c

Pistlar:

27. janúar 2020 kl. 14:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þegar Svíar lögðu af ofurskatta

Sumt er fyrirsjáanlegt í umræðunni. Credit Suisse gefur út árlega skýrslu um auðsæld á heimsvísu og nokkrum dögum seinna koma samtökin Oxfam með sína skýrslu um vaxandi ójöfnuð í heiminum. Þessar skýrslur lýsa oft ólíkum veruleika en ef marka má Oxfam hefur ójöfnuður verið að aukast á heimsvísu nokkurn veginn linnulaust síðan samtökin hófu mælingar sínar. Viðbrögðin eru nokkuð fyrirsjáanleg; það verður að skattleggja þá ríku meira. Umræða sem enduróma víða, meðal annars hér á Íslandi.money

En lítum aðeins á eitt mesta jafnaðarmannaland í heimi, land þar sem jöfnuðurinn er inngróin í þjóðarsálina en eigi að síður söng vinsælasta hljómsveit landsins lagið Money, Money, Money, nokkuð einfaldur titill fyrir land sem hefur hæsta hlutfall milljarðamæringa í dollurum talið í heiminum. Lætur nærri að einn dollaramilljarðamæringur sé á hverja 250.000 íbúa í Svíþjóð sem gerir landið sérstakt. Líklega höfum við Íslendingar aðeins einn sem getur fyllt þennan hóp, Björgólf Thor Björgólfsson, en hann hefur verið búsettur í London um árabil.

En aftur að Svíþjóð en í nóvember síðastliðnum var breska tímaritið Economist með áhugaverða umfjöllun um stefnu þeirra í skattlagningu þeirra ríku og hvernig það samræmist markmiðum um jöfnuð í Svíþjóð. Könnun Economist segir að auður milljarðamæringa í Svíþjóð jafngildi um fjórðungi af árlegri landsframleiðslu Svíþjóðar Það er aðeins í skattaskjólum eins og Kýpur og Mónakó eða löndum eins og Rússlandi og Georgíu sem slík hlutföll sjást. Þrátt fyrir það virðast auðmenn ekki vera óvinsælir eða mikil bitbein í Svíþjóð. Satt best að segja eru þeir furðu vinsælir að mati Economist. Aðeins konungsfjölskyldan, Astrid Lindgren, Abba og Björn Borg geta keppt við þá í vinsældum skrifaði blað eitt árið 2018 við fráfalla Ingvars Kamrads, stofnanda Ikea. Umræðu um ofurskattlagningu á þá ofurríku er mætt með tómlæti í Svíþjóð. „Sú umræða sem á sér stað í Bandaríkjunum og Bretlandi um skattlagningu hinna ofur ríku finnst ekki hér,“ hefur blaðið eftir Janerik Larsson hjá Timbro, frjálslyndri hugveitu.

Trúa á frumkvöðla

Að hluta til má skýra þetta áhugaleysi á skattlagningu hinna ofurríku með því að gegnumsneitt þá trúa Svíar því ekki að þeir hafi orðið svona ríkir með því að arðræna hina fátæku. Miklu frekar geti þeir þakkað sköpunarkrafti sínum og hugmyndaauðgi, sem meðal annars hefur stuðlað að tilveru stórfyrirtækja eins og H&M, Volvo og Spotify, svo fátt eitt sé talið. Svíþjóð er þrátt fyrir allt frumkvöðlaland og þetta viðhorf endurspeglar það. Það skiptir líka máli að auðmenn Svíþjóðar gera lítið með ytri táknmynd auðsins svo sem glæsibíla, hallir eða framandlega veitingastaði. Allt eins má eiga von á því að sjá þá snæðandi „smörrebröd“ með almúganum. Það má reyndar hafa smá efasemdir um þessar hugleiðingar þeirra Economist-manna en vitað er að það er siður þeirra sem eiga gamla peninga að berast ekki mikið á heima við, hinum nýríku hættir fremur til þess. Nú, þá hafa margir sænskir auðmenn verið duglegir að deila út fjármunum og er Wallenberg stofnunin dæmi um slíkt en hún er staðsett í til þess að gera hógværu húsnæði í Stokkhólmi. Nú nýlega urðu nokkrir meðlimir Wallenberg ættarinnar að svara fyrir ógætilega meðferð fjármuna í fjármálastofnunum sínum en fjölskyldan er vön slíku umtali!

Háir skattar virka ekki

En ef Svíar eru almennt ekki á því að það sé gagnlegt að refsa þeim ríku með háum sköttum þá er það líka vegna þess að þeir vita að það virkar ekki. Svíar innleiddu auðlegðarskatt árið 1911 og juku við hann 1934, 1948 og 1971. Í upphafi áttunda áratugar síðustu aldar var heimili sem átti ígildi 600.000 dala (75 milljónir íslenskra króna) með jaðarskatt sem nam 4%. Þegar við bættust miklar og stighækkandi tekjuskattur gat skattheimta í sumum tilvikum farið yfir 100%.ingvar

En þrátt fyrir þessa háu skatta þá var framlag auðlegðarskatt til heildartekna ríkisins hverfandi. Þegar mest var nam það um 0,4% af landsframleiðslu (GDP). Frá 1970 voru meiri og meiri efasemdir um ágæti slíkrar skattheimtu. Auðmenn tóku að flýja skattabrjálæðið. Kamprad flúði til Sviss 1973, Hans Rausing, hvers faðir hafði stofnað umbúðafyrirtækið tetra Pak, flúði til Bretlands. Málsmetandi fólk skrifaði gegn ruglinu en hér hefur áður í pistli verið fjallað um framlag sænski rithöfundarins Astrid Lindgren sem skrifaði grein í götublaðið Expressen sem bar hið torkennilega heiti „Pomperipossa in Monismania" þar sem hún dró ofurskattlagninguna sundur og saman í háði. Í lok áratugarins gat fólk forðast þessa skatta hefur blaðið eftir tveimur hagfræðingum, þeim Magnus Henrekson og Gunnar Du Rietz. Þar skipti máli að landið tók að sláka á ýmsum hömlum á flutningi gjaldeyris milli landa.

Smám saman fór að renna upp fyrir fleirum og fleirum gagnsleysi slíkrar skattlagningar. Það var því þverpólitísk samstaða um að afnema erfðafjárskatt árið 2005 og auðlegðarskatt árið 2007. Skömmu síðar flutti Kamprad aftur heim, þá orðin einn auðugasti maður Evrópu.