c

Pistlar:

8. desember 2019 kl. 23:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fiskveiðar og auðlindagjald

Um sjávarútveg er mikið skrafað og skrifað. Sem vonlegt er, hann er ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar og flest höfum við tengsl við hann með einum eða öðrum hætti. Þau tengsl eru auðvitað að minnka, sjávarútvegurinn er minna mikilvægur en áður samfara því að fleiri stoðum er rennt undir efnahag þjóðarinnar. Um leið starfa færri og færri við útgerð og vinnslu. Hagræðing og samþjöppun hafa dregið fyrirtækjarekstur honum tengdum saman. Augljóslega eru að verða miklar breytingar í rekstri og umhverfi sjávarútvegsins.sjávar1

Margir eru þó bjartsýnir á framtíð sjávarútvegsins, hann er rekin af sterkum og öflugum fyrirtækjum sem eru tilbúin að fjárfesta í nýjustu tækni og hafa á að skipa umtalsverðri þekkingu á greininni. Með sjávarútvegi okkar framleiðum við eftirsótta og góða vöru sem neytendur fagna. Margir telja að við getum aukið þau verðmæti sem koma frá sjávarfangi verulega og hafa bent á áhugaverðar leiðir til þess. Mörg af okkar öflugu sjávarútvegsfyrirtækjum hafa einmitt fjárfest í búnaði og þekkingu því tengt, stundum hefur það reynst þeim kostnaðarsamt eins og tilraunir til þorskeldis sýndu en stundum einnig ábatasamt.

Efla þarf rannsóknir

Ekkert er þó sjálfgefið í þessum efnum. Atvinnugrein eins og sjávarútvegurinn er viðkvæm fyrir líffræðilegum breytingum sem geta orsakast af breytingum í hafinu. Við Íslendingar stöndum framarlega á sviði hafrannsókna en gera má miklu betur. Margt bendir til þess að við ættum að efla rannsóknir tengdar sjávarútvegi verulega, ekki bara á vistkerfi sjávar heldur einnig á öðrum sviðum er tengjast rekstri og útgerð. Hugsanlega gæti það einnig bætt þá umræðu sem oft fer fram um sjávarútveginn sem því miður einkennist af upphlaupum og vanþekkingu á sjávarútveginum, þróun hans og forsendum.

Stundum væri gagnlegt ef Íslendingar horfðu til þess að okkur hefur tekist það sem fáum þjóðum hefur auðnast. Að gera sjávarútveg að arðbærri atvinnugrein, sem nýtir auðlindina með sjálfbærum hætti. Þeir tímar eru að baki þegar útgerð og fiskvinnsla voru eins og þurfalingar sem voru háðir duttlungum yfirvaldsins. Haldið við hungurmörk en á lífi með millifærslum úr opinberum og hálfopinberum sjóðum og gengisfellingum.

Stór hluti umræðunnar um sjávarútveg snýst um veiðigjald, hvernig er greitt fyrir auðlindina (sem er auðvitað ekki auðlind nema menn nýti hana á arðbæran hátt). En vissulega verður í greininni einhver arðsauki eða framleiðniauki sem byggist á því að greinin sé að nýta auðlind sem sé í eigu þjóðarinnar. Fyrir það þarf að greiða sérstaklega.

Skattstofn veiðigjalds stækkaður

Svo virðist sem smám saman hafi myndast sátt um að einhverjar greiðslur séu þannig inntar af hendi út úr greininni með vísun í að þar sé greitt afgjald fyrir nýtingu auðlindarinnar. Það tók tímann sinn að ná þessari sátt enda flókið úrlausnarefni að finna aðferð sem tryggir að skattlagningin sé skynsöm og sanngjörn. Það er meðal annars útgangspunktur þeirra umræðu sem verður reglulega í sölum Alþingis. Ný lög um veiðigjald voru sett í lok árs 2018. Skattprósentan hélst óbreytt frá fyrri lögum, eins og áður segir, en skattstofninn var stækkaður.

Veiðigjald hefur verið 33% skattur á afkomu fiskveiða og er það enn. Veiðigjald leggst á auðlindanýtingu, það er fiskveiðar. Annar rekstur, líkt og fiskvinnsla og sölustarfsemi, er ekki hluti af skattstofninum. Veiðigjald næsta árs miðast því við afkomu fiskveiða á árinu 2018. Hreinn hagnaður fiskveiða fyrir skatt (EBT) árið 2018 var 9,9 milljarðar króna. Ef við gefum okkur að veiðigjald verði 5 milljarðar króna jafngildir það 51% skatti á hreinan hagnað. Það er ekki hægt að kalla það lítið afgjald.

Auðlindir skilgreinast með ólíkum hætti. Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var sagt frá fyrirætlunum fyrirtækisins AEX Gold sem á námuvinnsluleyfi á gulli á Grænlandi. Félagið greiðir leyfisgjöld til grænlenskra yfirvalda ásamt því að greiða 2,5% af hverri seldi gullúnsu í auðlindagjald. Þá greiði félagið hefðbundinn tekjuskatt og opinber gjöld. Þetta þykir varla hátt auðlindagjald í samanburði við það íslenska og þó er gull nokkuð einsleit vara og heimsmarkaðsverðið nokkuð skýrt. Þetta sýnir hins vegar glögglega hve utangátta umræða um auðlindagjald er á Íslandi þar sem talnafakírar ríða húsum og skálda upp tölur eins og þeim sýnist.