c

Pistlar:

28. júlí 2020 kl. 10:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Minni fjölgun - færra fólk

Það sem af er ári hefur mannkyninu fjölgað um riflega 46 milljónir manna, það er nokkurn veginn mannfjöldi Spánar. Á veraldarvefnum er haldið úti síðu sem gefur sig út fyrir að reikna mannfjöldaþróun, nokkurskonar fæðingaklukka heimsins (World Population Clock) eins og vakið var athygli á í pistli hér í upphafi árs. Lætur nærri að mannfjöldi í heiminum nemi nú um 7,8 milljörðum manna. Augljóslega er fæðingartíðni í mörgum löndum að dragast hratt saman og ný rannsókn, sem birtist í hinu virta læknatímariti The Lancet fyrir skömmu staðfesti það. Rannsóknin hefur vakið töluverða athygli og var sagt rækilega frá henni í Morgunblaðinu þegar hún birtist.

Helstu tíðindin voru þau að nú er því spáð að 8,8 milljarðar manna muni búa á jörðinni árið 2100, eða um tveimur milljörðum færra en núverandi spár Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir. Það eru auðvitað stórtíðindi en ekkert leggur meira álag á vistkerfi heimsins en fjölgun mannkyns. Í rannsókn The Lancet, sem náði til nær allra ríkja heims, var mannfjöldaþróun næstu áratuga skoðuð út frá þáttum eins og frjósemistíðni og aldursdreifingu mannfjöldans, en í mörgum ríkjum er meðalaldur fólks að verða sífellt hærri eins og hefur verið vakin athygli á hér í pistlum. Það mun leggja nýjar áskoranir á mörg samfélög.mannf

Vitaskuld má velta fyrir sér hvaða áhrif þessi gæti þróun haft á alþjóðamál? Í rannsókn Lancet er nefnt að sumir sagnfræðingar séu á þeirri skoðun að stærð tiltekins hagkerfis geti verið beintengd því hversu mikil völd viðkomandi ríki hefur á alþjóðavettvangi. Það má til sanns vegar færa en höfundar rannsóknarinnar benda jafnframt á að þjóðarframleiðsla segi ekki alla söguna, þótt hún hafi vissulega mikið að segja. Við blasir þó að gangi allar spár hennar eftir verði nokkuð um sviptingar á alþjóðavettvangi og ríki eins og Nígería og Indland muni jafnvel geta keppt við Bandaríkin og Kína um áhrif og ítök í heiminum. Um það efast pistlaskrifari, nema mikið breytist. Líklegar er að þetta setji aukna kröfu á ríki um að leyfa fleiri að flytjast á milli landa og reyna að flýta og auðvelda aðlögun þeirra.

Helmingsfækkun í mörgum ríkjum

Á sama tíma gerir spáin ráð fyrir að fæðingartíðnin í 183 af 195 ríkjum heims muni ekki vera næg til þess að viðhalda mannfjölda ríkjanna án tilkomu innflytjenda. Þar af verða um tuttugu ríki, á borð við Japan, Taíland, Spán, Ítalíu, Portúgal, Suður-Kóreu og Pólland, þar sem mannfjöldinn mun fækka um að minnsta kosti helming. Nú þegar er fólksfækkun farin að hafa áhrif í mörgum þessum löndum, þó hún birtist einkum í jaðarbyggðum. Það sem kemur kannski meira á óvart er að spár gera ráð fyrir að mannfjöldinn í Kína þróist með svipuðum hætti. Þannig er gert ráð fyrir að í stað um 1,4 milljarða manna verði Kínverjar einungis um 730 milljónir árið 2100. Kínverjar eru þegar búnir að átta sig á þessari þróun og í stað þess að refsa fólki fyrir barneignir hvetja þeir fólk til þess að eiga börn.

Þá er einnig spáð að mannfjöldinn í ríkjum Afríku sunnan Sahara-eyðimerkurinnar þrefaldist, fari úr um milljarði manna upp í um þrjá milljarða. Samkvæmt þeim spám verður mannfjöldinn í Nígeríu um 790 milljónir manna árið 2100, sem myndi gera ríkið hið næstfjölmennasta í heimi á eftir Indlandi, með um 1,1 milljarð manna.

Áhrif breyttrar aldursdreifingar

En fólksfjöldatölurnar segja bara hálfa söguna, þar sem aldurssamsetning ríkjanna mun einnig breytast töluvert á næstu áttatíu árum, gangi niðurstöður rannsóknarinnar eftir. Þannig er gert ráð fyrir að börnum undir fimm ára aldri muni fækka úr 681 milljón árið 2017 í 401 milljón árið 2001. Á sama tíma verður meira en fjórðungur allra jarðarbúa yfir 65 ára aldri árið 2100, eða um 2,37 milljarðar manns. Þar af verða 866 milljónir yfir áttræðu, en þeir eru í dag um 140 milljónir.

Fyrirséð er að þessar breytingar munu hafa gríðarleg áhrif á þau samfélög þar sem þeirra verður mest vart, sér í lagi þar sem færri verða á vinnualdri til þess að borga skatta og halda þannig uppi hagvexti og þjónustustigi hins opinbera. Víða um heim sést þessi tilfærsla vinnuafls og Ísland er þar engin undantekning.

Í Kína er til dæmis gert ráð fyrir að um 350 milljónir manna verði á vinnualdri árið 2100, en þeir eru nú um 950 milljónir. Á Indlandi mun fólki á vinnualdri fækka úr um 762 milljónum manna, sem nú er, niður í 578 milljónir. Ekki verða þó öll ríki fyrir barðinu á þessari þróun, en rannsóknin gerir ráð fyrir að í Nígeríu muni fólki á vinnualdri fjölga úr 86 milljónum nú og upp í rúmlega 450 milljónir manna árið 2100.

Mikil áhrif á efnahaginn

Í rannsókninni er aftur reynt að færa þessar breytingar á vinnuafla ríkjanna yfir á hver líkleg þjóðarframleiðsla þeirra verði, og má búast við nokkrum sviptingum. Þannig hefur verið gert ráð fyrir að þjóðarframleiðsla Kínverja muni taka fram úr Bandaríkjamönnum á þessari öld að það verði raunin eftir 15 til 20 ár. En þróunin kemur einnig aftan að Kínverjum og því spáð að þeir muni aftur falla niður í annað sætið árið 2098, og Bandaríkin þá aftur ná forystunni sem stærsta hagkerfi heims. En þetta eru bara spár!handb

Í spálíkaninu er einnig gert ráð fyrir að þjóðarframleiðsla Indverja muni gera Indland að þriðja stærsta hagkerfi heimsins, en Japan, sem nú situr í þriðja sæti, detti niður í það fjórða fyrir árið 2100. Þýskaland, Frakkland og Bretland fylgja svo í humátt á eftir, en spárnar gera ráð fyrir að þessi ríki verði áfram meðal tíu stærstu hagkerfa heims.

Brasilía og Rússland, sem nú sitja í áttunda og tíunda sæti, munu hins vegar bæði gefa eftir á þeim lista og enda í 13. og 14. sæti árið 2100, á sama tíma og því er spáð að Nígería verði
með níunda stærsta hagkerfi heimsins árið 2100. Það getur verið fróðlegt að rifja upp að árið 1000 er talið að íbúar Evrópu hafi verið 36 milljónir talsins. Ljóst er að manninum hefur í senn tekist að vera frjósamur, margfaldast og uppfylla jörðina!