c

Pistlar:

15. júlí 2020 kl. 10:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Peningarnir streyma til Obama-hjónanna

Það eru ekki launin sem draga fólk að embætti forseta Bandaríkjanna. Vissulega eru þau ágæt og eftirlaunin reyndar sérlega ríkulega en stóru tölurnar koma annars staðar frá. Eftir að embættisferli lýkur hafa flestir forsetanna náð að afla sér ríkulegra tekna, einfaldlega með því að vera fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. Barack Obama er engin undantekning frá því en auður þeirra Obama-hjóna hefur margfaldast undanfarin ár þó að bandarískum fjölmiðlum komi ekki saman um hve mikill hann sé.

Flestum fyrrverandi forsetum farnast vel við að afla peninga en að þessu sinni eru bæði hjónin að slá í gegn. Sérfræðingar telja að þau munu slá öll fyrri met fyrrverandi forseta þegar kemur að fjáröflun.obama hj

Ævintýralegar tölur

Business Insider tímaritið telur að þau eigi um 40 milljónir Bandaríkjadala eða um 5,6 milljarða króna og byggir tölurnar á samantekt GoBankingRates. Sama heimild telur að þau hafi átt 1,3 milljónir dala þegar þau komu í Hvíta húsið og því hafi auðurinn 30 faldast. Á meðan telur The New York Post að auðurinn sé komin upp í 135 milljónir dala eða tæpa 19 milljarða króna. Þarna munar miklu en augljóslega streyma peningarnir inn enda má segja að lífið eftir dvölina í Hvíta húsinu hafi verið ævintýri líkast.

Forseti Bandaríkjanna fær 400.000 dali í árslaun og 200.000 í eftirlaun. Þá fær hann 50.000 dali upp í kostnað og 100.000 fastan ferðakostnað þó að auðvitað þurfi forsetinn eiginlega aldrei að taka upp veskið. Þetta eru ágæt kjör en stóru tölurnar koma annars staðar frá en þess má geta að talið er að Barack taki um 400.000 dali fyrir það eitt að halda ræður á fundum fyrirtækja eða samtaka. Vitað er að hann tók 800.000 dali fyrir tvær ræður hjá Northern Trust Corp. og Carlyle Group og að lágmarki 1,2 milljónir dala fyrir þrjár ræður fyrir fyrirtæki á Wall Street árið 2017. Michelle Obama slagar hátt upp í eiginmann sinn en hún tekur 225.000 dali fyrir að mæta á samkomur og halda ræðu.ferðir

Ævintýralegt líf

Obama-hjónin eru augljóslega mjög upptekin. Þau eru bæði vinsælir fyrirlesarar, þau þykja prýða allar fjáröflunarsamkomur og skemmtanaiðnaðurinn liggur flatur við fætur þeirra. Þá má ekki gleyma því að Barack er friðarverðlaunahafi Nóbels! Þegar hjónin eru úti á lífinu eru partý-síður fjölmiðlanna á eftir þeim og þau fara í sumarleyfi með auðjöfrum eins og Richard Branson. Þau hafa sést á einkasnekkju David Geffens með Oprah, Tom Hanks og Bruce Springsteen. Þess á milli eru þau upptekin við vínsmökkun í Toskana eða í ævintýraferðum víða um heim. Það er reyndar svo að bandaríska ríkið greiðir útlagðan ferðakostnað fyrir fyrrverandi forseta en hugsanlega er eitthvað af ævintýraferðum þeirra úr eigin vasa.

Metsöluhöfundurinn Michelle

Michelle Obama gaf út nokkurskonar endurminningar árið 2018 og bók hennar „Becoming“ varð ein mest selda bók ársins og seldist í yfir 10 milljónum eintaka en bókin varð sérlega vinsæl hjá vinstrisinnuðum menntakonum. Samhliða bókaútgáfunni seldi Michelle sérmerktar kaffikönnur á 25 dali hverja og kerti á 35 dali. Vörur merktar henni renna út eins og heitar lummur. Miðar fyrir aðgang að bókakynningum hennar í Barclay's Center fyrir tveimur árum kostuðu frá 307 til 4070 dali og fengu færri en vildu.

Barack hefur einnig verið duglegur á ritvellinum. Forbes tímaritið telur að hann hafi frá 2005 til 2016 fengið um 15,6 milljónir dala í fyrirframgreiðslur og höfundagreiðslur vegna bóka sinna „The Audacity of Hope“, „Of Thee I Sing: A Letter to My Daughters“ og „Dreams From My Father.“ En þar með er rithöfundaferli þeirra ekki lokið. Frá árinu 2017 hafa þau hjónin undirritað bókasamninga sem færa þeim allt að 60 milljónir dala ef vel gengur. Það þarf ekki að taka fram að „skuggahöfundar“ sjá um skriftirnar.

Það er eru ekki bara bækurnar sem skila tekjum í kassann. Árið 2018 skrifuðu þau hjón undir samning við Netflix streymisveituna og Barack hefur þegar stýrt nokkrum viðtalsþáttum. Talið er að samningurinn sé upp á um 50 milljónir dala en þar á meðal eru greiðslur fyrir heimildarmynd sem byggir á „Becoming“.oamagolf

Umfangsmiklar fjárfestingar

Business Insider tímaritið ber fyrir sig mat sérfræðinga sem telja að hjónin geti í það minnsta aflað tekna upp á um 250 til 300 milljónir dala á eftirlaunatímabili sínu. Aðrir telja það vanmat, aðstaða þeirra til fjáröflunar sé einstök, þau hafi nánast konunglega stöðu, eða í það minnsta ekki verri stöðu en Beckham-hjónin.

Obama-hjónin hafa að sjálfsögðu fjárfest verulega nú þegar. Fyrir nokkrum árum keyptu þau 800 fermetra slot í Washington á ríflega 8 milljónir dala en þau höfðu leigt húsið fram að því. Húsið er það næst dýrasta í hverfinu, aðeins auðmaðurinn Jeff Bezos, stofnandi og aðaleigandi Amazon, býr í dýrara húsi. Þau eiga ennþá hús sitt í Hyde Park í Chicago sem þau keyptu á 1,65 milljónir dala en það er talið hafa tvöfaldast í verði. Þá er ótalið 650 fermetra glæsihýsi sem þau keypti á síðasta ári á sumardvalarstaðnum vinsæla Martha´s Vineyard. Kaupverðið var um 12 milljónir dala.

En vissulega gleyma Obama-hjónin ekki þeim sem minna meiga sín. Frá 2005 til 2015 er talið að þau hafi gefið 1,1 milljón dala til góðgerðarmála. Þá gaf Barcak allan ágóða af barnabókinni „Of Thee I Sing“ sem gefin var út í hans nafni. En mestu munar auðvitað að hann gaf andvirði Nóbel-verðlauna sinna, 1,4 milljón dala, árið 2009.