c

Pistlar:

26. júlí 2020 kl. 10:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er þá draumurinn um Þjóðarsjóðinn liðinn?

Deila Rio Tinto fyrirtækisins og Landsvirkjunar um orkuverð er uppgjör við hið liðna og sýnir um leið að margt er að breytast í heimi orkunnar. Þar höfum við Íslendingar talið okkur standa traustum fótum, svo mjög að ekki er nema misseri síðan að við töldum okkur geta fært mikla fjármuni yfir í svokallaðan Þjóðarsjóð og þannig tekið norska nágrana okkur til fyrirmyndar. Það skal staðfest að pistlaskrifari er beggja blands þegar kemur að stofnun sérstaks þjóðarsjóðs eins og kom fram hér í pistli en þar voru settar fram efasemdir um að það væri eina rétta leiðin, nú þegar ræki þjóðin ein sjóð sameiginlega og það gengur nú svona og svona. En þetta er eitthvað sem þarf að meta í heild sinni þó augljóst sé að málið muni nú frestast.

En á þeim tíma töldu Íslendingar að við hefðum einstaka stöðu á orkumarkaði með alla okkar umhverfisvænu orku. Vissulega má gleðjast yfir því og við höfum byggt upp öfluga og framsækna starfsemi á sviði orkunýtingar, svo mjög að við getum nú miðlað öðrum þjóðum af þekkingu okkar. En hlutirnir breytast hratt og ljóst að orkuvinnsla og orkumarkaðurinn er einhver mesta áskorun sem mannkynið þarf að glíma við núna, meðal annars til að ná skynsamlegri lendingu í orkunýtingu og umhverfismálum.orkaaa

Orkumarkaður og tengingar

Fyrir stuttu mátti lesa að fjárfestingar í endurnýjanlegri orku væru komnar framúr fjárfestingu í orkunýtingu jarðefnaeldsneytis. Það hefur stefnt í það fyrir löngu enda ljóst að gríðarlegir fjármunir fara nú í að nýta vindafl, sólarorku og aðra orkugjafa sem geta komið í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Brýnast er að draga úr notkun kola og þá sérstaklega brúnkola. Þannig hefur verið undarlegt að sjá móðurríki umhverfisstefnunnar, Þýskaland, enn vera að taka í notkun brúnkolaver en vonandi sér fyrir endann á því. Það sem skiptir hins vegar mestu fyrir orkumarkaði heimsins og sérstaklega í Evrópu er samnýting orkuframleiðslunnar og samtenging markaða. Gríðarlegir fjármunir fara nú í það í Evrópu að samtengja orkumarkaði til þess að ná sem bestri nýtingu úr orkuframleiðslunni. Sæstrengir eru nú lagðir þvers og kruss um Norðursjóinn og gríðarlegar fjárfestingar settar í orkutengingar. Í eina tíð var iðjuverið reist við hlið kolanámunnar í Þýskalandi en nú á orkan að koma um langa veg í gegnum flókið flutningsnet sem auðvitað kostar umhverfisrask á sinn hátt, fyrir utan fjárhagslegan kostnað sem því fylgir. En allt í nafni umhverfisverndar.

Sem vel að merkja þarf að þola aukna gagnrýni þar sem nýju meðulin eru ekki eins óumdeild eins og menn vonuðu. Þannig hafa nú norsku umhverfissamtökin Norsk Miljövernforbund kært til ESA að það finnist engin þekkt aðferð við að endurvinna vindmyllublöð, vandamál sem er stöðugt meiri umræða um. Annar fylgifiskur er sá að um leið og blöðin slitna dreifast plastagnir um allt og mengi jarðveg og vatnsból á stóru svæði. Einnig hafa samtökin kært umhverfislýti vegna stórra vindmillugarða á þeim forsendum að þeir hafi í för með sér eyðileggingu á ósnertri náttúru og þeir samræmist ekki alþjóðlegum lögum og reglum sem gilda um það.

Erfiðar skammtímahorfur

En aftur að íslenska orkumarkaðinum. Um 70 til 80% af orkunni sem hér er framleidd fer til stóriðjuvera og um þá nýtingu eru gerðir langtímasamningar enda í sumum tilvikum reist heilu virkjanirnar til að sinna tilteknum orkuverum. Þannig var það með Kárahnjúkavirkjun sem hafði í raun bara einn viðskiptavin, álver Alcoa á Reyðarfirði. Sama var með Þeistareykjavirkjun sem átti að sjá kísilveri PCC á Bakka við Húsavík fyrir orku. Nú er búið að loka verksmiðjunni, vonandi tímabundið, og þá er engin þörf fyrir orkuna. Ekki bætir síðan úr að Landsvirkjun hefur þurft að treysta á skammtímasamninga til rafeyraframleiðenda en það eru ótraustir viðskiptavinir. Illa hefur gengið að fá hingað stór gagnaver þó uppbyggingin við Blönduós sé vonandi vísir að einhverju meira.

Því er staðan svo í dag að Landsvirkjun hefur ekkert sérstaklega vænlega stöðu þegar kemur að skammtímahorfum á orkumarkaði. Ekki skal lagt mat á stöðuna í deilunni við Rio Tinto en auðvitað er það grafalvarlegt ef fyrirtækið hyggst loka álverinu og/eða knýja Landsvirkjun til að lækka verðið. Nú reynir á samninga og samningsstöðu.