði, tók sjaldan frí og gat ekki borgað mér laun. Þannig að það fór eiginlega svona botninn af ástæðunni fyrir því að vera að reka veitingastað.“leiga2

Ekkert svigrúm til hækkana

Um helgina var greint frá því að veitingastaðnum Icelandic Fish & Chips við Tryggvagötu hafi verið lokað en hann státaði af þrettán ára rekstrarsögu í miðborg Reykjavíkur. Staðurinn naut frá upphafi vinsælda og bauð upp á góðan og ódýran mat. Í Morgunblaðinu var viðtal við stofnanda og einn eigenda, Ernu Guðrúnu Kaaber, en hún hefur ákveðið að snúa sér að öðru. Erna er harðorð í viðtalinu og í reynd furðulegt að það hafi ekki vakið meiri athygli. Hún segir að rekstrarumhverfi veitingastaða sé erfitt um þessar mundir. „Við höfum verið með sama verð á matseðlinum síðan 2015. Það hefur ekki verið neitt svigrúm til hækkana.“ Erna upplýsti einnig að þau hefðu verið búin að horfa á versnandi afkomu í einhverja mánuði. Sumarið hafi verið lélegt, mun verra en þau áttu von á. Um leið hefur allt hækkað. Að mati Ernu er helsti vandinn við að reka veitingastað í dag hækkun opinberra gjalda síðustu ár.

„Opinberar álögur hafa aukist gríðarlega á liðnum árum og manni finnst eins og við séum bara að fylla á þá sjóði sem tæmdust 2008. Hækkun á framlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði er komin upp úr öllu valdi og á sama tíma er ótrúlegt að tryggingagjald skuli ekki hafa lækkað. Svo er það atvinnutryggingagjald, ábyrgðarsjóður launa, mótframlag atvinnurekenda og hækkanir greiðslna í stéttarfélög. Það hefur allt hækkað. Á sama tíma og álögur hafa hækkað á atvinnurekandann hefur dregið úr því sem kemur í launaumslag fólks. Niðurstaðan er því að við höfum þurft að notast við færra starfsfólk en þegar ég var að byrja með staðinn. Maður getur ekki sagt að þetta sérstaka fyrirkomulag ýti undir atvinnurekstur.“

Alið á vantrausti og misklíð

Erna segir að ekki hafi verið gaman að reka fyrirtæki á liðnum mánuðum. „Það hefur verið leiðindaandrúmsloft í samfélaginu. Þessi nýi tónn í verkalýðsforystunni elur á vantrausti og misklíð. Það er ekki gaman að starfa í þeim anda. Á köflum finnst mér eins og það fólk viti ekki um hvað það er tala. Þetta er í það minnsta ekki fólk sem þekkir til rekstrar.“

Ýmislegt annað spilar inn í að sögn Ernu. Til að mynda sé of mikið framboð á veitingastöðum í Reykjavík. Hún kveðst raunar furða sig á áætlunum um opnun nýrra mathalla og veitingastaða í tómu húsnæði í borginni. „Ég skil ekki hvaða vegferð það er,“ segir Erna en fleiri geta undrast áherslur Reykjavíkurborgar í skipulagsmálum.

Þungt regluverk hægi á framleiðni

Í síðasta Viðskiptablaði var viðtal við Vignir Steinþór Halldórsson, stjórnarformann byggingarfélagsins MótX, en hann hefur áratuga reynslu af störfum innan byggingageirans. Í viðtalinu kemur fram að margar breytingar hafi átt sér stað innan geirans, en að mestu breytingarnar hafi orðið á regluverkinu. Skriffinnska og seinagangur innan stjórnkerfisins dragi úr framleiðni.bygja1

„Það má segja að mesta breytingin hafi átt sér stað í reglugerðarumhverfinu - byggingareglugerðin fór sem dæmi úr 80 blaðsíðum yfir í 180 blaðsíður á örfáum árum. Það hefur augljóslega haft mikil áhrif. Regluverkið hefur þyngst til muna og til marks um þetta hefur verið krukkað fimm sinnum í byggingareglugerðinni síðan árið 2012. Ég vonast til þess að byggingareglugerðin sé á meðal þeirra reglugerða sem yfirvöld hyggjast einfalda. Einföldun byggingareglugerðar myndi á endanum lækka verð til neytandans án þess að það bitnaði nokkurn skapaðan hlut á gæðunum,“ segir Vignir.

Hann bendir á að byggingatíminn sé hvað lengstur í Reykjavík. „Íslenskir iðnaðarmenn eru svo sannarlega með þeim duglegustu í Evrópu en það kemur niður á þeim hvað regluverkið og hið opinbera er svifaseint. Þar af leiðandi er framleiðni í íslenskum byggingaiðnaði hæg. Það getur tekið margar vikur eða mánuði að fara yfir einföld atriði sem veldur því að verk tefjast ítrekað. Byggingaframkvæmdirnar sjálfar eru því alls ekki að taka mestan tíma, heldur er tímafrekast að koma framkvæmdunum í gegnum skipulag og samþykki byggingafulltrúa. Framleiðnin hér á landi er ekki nógu góð vegna þess að í dag er það svo að það tekur minnstan tíma að reisa sjálft húsið, því aðdragandinn er orðinn svo langur. Skriffinnskan er orðin svakaleg í samanburði við það hvernig hún var," segir Vignir í Viðskiptablaðinu.
Það er sláandi að lesa þessar frásagnir af raunum fólks í atvinnulífinu. Hér er ekki um að ræða stórfyrirtækin, þau þola þetta kannski betur en ef frumkvöðlar og einyrkjar komast ekki áfram þá mun fljótlega fara að þynnast raðirnar í íslensku viðskiptalífi.