c

Pistlar:

11. febrúar 2020 kl. 10:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Buffett yfirgefur fjölmiðlaheiminn

Hagfræðingar geta verið ágætir sagnfræðingar en þeir eru ómögulegir að spá fyrir um hið óorðna var einu sinni haft eftir fjárfestinum Warren Buffett en sumir telja að hann sjái betur og dýpra en aðrir þegar kemur að breytingum og þróun í efnahagslífinu. Svo mjög að hann er kallaður véfréttin frá Omaha og aðdáendur hans þyrpast á aðalfund fjárfestingafélagsins Berkshire Hathaway Inc.’s og stemmningin í kringum gamla manninn minnir á poppgoð eða stórstjörnu skemmtanalífsins. Sem er nokkuð fjarri Buffett sem er alla jafna hógvær í yfirlýsingum og hæglátur í framkomu (hvernig má annað vera, en hann er nú komin á tíræðisaldurinn).warren-buffett-1

En Buffett er enn að sýsla í fjárfestingum og enn horfa fjárfestar um allan heim til stefnumörkunar hans. Hann hefur stundum gert grín að sjálfum sér og eigin skammsýni en oftast nær virðist hann sjá hvar rétt er að fjárfesta. Að sumu leyti hefur fjárfestingastefna hans verið gamaldags, hann hefur sagt að hann vilji skilja vöruna sem hann fjárfestir í og fyrir vikið hefur hann misst af tækifærum í nýrri tækni, svo sem sumum af stórfyrirtækjum nútímans og þeim sem hafa skilað mestri ávöxtun. Hann hefur gengist við þessu og játað á sig mistök en þrátt fyrir það halda fjárfestar tryggð við hann. En samhliða þessu hefur hann ílengst í starfsemi sem má muna fífil sinn fegurri. Buffett ákvað um síðir að fara út úr vefnaðariðnaðinum eftir að hafa þrjóskast of lengi við og hann átti lengur í bandarískum skóframleiðendum en reyndist hollt fyrir hann.

Ævilöng vegferð með dagblöðum

Allir sem fylgjast með Buffett hafa séð áhuga hans á dagblaðaútgáfu og þó hún sé kannski ekki stór hluti af eignasafni hans þá hefur hann reynst henni einstaklega trúr og áhugasamur fjárfestir. Að hluta til var þetta af tilfinningasemi en sjálfur hóf hann starfsferil sinn á því að bera út blöð og svo hentaði þetta vel tengslum hans inn í auglýsingageirann. Þá sat hann um skeið í stjórn Washington Post vegna kunningsskapar við útgefandann kunna Katharine Graham. Wasington Post er nú í eigu ríkasta manns heims sem virðist tilbúinn að setja mark sitt á ritstjórnarstefnuna eins og hefur verið rakið hér.

En nú er hann hættur þessu. Buffett hefur selt blaðarekstur sinn og segist ekki sjá framtíð í honum fyrir fjárfestingastarfsemi sína (allar svona yfirlýsingar eru svolítið spaugilegar í ljósi aldurs hans!) En þetta er áfall fyrir þá sem hafa reynt halda í trúna á dagblaðarekstur. Ljóst er að renna þarf nýjum stoðum undir rekstur fjölmiðla og Buffett telur að aðrir séu betur til þess færir. Um daginn greindi New York Times frá því að það hefði náð í eina milljón netáskrifenda á síðasta ári og blaðið væri komið með 5 milljónir slíkra og treysti nú orðið á þessa innkomu í tekjumódeli sínu. En pappírinn virðist á útleið, því miður og á síðasta ári var haft eftir Buffett að dagblöðin virtust steikt (e. toast). bufett1

Buffett samþykkti nú fyrir skömmu að selja félög sín BH Media og Buffalo News til fyrirtækisins Lee Enterprises Inc. Hér snýr hann af fyrri braut en til þessa hefur hann alveg verið tilbúinn til þess að bæta einu og einu dagblaði í safn sitt. Hann segist ekki sjá að þeir geti sett mark sitt á þessa grein lengur og Lee Enterprises sé rétta fyrirtækið til að taka við rekstrinum og hrósaði Buffett þeim fyrir þrautseigju í útgáfunni. Með í kaupunum fylgja 49 vikublöð og 31 dagblað, þar á meðal Omaha World-Herald í Nebraska og The Buffalo News í New York sem hafa verið í uppáhaldi hjá Buffett enda traust og margverðlaunuð blöð. Þau hafa verið í eigu hans í ríflega fjóra áratugi. Með kaupunum eru dagblöð undir hatti Lee Enterprises komin yfir 80 og þar á meðal St. Louis Post-Dispatch útgáfan.

Selt með langtímahagsmuni í huga

Kjörin sem Lee Enterprises nýtur eru hagstæð og til marks um að Buffett selur með langtímahagsmuni í huga. Verðlagið virðist taka mið af því að framundan eru verulegar breytingar á útgáfunni og Lee Enterprises hyggst fylgja í fótspor New York Times og reyna að efla stafræna útgáfu sem mest. Lee greiðir Berkshire 140 milljónir Bandaríkjadala í reiðufé en fær 579 milljónir lánaðar með 9% vöxtum til 25 ára þannig að Berkshire mun fjármagna Lee að öllu leyti. Þó vextir séu ríflegir þá er Berkshire Hathaway Inc.’s í raun að taka að sér fjármögnun kaupanna og til þess tekið að Buffett fer ekki fram á neinar aukatryggingar. Hann ætlar augljóslega Lee Enterprises að takast á við breytingarnar sem eru óhjákvæmilegar og greinendur telja að samningurinn tryggi útgáfunni lengri aðlögunartíma en ella. Fjárfestar meta samninginn hagstæðan fyrir Lee Enterprises og bréf þeirra hækkuð um 67% þegar greint var frá kaupunum. Allar fasteignir eru þó undanskildar en Lee Enterprice leigir þær til 10 ára.

Buffett lét hafa eftir sér að samningurinn væri óvenjulegur og markaðist af því að Berkshire væri að hverfa úr þessari starfsgrein þar sem þeir teldu sig ekki hafa meira til málanna að leggja um leið og þeir vildu leggja sitt af mörkum til þess að kaupandinn næði árangri. Nokkur bjartsýni ríkir um það en einnig óttast menn að gripið verði til uppsagna en BH Media, sem á dagblöð víða um Bandaríkin, hefur verið að segja upp fólki í margvíslegum aðhaldsaðgerðum sínum.