c

Pistlar:

28. október 2020 kl. 12:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Glæpur og refsing til sjós og lands

Augljóslega farið að reyna mjög á þolinmæði landsmanna nú þegar ljóst er að faraldurinn er að dragast á langinn. Það er farið að færast dægurmálastimpill yfir þau mál sem koma upp og umræðan er í senn hvatvís og ómálefnalega þegar dægurmálin tengjast veirumálum. Efnahagslega erum við jafn illa stödd og áður og ljóst að við verðum að þreyja þorrann og góuna í það minnsta fram á vor. Vonir um að halda almennileg kaupmannajól eru líklega fyrir bý.

Það er forvitnilegt að skoða tvö mál síðustu daga er tengjast faraldrinum og útbreiðslu hans. Annars vegar mál er tengist útgerð togarans Júlíusar Geirmundssonar á Ísafirði og síðan hópsmit það sem komið hefur upp á Landakoti. Ef alvarleiki málsins er metin í útbreiðslu, sjúkrahúsinnlögnum og hve margir eru í lífshættu á Landakotsmálið vinninginn, því miður. Þar gerist það að í annað skipti, frá því faraldurinn kom upp, berst hópsmit inn á sjúkrastofnun sem hýsir þá sem veikastir eru fyrir. Í ofanálag virðist hafa verið í gangi það verklag að flytja sjúklinga á milli heilbrigðisstofnanna, þangað sem fleira viðkvæmt fólk býr, svo sem heilsuhælið Reykjalund og elliheimilið Sólvelli á Eyrarbakka. Hársbreidd munaði að sjúklingur yrði fluttur vestur í Stykkishólm þar sem fleira viðkvæmt fólk býr. I kjölfarið fylltist Landspítalinn af nýjum sjúklingum með veiruna.smit

Glæpurinn til lands

Margir spyrja sig hvernig þetta gat gerst og spurningar þær sem forstjóri Landspítalans fékk í fyrrakvöld í Kastljósþætti Ríkissjónvarpið endurspegluðu reiði og áhyggjur fólks. Ljóst var að forstjórinn hafði ekki skýr svör og tímalína málsins lá ekki fyrir. Fjölda smita meðal þeirra sem eru 80 ára og eldri fjölgað mjög mikið í kjölfar hópsmitsins og uppsafnaður fjöldi smita í þessum aldurshópi tók mikið stökk á liðinni viku. Það skýrist eingöngu af þeim smitum sem greinst hafa á Landakoti, þar sem öldrunarlækningadeild Landspítalans er til húsa.

Aðstandendur sjúklinga eru eðlilega miður sín og kenna sjálfum sér um í sumum tilfellum. Aðrir spyrja hvernig má þetta vera? Hvernig verður þetta rannsakað og á að rannsaka þetta yfir höfuð? Það er ekki ljóst, sumir tala eðlilega fyrir því að það eigi ekki að rjúfa friðinn og heilbrigðisstéttir landsins hafi nóg á sinni könnu. Talsmaður landlæknisembættisins gefur í skyn að rannsókn muni fara fram en talsmenn spítalans telja það af og frá, nóg sé að gera samt. Heilbrigðisstarfsmenn benda á að veiran sé lúmsk og lofa að endurskoða verkferla. Hugsanlega dugar það, en alvarleiki málsins blasir þó við og allir vonuðu að þeir sem eru veikir núna sleppi heilir frá sóttinni. Fréttir morgunsins eru hins vegar sorglegar, orrustur tapast, stríðið er ekki búið. Við erum jú öll í þessu saman, eða hvað? Í Frakklandi ákvað lögreglan fyrir stuttu að leita á heimili heilbrigðisráðherra landsins. Tilefnið var rannsókn sem er í gangi á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við útbreiðslu kórónuveirunnar. Í því kyrrláta landi Sviss hefur herinn verið kallaður út vegna veirunnar. Þolinmæðin þverr allstaðar.

Refsingin til sjós

Víkjum þá vestur á firði. Í þessu ástandi hefur sjávarútvegurinn reynt að halda starfsemi sinni sem mest óskertri og lagt á sig gríðarlega vinnu við að skipuleggja vinnslu sína til lands og sjós. Eitt vandasamasta verkið er að tryggja heilsufar sjómanna sem geta einangrast komi upp smit í veiðitúr. Það hefur gengið vel til þessa þar til atvikið með Júlíus Geirmundsson kemur upp. Þar voru gerð mistök og viðbrögðin voru fálmkennd til að byrja með og útskýringar ónógar. Má vera að menn séu einfaldlega ekki með þá almannatengslahæfileika sem heilbrigðiskerfið almennt hefur þróað með sér undanfarna mánuði, það dugði í það minnsta ekki að tala um að bæta verkferla eins og hér fyrir sunnan. Margir virðast telja sjálfsagt að rannsaka málið sem sakamál og af því eru fluttar fréttir reglulega auk þess sem viðkomandi verkalýðsfélög hafa haft áberandi afskipti af málinu meðal annars með tilkynningum sem í sumum tilfellum eru rangar eða villandi, svo sem það að verkjalyf hefðu klárast um borð. Það var ekki svo eins og hefur verið leiðrétt. Smáatriði en lýsandi þó.jul

En þetta hefur verið erfið vist og skipstjórinn á eftir að útskýra sínar ákvarðanir, öll ábyrgð á áhöfn er á herðum hans. Getum við haft skilning á hans aðstæðum? Hann er úti á sjó og þarf að taka ákvarðanir hratt og af festu. Veikindi koma upp til sjós og á hverjum tíma þarf að vega og meta ástand og viðeigandi viðbrögð. En rétt eins og á Landsspítalanum gilda skýrir verkferlar, skipstjóranum bar að hringja í Landhelgisgæsluna þegar smit kom upp en gerði það ekki, þess í stað talaði hann við heilbrigðisstarfsmenn í landi. Á meðan héldu menn áfram að veikjast en sumir náðu aftur heilsu, sem betur fer virðist engin skipverja hafa veikst alvarlega eða með miklum eftirköstum, þó of snemmt sé að fullyrða endanlega um það. Augljóslega þarf að endurvekja traust milli manna áður en aftur verður haldið til sjós. Sjómenn eiga rétt á útskýringum en 13 þeirra eru nú í einangrun. Rétt eins og það þarf að endurvekja traust til smitsjúkdómavarna á Landakoti og veita útskýringar á þróun mála þar.

En umræða um þetta atvik til sjós hefir orðið mörgum þeim sem fjandskapast út í sjávarútveg og fyrirkomulag veiða tilefni til harkalegra viðbragða. Í mörgum tilfellum er það fólkið sem vill breyta stjórnarskránni til þess að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu, nú eða talar bara orðið hreinskilnislega fyrir því að hefja byltingu og svipta lögmæt yfirvöld í landinu umboði sínu eins og birtist í útvarpsspjalli helgarinnar. Fyrir slíkan hóp er beislun smitsjúkdómalaga bara ein leið til að ná þessu markmiði sínu. Þar er hins vegar spurning hve langt yfirvöld eiga að ganga til að þjóna slíkum sjónarmiðum, nú þegar þörf er á samstöðu og skilningi.