c

Pistlar:

26. nóvember 2020 kl. 13:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslenskur sjávarútvegur og Rússlandsmarkaður

Það hefur ríkt nokkuð sérkennilegt ástand í viðskiptum okkar Íslendinga við Rússa undanfarin ár. Í kjölfar viðskiptaþvingana á Rússa vegna innlimunar Krímskagans árið 2014 missti íslensku sjávarútvegur mikilvægan útflutningsmarkað. Stundum virðist sem svo að það eina sem eftir stendur af þessum viðskiptaþvingunum sé tjón íslensks sjávarútvegs sem sjávarútvegsfyrirtækin hafa ein þurft að bera. Rússar héldu nefnilega áfram að kaupa lúxusvarning frá Vesturlöndum en ómögulegt reyndist að selja íslenskan fisk þangað. Það var mikil eftirsjá að Rússlandsmarkaði sem var meðal annars stærsti markaðurinn í hængloðnunni og hafa engin markaður fengist í staðinn. Nú hefur loðna ekki veiðst í tvö ár og ómögulegt að segja hvort þessi markaður verður til staðar, þegar og ef loðna veiðist aftur. Þá var lokunin einnig afdrifarík fyrir vinnslu á makríl. Tjónið var umtalsvert fyrir íslenskan sjávarútveg eins og fjallað var um hérTekjur vegna útflutnings íslenskra sjávarafurða á Rússlandsmarkað námu  24 milljörðum íslenskra króna árið 2014 og var þá annar verðmætasti markaður okkar.makr

Leita í íslenska smiðju

En á sama tíma og þetta ástand hefur ríkt hafa Rússar reynt að byggja upp sjávarútveg sinn og hafa þá leitað í smiðju íslenskra tæknifyrirtækja. Það var mjög forvitnilegt að lesa grein eftir Olgu Fedorovu í Fréttablaðinu í gær. Olga er viðskiptalögfræðingur frá Alþjóðastofnun rússneska utanríkisráðuneytisins við Moskvuháskóla, Berkeley LL.M, og MBA Háskólanum í Reykjavík. Í grein sinni rekur hún nokkur sóknarfæri fyrir íslensk tæknifyrirtæki en upplýsir um leið að Rússar hyggjast á stórfelda uppbyggingu í sínum sjávarútvegi. Vel má sjá fyrir sér að það geti haft umtalsverð áhrif á samkeppnisstöðu íslenskra sjávarafurða í framtíðinni. Meðal annars vegna þess að Rússar hafa aðra samkeppnisstöðu sem meðal annars felst í mun einfaldara og minna íþyngjandi regluverki. Hér er ekki verið að mæla því bót en til dæmis á sviði mengunarvarna eru Rússar miklir eftirbátar Íslendinga. Þá nýtur rússneskur sjávarútvegur umtalsverðra ríkisstyrkja á meðan sá íslenski greiðir umframgjöld af hagnaði sínum eins og birtist í veiðileyfagjöldunum. Engar slíkar greiðslur eru í Rússlandi sem um leið er legið á hálsi fyrir að ofveiða fiskistofna sína.

Nútímavæðing rússnesks sjávarútvegs

Olga bendir á í grein sinni að sjávarútvegstækni í Rússlandi hefur löngum þótt standa samkeppnisþjóðum að baki. Stór hluti fiskiskipa þeirra hafi verið smíðaður á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Meðalaldur skipanna er um og yfir 30 ár og því komin yfir áætlaðan nýtingartíma. Að sama skapi er fiskvinnslutækni að miklu leyti úr sér gengin. Hún segir því að mikill þrýstingur sé á að smíða nýrri og betri fiskiskip og stóraukna fjárfestingu í vinnslutækni á sjó og í landvinnslu, sem og innviðum þeim tengdum.

Þá rifjar Olga upp að rússnesk stjórnvöld kynntu árið 2009 aðgerðir til endurbóta í sjávarútvegi þar sem horft var til ársins 2020. Meginmarkmið var sjálfbærni og endurheimt fiskistofna ásamt umtalsverðri uppbyggingu fiskeldis. Undir merkjum aukinnar samkeppnishæfni yrðu Rússa leiðandi í fiskveiðum.

Meiri verðmætasköpun

Olga segir að allt þetta kalli á þróun frá hráefnisútflutningi til meiri verðmætasköpunar sem knúin yrði áfram með nýsköpun á virðiskeðjum og sjálfbærri nýtingu auðlinda. Hækka skyldi tæknistig fiskvinnslu og fiskiskipaflotans í innlendum skipasmíðastöðvum. Byggja átti upp innviði fyrir fiskvinnslu sem og fyrir þjónustu við fiskiskipaflotann. Styrkja skyldi fiskifræði og sjávarútvegstækni og þjálfa hæft starfsfólk. Auka átti skilvirkni fiskveiðistjórnunar ríkisins, styrkja reglu- og stofnanaumhverfi, ýta undir hvata til atvinnustarfsemi og fjárfestinga í sjávarútvegi. Hvatt var til alþjóðlegt samstarfs.fisksala

„Íslensk tæknifyrirtæki sem þjónusta sjávarútveg ættu að sækja hlutdeild í þeirri miklu nútímavæðingu sem á sér stað í rússneskum sjávarútvegi,“ skrifar Olga og bendir á að þessi stefna hafi verið metin og endurskoðuð árið 2015. Í ljós hafi komið að einungis fjórðungur fiskiskipaflotans hafði verið endurnýjaður. Ný endurskoðuð metnaðarfull stefna miðar við árið 2030. Nú er meiri áhersla á atvinnusköpun, lágmörkun neikvæðra umhverfisáhrifa, fæðuöryggi og lýðheilsusjónarmið. Rússar telja að auka þyrfti framleiðni vinnuafls og hagnað sjávarútvegsfyrirtækja og horfa væntanlega til Íslands. Heildarframlag sjávarútvegs til landsframleiðslu á að auka um fimm prósent á ári.

Krafa um betri fiskvinnslutækni

Til að ná þessu fram er megináhersla á nútímavæðingu sjávarútvegs, innviði, fiskvinnslu sem og fiskiskip. Þetta kallar á aukna framleiðslu sjávarafurða, betri fiskvinnslutækni og afkastagetu fiskiskipa, fjárfestingarátak til framþróunar sjávarútvegs og fiskeldis.

„Ýmsir hvatar styðja við þessa stefnu. Útgerðum býðst viðbótarkvóti gegn smíði nýrra fiskiskipa. Niðurstaðan er að fá ef nokkur lönd uppfæra flota sinn hraðar en Rússar. Það er þrátt fyrir tímabundnar efnahagsþrengingar Rússa,“ skrifar Olga. Það er því ljóst að íslenskur tækiiðnaður sér mikil tækifæri í uppbyggingu sjávarútvegs í Rússlandi en að sama skapi hlýtur íslenskur sjávarútvegur að fylgjast vandlega með samkeppnisstöðu sinni við ríkisstyrktan rússneskan sjávarútveg sem hefur lokað mörkuðum sínum fyrir íslensku sjávarfangi. Það raðast stundum einkennilega upp hlutirnir í hinu alþjóðlega viðskiptaumhverfi.