c

Pistlar:

4. desember 2019 kl. 16:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tvö ríkisfyrirtæki - tvær lausnir

Greint var frá því í síðustu viku að fyrirtækið Íslandspóstur væri að komast á réttan kjöl. Félagið hefur um árabil verið rekið með tapi en „árangurinn af stórfelldum hagræðingaraðgerðum á þessu ári er nú að koma í ljós,“ eins og sagði í frétt Markaðsins, viðskiptablaðs Fréttablaðsins við það tækifæri. Í frétt blaðsins kom fram að rekstrarhagnaður Íslandspósts á fyrstu tíu mánuðum ársins hefði margfaldast miðað við sama tímabil í fyrra og útlit sé fyrir að afkoman verði við núllið á næsta ári. Forstjóri Íslandspósts segir í viðtali við blaðið að þegar búið sé að leysa úr skuldavanda Íslandspósts geti fyrirtækið byrjað að skila hagnaði og orðið eitt arðbærasta póstfyrirtækið á Norðurlöndum! Ekki er víst að það sé raunhæft en hér hefur í pistli áður verið bent á hve nauðsynlegt var að taka á vanda fyrirtækisins. Þá var lagt til að selja félagið.

Nú skal ekki lítið gert úr þeim hagræðingaraðgerðum sem ráðist var í hjá Íslandspósti. Öfugt við til dæmis Ríkisútvarpið þurfti Íslandspóstur að skera niður í alvörunni og segja upp fólki. Þannig hefur félagið ráðist í sársaukafullar aðgerðir á meðan Ríkisútvarpið seldi bara eignir og breytti litlu sem engu í rekstri. Ríkisútvarpið hefur verið skorið reglulega niður úr skuldasnörunni án þess að þurfa að takast á við óarðbæran rekstur sinn og sníða sér stakk eftir þeim ramma sem lög kveða á um. Annað en Íslandspóstur þurfti að þola. Ný skýrsla Ríkisendurskoðunar bendir á margvísleg vandkvæði og lögbrot í rekstri Ríkisútvarpsins en öfugt við aðrar stofnanir og fyrirtæki hefur það engar afleiðingar.postur

Sjálfvirk brennsla á fé stöðvuð hjá Íslandspósti

Ekki skal lagt mat á þær aðgerðir sem Íslandspóstur hefur ráðist í. Mestu skiptir þó að sjálfvirk brennsla á fjármunum almennings sé stöðvuð. Það hafa verið gerðar tilraunir til að hagræða í rekstri Íslandspóst á liðnum árum en þær aðgerðir hafa fyrst og fremst snúist um að skerða þjónustu með því að fækka dreifingardögum og stytta opnunartíma. „Núna erum við hins vegar að ná þessum viðsnúningi með því að taka til í rekstrinum en á sama tíma stórauka þjónustu við viðskiptavini,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, í samtali við Markaðinn.

Frá því í maí hefur verið unnið að endurskipulagningu Íslandspósts sem sagði upp 43 starfsmönnum í sumar en alls hefur stöðugildum fækkað um 15 prósent. Fækkað var í framkvæmdastjórn um tvo og samhliða varð mikil endurnýjun í stjórnendastöðum. Félagið flutti einnig í minna og ódýrara skrifstofuhúsnæði og þremur dreifingarstöðum á höfuðborgarsvæðinu hefur verið lokað. Þá var gripið til þess að einfalda flokkun pósts.

Árangurinn af hagræðingu Íslandspósts er semsagt að koma í ljós. Útlit fyrir að afkoman verði við núllið á næsta ári eftir stanslaust tap um margra ára skeið. Forstjórinn sér fram á að Íslandspóstur geti byrjað að skila hagnaði þegar búið er að bæta skuldastöðuna.

Engar áætlanir hjá Ríkisútvarpinu - bara siglt áfram

Öðru vísi hafast menn að hjá Ríkisútvarpinu. Þegar Ríkisútvarpið ohf. var stofnað lá fyrir að þörf væri á auknu fjármagni til að reksturinn stæði undir sér. Þrátt fyrir það lágu engar áætlanir fyrir um hvernig ætti að tryggja sjálfbæran rekstur félagsins segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar er þvert á móti bent á að RÚV ohf. hefur frá stofnun verið afar skuldsett og rekstrarafkoma almennt neikvæð. Handbært fé hefur síðan 2012 verið nánast ekki neitt. Eigið fé dróst sömuleiðis saman. Við stofnun RÚV ohf. var það 879 milljónir króna en lækkaði um 1.179 milljónir króna á innan við tveimur árum. Eigið fé var þannig neikvætt um 300 milljónir króna í ársbyrjun 2009 en þá samþykkti ríkissjóður að breyta 563 milljóna króna skuld í hlutafé til að bæta eiginfjárstöðu félagsins. Semsagt; skorið úr snörunni!

Frá 2015 hefur eiginfjárhlutfall RÚV ohf. styrkst, einkum vegna sölu byggingaréttar á lóðinni við Efstaleiti, og var það 28,5% í árslok 2018. Ríkisendurskoðun vekur athygli á að á sama tíma og félagið gekk á laust fé og skuldastaða þess var erfið jók það fjárfestingar sínar í búnaði og sýningarétti. Á fyrstu rekstrarárunum lá fyrir að grípa þyrfti til langtímaaðgerða svo að forða mætti félaginu frá greiðsluþroti en ekki var brugðist við fyrr en félagið var komið í alvarlegan fjárhagsvanda.ruv

Framlengja lán vegna lífeyrisskuldbindinga

Fjárhagsleg endurskipulagning félagsins hófst árið 2014 en rekstrinum hefur fyrst og fremst verið komið á réttan kjöl með einskiptisaðgerðum á borð við niðurfellingu skuldar við ríkissjóð árið 2009 og með því að selja byggingarétt á lóð félagsins árið 2015. Árið 2018 var svo samið við LSR um að lengja í láni félagsins vegna lífeyrisskuldbindinga en afborganir af láninu höfðu verið íþyngjandi og meðal annars fjármagnaðar með lántökum.

Af þessum samanburði sést að heldur er haldið ólíkt á úrlausn þessara tveggja ríkisfyrirtækja, sem báðar hafa fengið yfirhalningu frá Ríkisendurskoðun. Annað segir upp og stokkar reyndar upp starfsemina á meðan hitt er endurtekið skorið úr snörunni, fær að grípa til einskiptisaðgerða og einstakrar eignasölu og framlengja lífeyrisskuldbindingar inn í framtíðina.

Ríkisendurskoðun bendir á að afar mikilvægt sé að tryggja ráðdeild í rekstri og öflugt fjárhagslegt eftirlit svo RÚV ohf. lendi ekki í alvarlegum greiðsluerfiðleikum að nýju og segir: „Fjármálastjórn félagsins hefur lengstum verið svipuð og um A-hluta ríkisstofnun sé að ræða og megináhersla lögð á að reksturinn rúmist innan fjárheimilda. Slíkt dugir ekki fyrir verulega skuldsett félag sem einnig þarf að standa undir fjárfestingum með framlagi á grundvelli þjónustusamnings auk sjálfsaflatekna.“ Með öðrum orðum, hið opinbera hlutafélag hagar sér eins og ríkisstofnun sem veit sem er að það hefur engar afleiðingar að stofna til skulda.