c

Pistlar:

6. júlí 2020 kl. 22:23

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Biden eða Trump - báðir að falla á tíma

Nú þegar fjórir mánuðir eru í forsetakosningar í Bandaríkjunum blasir við að staða sitjandi forseta er ekki sterk. Í upphafi árs virtist flest vera að falla með Donald Trump, hann naut ásættanlegs fylgis í könnunum þrátt fyrir óvenju andsnúna fjölmiðlaumræðu sem hann virðist að hluta til þrífast á. Markaðir voru á fleygiferð og atvinnuþátttaka í hæstu hæðum. Ýmsir minnihlutahópar upplifðu atvinnustefnu forsetans með jákvæðum hætti og ný störf urðu til. Ágæt sátt ríkti um stefnu hans þó ummæli hans og framkoma kæmi andstæðingum hans reglulega úr jafnvægi. Nú virðist hins vegar flest vera honum andsnúið og tímaritið Economist telur ekki nema 10% líkur á að honum takist að snúa við blaðinu og tryggja sér endurkjör. En það er enn tími til stefnu og Trump sýndi í síðustu kosningum að óvæntir hlutir geta gerst í kringum hann.bidd

Er Biden leiðtogi?

Demókratar tefla hinum 77 ára gamla Joe Biden fram gegn Trump og mikil umræða er um ástand Bidens, sem Trump kallar aldrei annað en „Sleepy Joe“, trúr baráttuaðferðum sínum. Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins hefur gert ástandi Biden ágæt skil hér heima en annars virðist furðu lítil umræða um það meðal þeirra sérfræðinga sem alla jafnan eru kallaðir til þegar bandarísk stjórnmál eru annars vegar. Engin af sérfræðingum Ríkisútvarpsins sá möguleika á kosningu Trumps á sínum tíma, svo því sé haldið til haga. Þegar kemur að forsetanum virðist draga ský fyrir útskýringar- og greiningarhæfileika þeirra. Augljóslega er Biden tekin að gamlast og því er haldið fram að hann eigi til að ruglast þegar mikið áreiti er í umræðunni og umhverfinu. Til þessa hefur hann átt þægilegar innkomur þar sem hann varpar fram stefnu sinni í „öruggu“ umhverfi. Þegar kemur fram í kosningabaráttuna mun það ekki duga. Það þarf engin að efast um að Trump mun láta hann hafa fyrir hlutunum í þeim kappræðum sem eru framundan.

Ef kjósendur upplifa Biden óöruggan og ruglaðan munu þeir fljótt hverfa frá honum. Þessu til viðbótar blasir við að Biden er ekki sterkur frambjóðandi, þó að hann hafi verið í eldlínu bandarískra stjórnmála í áratugi þá er ljóst að hann er ekki leiðtogi eins og Economist vekur athygli á. Hann virðist sjálfur hafa talið að komið væri nóg þegar Obama hætti sem forseti 2016 og tilkynnti að hann myndi ekki sækjast eftir útnefningu. En einhverra hluta vegna er hann núna kominn í baráttu við einn umdeildasta forseta Bandaríkjanna, líklega nokkrum árum of seint. Biden verður orðin 78 þegar hann tekur við sem 46 forseti Bandaríkjanna ef hlutir þróast í samræmi við kannanir.

Er varaforsetinn aðalmálið?

Þetta ástand Bidens birtist í miklum áhuga á hvern hann velji sem varaforsetaefni sitt. Það stafar sjálfsagt af því að margir telja að það muni reyna á varaforsetann fyrr en síðar. Svo virðist sem menn gefi sér að hann muni velja konu og þá hugsanlega fyrstu konuna sem verður forseti Bandaríkjanna. Margar áberandi konur í röðum demókrata hafa verið kallaðar til og virðast sumir jafnvel telja líklegt til árangurs að láta hana koma úr röðum blökkumanna. Demókratar njóta mikils fylgis meðal blökkukvenna og eiga margar frambærilegar konur í þeirra röðum. En þó þær séu frambærilegar þá blasir við að einar og sér gætu þær ekki unnið kosningar og enn og aftur mun án efa standa í kjósendum að velja blökkukonu sem forseta. Ein þeirra er hin hálfsextuga Kamala Harris sem áður hefur verið fjallað um í pistli hér. Pólitík hennar er þó fremur óljós sem á við um flestar þær konur sem nefndar hafa verið til sögunnar fyrir utan hina ríflega sjötugu Elizabeth Ann Warren sem Trump kallaði lengi vel ekki annað en „Pocahontas" vegna áhuga hennar á að kenna sig við frumbyggja Ameríku. Að lokum varð hún að biðjast afsökunar á því. En Warren er mjög vinstri sinnuð og því ókjósanleg eins og baráttumaðurinn Bernie Sanders. Hversu óánægðir sem Bandaríkjamenn verða með Trump þá munu þeir ekki kjósa svo langt til vinstri. Hugsanlega verða sérfræðingar Ríkissjónvarpsins aftur hissa að loknum kosningum í haust.