c

Pistlar:

20. september 2020 kl. 13:00

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Völd og áhrif lífeyrissjóðanna

Það er eðlilegt að velta fyrir sér stærð og umfangi íslenska lífeyrissjóðskerfisins og þá ekki síst hvernig ákvarðanir eru teknar nú í kjölfar hlutafjárútboðs Icelandair. Lífeyrissjóðirnir hafa nú yfir að ráða um 5500 milljörðum króna og þurfa að fjárfesta fyrir um 300 milljarða króna á hverju ári. Stærð þeirra í hagkerfinu er um margt einstök og blasir við að þeir eru í lykilhlutverk á íslenskum hlutabréfamarkaði. Sjóðirnir með fjárfestingum sínum og fjárfestingagetu eru þannig drottnandi vald á hlutabréfamarkaðinum. Þeir eiga um helming alls hlutafjár í Kauphöllinni og eru yfirgnæfandi á skuldabréfamarkaði. Þó að fjárfestingar þeirra eigi fyrst og fremst að taka mið af ávöxtun til að tryggja sjóðsfélögum sínum lífeyrir í ellinni virðast margir freistast til að líta á þá sem valdatæki til að ná fram pólitískum markmiðum sínum.sedlar

Það er hægt að taka undir með þeim sem gagnrýna Fjármálaeftirlitið fyrir að hafa ekki brugðist við og tekið á þessum skuggastjórnendum sem birtust með heldur augljósum hætti í aðdraganda útboðs Icelandair. Nema eftirlitið kjósi að taka þetta ekki alvarlega í ljósi þess að viðkomandi séu hvort sem er lítt marktækir! Það hlýtur að kalla á sérstaka rannsókn að stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna skyldi ekki taka þátt í útboðinu, sérstaklega þegar horft er til fjölda sjóðsfélaga hjá félaginu og mikilvægi þess fyrir atvinnulíf í landinu. Það eitt kallar ekki á þátttöku en hjásetan þarf að byggja á málefnalegum forsendum.

Stenst 3,5% viðmiðið?

Það leiðir af sjálfu sér að geta sjóðanna til að greiða lífeyrir ræðst af ávöxtun þeirra. Stærð þeirra gerir það að verkum að erfitt getur verið að finna góða fjárfestingakosti, sérstaklega þegar þjóðarframleiðsla er að dragast saman og erfitt að finna ásættanlega ávöxtunarkosti. Stærð þeirra í dag nemur um tvöfaldri vergri landsframleiðslu. Það er ekki til að bæta ástandið að heimildir sjóðanna til fjárfestinga erlendis hafa verið takmarkaðar enda síður áhugaverðar þegar krónan hefur gefið eftir. Því er það svo að ef fram fer sem horfir gætu lífeyrissjóðir þurft að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Á meðan vextir eru í sögulegu lágmarki og Seðlabankastjóri vonast til að þeir haldist áfram lægri en áður, setja vaxandi lífslíkur þjóðarinnar aukinn þrýsting á sjóðina eins og bent var á í Viðskiptablaðinu. Þetta lágvaxtaumhverfi kallar á skoðun viðmiða sem notuð eru til að meta skuldbindingar lífeyrissjóðanna, sem nú er 3,5% raunávöxtun sem sumum kanna að þykja fullhátt. Hækkandi lífaldur hefur einnig áhrif á skuldbindingar sjóðanna, en hingað til hafa skuldbindingar verið reiknaðar út frá lífslíkum byggðum á reynslu fortíðar, en ekki spá til framtíðar.

Minnka umsvif sjóðanna?

En ef stærð sjóðanna samfara auknum vandamálum með stjórnun og ákvarðanir þeirra eru vandamál þá er lausnin einföld. Það má einfaldlega minnka umfang þeirra. Það er ekki eins flókið og margir telja en vikið hefur verið að stærð þeirra áður hér í pistlum. Margir hafa orðið til þess að kallað eftir lækkun iðgjalda, en með hækkun mótframlags vinnuveitanda úr 8% í 11,5% árið 2018 er skyldulífeyrissparnaður nú samtals 15,5% af heildarlaunum. Nú má spyrja sig hvort þetta séu rétt skref, væri ekki skynsamara að beina meira af fjármunum sjóðanna í séreignasparnað? Þar gætu sjóðsfélagarnir sjálfir hafa meira að segja um ávöxtunina og geta þá treyst á ráðgjöf í bankakerfinu ef svo ber undir. Þetta gæti skapað meiri sveigjanleika og dregið úr stjórnunarlegri áhættu lífeyrissjóðskerfisins sem hefur óneitanlega aukist undanfarið.