c

Pistlar:

7. janúar 2021 kl. 11:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bóluefnaraunir heimsins

Eins og horfur eru nú í framleiðslu og bólusetningu getur það tekið allt upp í tvö ár að þurrka út áhrif kórónuverufaraldursins á heimsbúskapinn. Rétt eins og við Íslendingar erum að uppgötva er þetta kapphlaup í heimi þar sem er ónógt bóluefni og stjórnmálaleiðtogar flestra ríkja leita nú leiða til að fá bóluefni, í það minnsta ekki seinna en aðrir. Það sést kannski best á því að forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederikse, hringdi í kollega sinn Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í gær, til að leita ráða um bóluefnakaup. Engri þjóð gengur betur en Ísraelsmönnum enda bólusetja þeir hraðar en aðrir og stefna á að vera búnir að bólusetja í það minnsta 25% þjóðarinnar á 1. ársfjórðungi. Til samanburðar stefnir í að við Íslendingar verðum búin að bólusetja um 8% þjóðarinnar eða um 30 þúsund manns. Til að breyting verði á því hjá okkur verða leyniviðræður við Pfizer að ganga upp en sóttvarnarlæknir sagði á fundinum í dag að boltinn væri enn hjá Pfizer. Á sama tíma er Benjamin Netanyahu að tilkynna að hann sé búinn að ganga frá samningi við Stephane Bancel, forstjóra Moderna, og komu fyrstu sendingar bóluefnisins til Ísraels í gær.covid

Bæði forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra hafa sagt að meirihluti þjóðarinnar verði bólusettur fyrir mitt ár. Til að það gangi þarf að bólusetja í það minnsta 150.000 manns til viðbótar á 2. ársfjórðungi. Sóttvarnarlæknir vildi ekkert tjá sig um þessa framvindu á upplýsingafundi í dag en virtist binda vonir við Oxford/AstraZeneca eða að Pfizer og Moderna geti aukið framleiðslugetu sína.

Einfaldir útreikningar sýna að það þarf 10 milljarða skammta af bóluefni frá Pfizer og Moderna til að bólusetja 5 milljarða jarðarbúa en hver maður þarf að fá 2 skammta til að njóta um það bil 95% verndar þessara lyfja. Eins og áætlanir þeirra blasa við núna munu þau sameiginlega framleiða um 2 milljarða skammta á þessu ári.

Ekkert er vitað um ágæti þeirra lyfja sem Kínverjar, Indverjar og Rússar hafa framleitt og eru byrjaðir að bólusetja með. Það er algerlega óvíst hvort þau fá samþykki á Vesturlöndum eða hvenær skrifar Gustav Oertzen, kennari við Leuphana University, í Financial Times, í gær.

Bjargar Oxford/AstraZeneca málum?

Því er það svo að margir verða að treysta á að Oxford/AstraZeneca skaffi nóg af bóluefni sem er bæði einfaldara og ódýrara en veitir minni vörn. Þeir hafa hafa gefið út að þeir hyggist framleiða um 3 milljarða skammta á þessu ári en það þarf bara eina bólusetningu af því. Til þessa hafa þeir framleitt aðeins 4 milljónir skammta en óvíst er hvaða samþykki þeir fá frá lyfjayfirvöldum þar sem bóluefnið veitir aðeins 70% vörn. Einnig er óvíst hve vel þeim gengur að framleiða. Þá er óvíst hvenær og hvort efni frá Johnson & Johnson eða Novavax komast í umferð.

Ísraelsmenn eins og fleiri töldu að Moderna og AstraZeneca yrðu fyrst með bóluefni (eins og við Íslendingar) en þegar ljóst var að Pfizer yrði fyrstir með efnið var allt ræst út með forsætisráðherrann Benjamin Netanyahu í broddi fylkingar og samið beint við Pfizer. Þetta var gert í haust og að endingu samþykktu Ísraelsmenn að greiða tvöfalt verð fyrir lyfið en töldu það verjandi þar sem veiran geisaði og olli miklu tjóni. Það er það sem blasir við öllum þjóðfélögum, tjónið af því að veiran geysi út þetta ár er gríðarlegt.