c

Pistlar:

30. mars 2020 kl. 14:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjávarútvegurinn og fisksölubaráttan

Íslendingar eins og aðrar þjóðir treysta á verslun og viðskipti við aðra. Helsta útflutningsafurð okkar er fiskur. Það segir auðvitað ekki alla söguna því þúsundir vörutegunda finnast af fiski þó líklega sé skýrasta afmörkunin að greina vöruna í ferskan eða frosin fisk. Saltfiskur og hertur eru síðan vörutegundir sem eiga alltaf sína markaði. Stærsti hluti neytenda vilja vöruna sem ferskasta og ferskur fiskur hefur skilað hæstu verði og þannig mestum verðmætum inn í samfélagið. En aðstæður hafa breyst og sölukerfi sjávarútvegsins hefur undanfarið keppst við að aðlaga sig því. Segja má, að nú séu allar söluskrifstofur sjávarútvegsfyrirtækja að keppast við að styrkja og efla viðskiptasambönd með frosinn fisk þar til aftur opnar á þann ferska. Hvenær það verður ræðast af framþróun verufaraldursins. Á þetta var bent hér fyrir stuttu.

Á undanförnum árum hefur sjávarútvegurinn breytt rekstri á þann hátt að markaðurinn ákveður að mestu hvað skal veiða og hvenær. Þannig er fiskveiðiskipum stýrt eftir stöðu pantana og breytingar geta gerst hratt þegar kemur að fiski sem á að fara í flug. Þannig hefur framleiðendum tekist að ná hæstu verði fyrir sínar afurðir. Núna þurfa markaðsdeildir sjávarútvegsfyrirtækja að endurvekja fyrri sambönd eða að bjóða aukið magn inná eldri markaði af frosnum afurðum. Verð breytast hratt og framleiðslunni er umsnúið. Eins og gefur að skilja eiga menn misauðvelt með að bregðast við.fisksala

Þeir sem geta nýtt sér sveigjanleika kvótakerfisins munu komast betur af á þessum tímun. En hafa verður í huga að markaðshrunið kemur einmitt á þeim tíma þegar skipin voru aftur byrjuð að fiska vel eftir erfiðan vetur. Forsíðufrétt Fréttablaðsins síðastliðin föstudag dró þetta fram og um leið þá staðreynd að útgerðarmenn um land allt eru mjög uggandi vegna lokaðra ferskfiskmarkaða. Heildarafli íslenska flotans fyrstu þrjá mánuði fiskveiðiársins, sem hófst í september, var 15 prósentum minni en árið áður. Fyrstu tveir mánuðir ársins voru einnig tugum prósenta undir síðasta ári, enda nánast stanslaus ótíð.

99% markaðarins lokaður

„Við getum sagt að 99 prósent af markaðinum fyrir ferskan fisk sé lokaður. Við höfum verið að bregðast við þessu með því að vinna í frystar afurðir og dregið úr í sókn í þorsk, sem fór að stórum hluta í ferskar afurðir áður,“ segir Ægir Páll Friðbertsson, framkvæmdastjóri Brims, í samtali við Fréttablaðið og bætti við: „Við vinnum þetta dag frá degi. Nú síðast lokaði Bretland í viku og það er mjög mikilvægur markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir.“

Hafa verður í huga að á síðasta ári voru um 22 prósent af tekjum Brims frá ferskfiskafurðum. Stærsta viðskiptalandið er Frakkland og þar er markaðurinn lokaður núna. Ljóst er að félagið þarf að hafa hraðar hendur við að finna nýja markaði.

En þrátt fyrir að framleiðslu sé beint yfir í frystar afurðir er ekki sjálfgefið að eftirspurn eftir þeim sé til staðar og því viðbúið að birgðir aukist hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Ekki liggja fyrir sölusamningar vegna þeirra þorskafurða sem verið er að frysta núna í kjölfar lokunar ferska markaðarins. Eins og gefur að skilja keppist sjávarútvegurinn nú við að leita nýrra markaða.sjavarkör

Lax að seljast til Kína?

En söluerfiðleikar eru ekki bundnir við útgerðina. Við höfum notið vaxtar í fiskeldi undanfarin ár. Í síðustu viku var greint frá því að teikn væru á lofti um að Kínamarkaður sé að opnast aftur fyrir laxaafurðir. Markaðurinn hefur verið alveg lokaður frá áramótum vegna aðgerða stjórnvalda til að stöðva kórónuveirufaraldurinn og efnahagsástandsins í kjölfarið.
Morgunblaðið hafi eftir Sigurði Péturssyni, framkvæmdastjóra hjá Arctic Fish, að hugsanlega hefji Kínverjar kaup á laxi í þessari viku. „Þeir virðast vera að vakna aftur til lífsins eftir langt hlé. Það er gott. Ég veit ekki til þess að pantanir hafi verið staðfestar. Svo gæti það verið áskorun að koma laxinum á markaðinn,“ segir Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Laxa fiskeldis, við sama tækifæri. Hærra verð hefur fengist í Kína en á öðrum mörkuðum þannig að það er gríðarlega mikilvægt að þessir markaðir opnist aftur. Útflutningsverðmæti fiskeldis hefur aukist ár frá ári og þannig jafnað út fullkomið tap á tveimur loðnuvertíðum í röð. Mikilvægt er að það náist árangur í sölustarfinu þarna.

Allt þetta sýnir hvað sjávarútvegurinn og fiskeldið þurfa að fást við; að aðlaga sölu- og framleiðslustarfi sitt nýjum markaðsaðstæðum og það helst á mettíma. Við sem þjóð eigum mikið undir að vel takist til.