c

Pistlar:

23. maí 2020 kl. 11:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Forsendur auðsöfnunar

Þegar saga 19. aldarinnar á Íslandi er skoðuð í gegnum ævisögur þeirra sem settu svip sinn á öldina sést glögglega að rómantíkin náði ekki eingöngu til skáldskaparins. Lífið sjálft var klætt rómantískum hugmyndum sem mótuðust af umhverfi og sögu þessara helstu söguhetja 19. aldar Íslandssögu. Þetta birtist ágætlega í ævisögu Jónasar Hallgrímssonar og í baráttu hans og félaga hans í Fjölni við að móta og breyta því þjóðlífi sem þeir höfðu allir flúið á einum eða öðrum tíma. Þeir fyrirlitu alsleysið á Íslandi og óttuðust örbirgðina. En hugmyndir þeirra snérust allar um að efla, styrkja og auðga umhverfi sitt. Út á það gekk hin rómantíska sýn þeirra þó að starfsævi þeirra flestra væri bundin við að taka við störfum í gegnum embættismannakerfis hins danska einveldis sem þá ríkti. Auðvitað er þetta einföldun á þeim ólgusjó hugmynda sem þeir og samtímamenn þeirra urðu að fást við. En lífið kenndi þeim hagsýni og raunsæi, þeir vildu auka við þekkingu og styrkja kraft og getu þess þjóðfélags sem þeir ólust upp í.

Voru þeir byltingamenn? Á sinn hátt en þeir virtust þó trúa því að farvegur breytinganna yrði að renna í gegnum eitthvert lögmæti. Þeir skömmuðust út í Bessastaðskóla og kennara sína þar þó þeir viðurkenndu þekkingu þeirra og getu. Þeir réðust gegn ýmsum þáttum í íslenskri menningu, allt frá ljóðagerð og bragháttum til stafsetningar og málfræði. Þá fannst þeim sjálfsagt að Alþingi yrði endurreist á Þingvöllum og afstaða þeirra til stjórnskipunar mótaðist af þjóðerniskenndum hugsjónum öðru fremur. Meðal Fjölnismanna var ólík persónuleg afstaða til Jóns Sigurðssonar og þeirra áherslan sem hann setti á sjálfstæðisbaráttuna þó ekki verði séð að mikið hafi skilið í milli þegar á reyndi.

Sparsemi og ráðdeild

Hugmyndaheimur anarkista og marxista virðist hafa verið 19. aldar Íslendingum framandi þegar tiltækt lesefni er skoða. Það er þó ekki einhlýtt, erlendar bækur voru einnig lesnar eins og gefur að skilja. Marxisminn kenndi að örbirgðin fælist í stéttaandstæðunum og eina leiðin til að breyta því væri að breytta skiptingu auðsins. En umræðan snérist á þessum tíma um aðra þætti eins og að framleiða, skapa, iðja og biðja. Að sparsemi og ráðdeild væri betri leið til velsældar en byltingar og breytingar. Hér hefur áður verið vikið að þeirri ólíku leið sem Frakkar og Bretar fóru í aðdraganda og eftirmála frönsku stjórnarbyltingarinnar. Ísland fékk sína byltingu í gegnum Jörund hundadagakonung en landsmenn virtust ekki taka hann eða aðgerðir hans alvarlega þegar upp var staðið.

Í formála að bók félagsfræðingsins Max Weber, Mennt og máttur sem Bókmenntafélagið gaf út sem lærdómsrit fyrir nokkrum áratugum, bendir Sigurður Líndal fyrirverandi lagaprófessor á að kenningar íslenskra presta og guðfræðinga hafi ekki verið nægilega rannsakaðar þegar kemur að tengslum þeirra við Kalvinismann. Þó hafi íslenskum rétttrúnaði á 17. og 18. öld mjög svipað til hins skoska sem var gegnsýrður af kalvinstrú. Til að gera langa sögu stutta, má segja að kalvinstrú hafi boðað að menn sönnuðu sig með verkum sínum og efnahagsleg farsæld hafi verið til vitni um velþóknun guðs.

Þegar þetta er haft í huga blasir við að í aðdraganda hugsanabreytinga 19. aldarinnar var Íslendingum áskapa að trúa á iðjusemi og sparsemi sem almennar kristilegar dyggðir og um leið fordæmt leti og sóun. Við erum komin langt frá þeim þankagangi eins og birtist í ræðu sem séra Örn Bárður Jónsson, fyrrverandi sóknarprestur, flutti í Breiðholtskirkju nú 21. maí. Sú ræða gekk meira og minna út á að breiða út öfundarboðorðið eins og tíðkast mjög nú um stundir.jonsig

Auðnuvegurinn og brýning Jóns

En víkjum aftur að Max Weber. Sigurður Líndal bendir einnig á í formála sínum að hvað sem líður hinni trúarlegu réttlætingu þá hafi Íslendingum auðnast að kynnast nytsemissjónarmiðum, eins og þau voru til dæmis sett fram af Benjamín Franklín. Jón Sigurðsson lagði áherslu á fundum Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags að félagið skyldi birta árlega safn smárita um ýmis fróðleg efni. Fyrst í þessum flokki var rit, sem nefndist Tvær ævisögur útlendra merkismanna og kom út 1839. Meginhluti bókarinnar er ævisaga Benjamíns Franklíns í þýðingu Jóns. Þar fylgir með hið fræga heilræðasafn: Ráð Ríkharðar hins gamla til að ná auði og sæld, sem í ævisögunni er kallað „Auðnuvegurinn.“ Í formála ritsins eru hvatningarorð Jóns til Íslendinga:

„En fylgi og dugnaður geta eins lýst sér hjá fámennri þjóð eins og fjölmennri, og reynslan sýnir, að jafnvel á meðal heldri þjóðanna hafa einstakir menn fyrst tekið sig fram um sérhvörn dugnað, en síðan hefir þótt vel takast, ef aðrir hafa viljað hafa það eftir sem hinir léku fyrir.
Það er harla eftirtektarvert, hvörsu ýmsir menn hafa með frábærum dugnaði og atfylgni komið sér í fremstu röð meðal þjóðar sinnar, þó þeir væru í upphafi meðal hinna öftustu, og síðan fært þjóðina alla á greiðari götu, en áður gekk hún; og er jafnan merkilegt að heyra frásagnir um, hvörja aðferð þeir hafa valið til slíks, hvað þeim hefur auðnast að framkvæma, og hvör aðdragandi hafi verið að framkvæmdum þeirra.

Óhætt er að segja að þessi orð séu nokkuð langt frá háværum hluta þjóðfélagsumræðunnar í dag sem snýst meðal annars um að gera lítið úr framkvæmdasemi. Sigurður segir hins vegar að ævisaga Benjamíns hafi verið mikið lesin á Íslandi og fallið í góðan jarðveg. Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri og alþingismaður, las hana ungur og fékk á henni miklar mætur. Tryggvi varð forseti Hins íslenzka þjóðvinafélags árið 1880 og setti mark sitt á útgáfustarfið í framhaldi þess. Við víkjum betur að þeim ritum hér síðar.