c

Pistlar:

13. febrúar 2020 kl. 12:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bandarísk blaðaútgáfa í vanda

Það er ekki margt til þess að gleðjast yfir í bandarískri blaðaútgáfu þessi misserin. Flest dagblöð eiga í verulegum rekstrarvanda, áskrifendum fækkar og auglýsingatekjur fallandi. Því er mætt með uppsögnum og versnandi þjónustu. New York Times er eitt fárra blaða sem hefur náð að andhæfa gegn þessari þróun sem virðist ætla að hafa langvarandi áhrif á blaðaútgáfu. Hér var sagt frá því fyrir stuttu að fjárfestirinn góðkunni Warren Buffett hefði selt blaðarekstur sinn eftir að hafa verið áhugasamur blaðaútefandi um áratugaskeið.

Samhliða því sem tekjur hafa fallið hafa margvíslegir fjárfestar og á stundum vogunarsjóðir komið að blaðarekstrinum, ýmist í von um að snúa rekstrinum við, finna nýja tekjustrauma, selja hann til nýrra fjárfesta, nú eða hreinlega ná fjármunum út úr starfseminni áður en hún er lögð niður Það mega Bandaríkjamenn eiga, að þegar kemur að því að leita nýrra leiða með skapandi eyðileggingu að leiðarljósi, þá standa fáir þeim framar.blöðusa

Er óhagnaðardrifið blað lausnin?

McClatchy Co. útgáfufélagið, sem á um það bil 30 dagblöð, þar á meðal Miami Herald og Charlotte Observer, berst nú við að forðast gjaldþrot og þarf að greiða úr skuldum er meðal annars tengjast lífeyrisskuldbindingum þess. The Salt Lake Tribune, sem hefur löngum verið stærsta blað Utah, breyttist í óhagnaðardrifið blað á síðasta ári þó óvíst sé hvort það leysir vandamál fallandi tekna. Nokkur tímamót, en það hafði lengið verið í fjölskyldueigu og státaði af slagorðinu; "Utah's Independent Voice Since 1871"!

New Media Investment Group Inc., sem er stýrt af einkafjárfestingafélaginu, Fortress Investment Group LLC, keypti Gannett Co., eiganda USA Today á síðasta ári í tilraun til að búa til stærstu dagblaðakeðju Bandaríkjanna. Kaupin reyndust umdeild meðal blaðamanna þar sem New Media hefur orð á sér fyrir uppsagnir og aðhaldsaðgerðir. Ný stjórn Gannett lofaði að grípa ekki til slíkra ráðstafanna en deilt er um hvort þeir hafi staðið við það.

Er New York Times með lausnina?

Inn í þennan heim tekjusamdráttar og fækkunar í áskriftum kemur rekstur The New York Times Company eins og vonarneisti. Félaginu hefur gengið mjög vel að ná markmiðum sínum, reyndar svo vel að það er vel á undan áætlunum þegar kemur að því að ná til rafrænna áskrifenda. Markmið félagsins er að styrkja og efla rafræna áskrift þannig að þeir áskrifendur greiði fyrir ýmsa þjónustu sem þeir geta sótt í gegnum netið til blaðsins, svo sem krossgátur, mataruppskriftir nú eða auðvitað fréttir eða fréttatengt efni. Um leið verður þeim gert auðvelt að nýta sér þjónustu blaðsins í gegnum þau tæki sem þeir kjósa.
Nú í lok árs 2019 fóru tekjur af rafrænni áskrift yfir 800 milljón dala markið en félagið hafði ekki gert ráð fyrir að ná því fyrr en í lok þess árs. Um 420 milljónir af því komu frá nýjum áskrifendum. Nú eru rafrænir áskrifendur komnir yfir 5 milljónir talsins en félagið hefur sett sér það markmið að koma þeim upp í 10 milljónir árið 2025.

Þegar Warren Buffett, sem nú hefur selt blaðarekstur sinn, hefur rætt framtíð fjölmiðla hefur hann gengist við því að hann sé ekki rétti maðurinn til að svara því. Enda seldi hann fjölmiðlaveldi sitt beinlínis með það í huga að nýir aðilar sem hefðu þekkingu á tækni kæmu að rekstrinum. Flest sem við þekkjum í dag mun augljóslega breytast verulega. „Við hljótum að fagna breytingum og við fjárfestar viljum sannarlega fjárfesta í stjórnendum sem geta tekist á við þær og aðlagast nýju samkeppnisumhverfi. En vitaskuld munu ekki allir komast í gegnum það breytingaskeið sem fjölmiðlar horfast nú í augu við,“ sagði Buffett á hluthafafundi fyrir stuttu.