c

Pistlar:

27. mars 2020 kl. 18:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvaða fáni blaktir í Evrópu?

Það hljóta að hafa verið sár vonbrigði fyrir heitustu aðdáendur Evrópusambandsins að sjá fólk á Ítalíu taka niður Evrópufánann og draga þann kínverska að húni í staðinn. Slíkar myndir tóku að birtast fyrir skömmu og eru táknrænar fyrir vonbrigði margra Ítala með viðbrögð Evrópusambandsins á þeim tíma þegar Covid-19 vírusinn lék Ítali hvað harðast. En vírusinn, rétt eins og bankakreppan fyrir tæpum 12 árum, hefur reynst vera mikil áraun fyrir samstarfið innan Evrópu og afhjúpað ýmsa veikleika samstarfsins og þess stofnanakerfis sem þar ríkir. Hafi Ítalía verið talin veiki maðurinn í Evrópu (eins og Tyrkir voru kallaðir í aðdraganda fyrri heimsstyrjaldarinnar), þá er ljóst að ekki hefur ástandið batnað enda hafa Ítalir farið einstaklega illa úr veirunni og eru, þegar þetta er skrifað, með flesta dána af hennar völdum og hæsta dánarhlutfallið.fániesb1

Ólíkar sóttvarnir og ólík tölfræði

Veiran geisar núna um heimsbyggðina og leggur annað og nýtt álaga á hagkerfi og samfélög landanna eins og hefur verið nefnt hér áður í pistlum. Ljóst er að samstarf þjóðríkja og þjóðríkjabandalag verður endurskoðað og einnig hlutverk alþjóðastofnanna. Þó að ágæt sátt ríki um ákvarðanir íslenskra sóttvarnayfirvalda þá á það ekki við um allstaðar. Nágrannar okkar, Svíar, hafa þannig lagst í talsverðar deilur um framkvæmd og aðferðafræði sóttvarna hjá sér. Lönd eins og Ítalía og Spánn eiga án efa eftir að gera upp stöðuna en þessi lönd virðast hafa verið gripin óundirbúin. Þá hefur gagnrýni beinst að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni sem hefur illa gengið að samræma aðgerðir.

Annars er sérkennilegt að sjá tölurnar frá Ítalíu annars vegar og Þýskalandi hins vegar, Þýskaland með helming af smitunum á Ítalíu en aðeins um 3% af dauðsföllum. Því hefur verið haldið fram að þarna sé einfaldlega ólík tölfræði þegar kemur á að skráningu dauðsfalls. Skýringin felist í því hvernig er talið, þar eð að segja, ef til staðar væri undirliggjandi sjúkdómur, þá væri dauðsfallið skráð á hann en ekki Covid-19 í Þýskalandi. Hvað sem hæft er í því þá vekja svona ólíkar tölur upp efasemdir um samanburðartölfræði.

Risavaxnar efnahagsaðgerðir

Út um allan heim reyna hagkerfin að verja sig afleiðingum veirunnar. Bandaríkin hafa ákveðið að ráðast í aðgerð sem er tvisvar sinnum stærri en sú sem birtist í bankakreppunni. Breska og franska ríkið hafa tekið á sig skuldbindingar sem nema um 15% af landsframleiðslu.

Þýskaland er stærsta og öflugasta hagkerfi evrusvæðisins. Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag var bent á að eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna 2008-9 var Þýskaland leiðandi í björgunaraðgerðum til handa evrusvæðinu. Þær aðgerðir voru vægast sagt umdeildar, ekki síst gagnvart Grikklandi, og höfðu pólitískar afleiðingar. Grikkir voru nú ekki svo kurteisir að taka aðeins niður þýska fánann, heldur brenndu þeir hann líka. Þar beindist reiðin meira að Þýskalandi en Evrópusambandinu, í það minnsta til að byrja með og var svo komið um tíma að grísk yfirvöld treystu sér ekki til að fá Þýskalandskanslara í heimsókn.

En áður en faraldurinn braust út var þýskur iðnaður á krossgötum, meðal annars vegna breytinga í bílaiðnaði en þýsku lúxusmerkin hafa átt í talsverðum vandræðum með að fóta sig í sambandi við framleiðendur frá Asíu og nýja framleiðendur eins og Tesla sem nú er verðmætasta vörumerki heims í bílaiðnaðinum. Við það bætist pólitískur óstöðugleiki, en illa hefur gengið að finna kanslaraefni til að taka við af Angelu Merkel. Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra Þýskalands og formaður Kristilegra demókrata (CDU), tilkynnti fyrir mánuði síðan að hún hyggst ekki bjóða sig fram til að taka við embætti kanslara líkt og til stóð, þegar Angela Merkel lætur af embætti á næsta ári. Fullkomin óvissa ríkir þannig um eftirmann í stöðugasta ríki ESB.fániesb2

En reynir á Evrópska seðlabankann

Það er varla hægt að fylgjast með því sem hefur breyst undanfarna daga, bæði í hinu raunverulega hagkerfi en ekki síður í hinum kennilega. Þrátt fyrir magnbundna íhlutun (e. quantitative easing) Evrópska seðlabankans og aðrar örvandi aðgerðir (meðal annars að kaupa bréf sem þeir höfðu ógeð á fyrir stuttu) hafa mörg hagkerfi Evrópu verið í hægagangi. Víða er skuldavandinn því óleystur. Samkvæmt bráðabirgðatölum Eurostat, sem birtar voru í lok janúar, var aðeins 0,1% hagvöxtur á evrusvæðinu á fjórða ársfjórðungi 2019. Þá var um 1% hagvöxtur á evrusvæðinu milli fjórða fjórðungs 2018 og 2019 bendir Morgunblaðið á. Ítalska ríkið skuldaði um 137% af vergri landsframleiðslu um áramót en hér hefur oft verið fjallað um erfiða stöðu þess fagra lands. Hlutfallið í Frakklandi var um 100%. Ítalía er of stórt til að fá sömu meðferð og Grikkland.

Í síðustu viku var greint frá 750 milljarða evra björgunaraðgerðum vegna eftirspurnarfalls í hagkerfunum, til viðbótar við 120 milljarða evra pakka fyrr í mánuðinum. Morgunblaðið vitnar í úttekt breska blaðsins Guardian um að björgunaraðgerðir 12 Evrópuríkja, að Bretlandi
meðtöldu, nemi alls 1,7 billjónum evra. Þar af er hlutur Þýskalands 550 milljarðar evra. Gríðarlegir peningar en sumir segja að þetta sé bara byrjunin á mestu seðlaprentun sögunnar.