c

Pistlar:

23. janúar 2021 kl. 14:52

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sannleikurinn og sögumaðurinn

Það er óhætt að fullyrða að nútímamaðurinn þurfi að fást við fáheyrt áreiti frá degi til dags. Alheimskliður frétta og fullyrðinga dynur á honum sé hann á annað borð tengdur inn í hið stóra samtal sem netið (í eina tíð kallað alnetið) býður uppá. Auðvitað er misjafnt hve mikið fólk leggur sig eftir að hlusta en augljóslega er áreiti samfélagsmiðla að hafa töluverð áhrif á yngri kynslóðirnar. Þeir sem eldri eru eiga oft erfitt með að greina hvaðan upplýsingarnar berast og hver er að segja frá hverju sinni. Fyrir tíma samfélagsmiðla taldi fólk sig geta fundið ákveðna fjölmiðla sem segðu sannar og betur frá en aðrir og svo var alltaf hægt að treysta á sagnfræðingana sem kæmu með hina endalegu sögu í fyllingu tímans. Fáir trúa á þetta fyrirkomulag í dag og baráttan um að finna, eiga og dreifa sannleikanum verður stöðugt harðskeyttari. Augljóslega töldu margir sérstaka ástæðu til að vantreysta því sem kom frá fyrrverandi Bandaríkjaforseta og fjölmiðlar voru farnir að halda úti sérstökum staðreyndasíðum sem ætlað var að leiðrétta það sem frá forsetanum kom. Aðrir sögðu að þessum sannleikssíðum væri ekki treystandi og þær gerðu lítið annað en að varpa fram sjónarmiðum andstæðinga forsetans. Þannig varð þessi „sannleiksleit“ að endingu að pólitísku vopni fremur en þekkingafræðilegum áreiðanleika.

Hér á Íslandi varð mikið umrót og hugmyndafræðileg átök í kjölfar bankahrunsins fyrir tólf árum síðan. Þá var ákveðið að hrinda af stað stað vísi að sannleiksnefnd sem sendi frá sér rannsóknarskýrslu árið 2010, tveimur árum eftir hrun. Ýmist fannst mönnum skýrslan koma of snemma eða seint en hún varð fljótlega að endanlegum sannleika hjá sumum. Ekki síst þegar byrjað var að smíða ákærur upp úr henni. Hjá öðrum varð hún tilefni umróts og gagnrýni enda margt aðfinnsluvert í framkvæmd hennar eins og gefur að skilja. Líklega er nærri sanni að segja að hún hafi fremur verið upplýsandi samantekt heldur en einhverskonar endanlegur sannleikur hafi einhver haft væntingar til þess. Enn í dag telja menn, sem voru áberandi í aðdraganda bankahrunsins, sér það til tekna að þeirra var ekki getið í skýrslunni og að það hafi tryggt þeim syndaaflausn. Þeir sem í skýrslunni lentu segja aftur á móti að þeirra hlið sé afbökuð og sjónarmið þeirra hafi ekki komist að. Hugsanlega er hægt að slá því einu föstu að rannsóknarskýrslan hafi bara fært okkur eitt sjónarhorn (að vísu á mörgum blaðsíðum) um það sem gerðist.

Sjónarhorn fremur en sannleikur

Hér pistlum hefur stundum verið vitnað til þýska heimspekingsins Friedrich Nietzsche (1844-1900) sem segir okkur allt, en á sama tíma ekkert! Hann skildi okkur þó eftir með þá hugsun að heimurinn stýrðist fremur af sjónarhornum en sannleika. Í áhrifamikilli bók um Nietzsche skrifar Arthur C. Danto:

„Sú kenning að ekki séu til neinar staðreyndir heldur einungis túlkanir er nefnd sjónarhornshyggja (e.perspectivism). Við tölum auðvitað um að sjá sama hlutinn frá ólíkum sjónarhornum, og við gerum ef til vill ráð fyrir að það sé engin leið að sjá hlutinn nema frá ákveðnu sjónarhóli, og, loks, að ekkert eitt sjónarhorn sé yfir önnur hafið. Þetta eru röklegir eiginleikar hugtaksins sjónarhorn. Eini vandinn hér er sá að við ræðum um „sama hlutinn“ sem hin ólíku sjónarhorn eru á. Við getum vissulega ekki sagt hvað hann er nema frá einhverju sjónarhorni, og við getum ekki rætt um hlutinn eins og hann er í sjálfum sér [...] Við getum því ekki sagt neitt merkingabært um hvað það nú er sem þessi ólíku sjónarhorn eru sjónarhorn á. Við getum ekki rætt um satt eða rétt sjónarhorn heldur einungis ríkjandi sjónarhorn. Þar sem við getum ekki höfðað til neinnar staðreyndar sem er óháð því sjónarhorni sem hún styður, þá getum við lítið gert annað en að halda okkar eigin sjónarhorni fram og reyna eftir bestu getu að þröngva því upp á aðra.“*

Það hefur oft áður verið tæpt á sjónarhornshyggju hér áður í pistlum enda má segja að hún hafi aldrei átt skýrara erindi við samtímann.jon asgeir

Sögumaður frekar en sagnfræðingur

Nú hefur einn af þeim sem voru hvað mest áberandi fyrir bankahrunið, kaupsýslumaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson, birst með bók ritaða af varaþingmanni Samfylkingarinnar, rithöfundinum Einari Kárasyni. Bókin er ekki komin í almenna sölu en umfjöllun um hana hefur verið fyrirferðamikil í fjölmiðlum undanfana daga. Rithöfundurinn Einar Kárason tekur fram að hann sé ekki sagnfræðingur í samtali við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í Fréttablaðinu í dag.

Segja má að Einar Kárason kynni sig til leiks með heldur hógværum hætti og satt best að segja ákveðin tilbreyting í því. Hann segir um aðkomu sína að ritun ævisögu Jóns Ásgeirs í Fréttablaðinu í dag: „Þegar ég fór síðan að skoða málið lauslega áttaði ég mig á því að alveg síðan hrunið varð 2008 hefur leitað á mig að ég þyrfti að setja mig inn í þau mál frá einhverju sjónarhorni og skrifa um Sturlungaöld hina síðari.
Ég er hvorki fræðimaður né sagnfræðingur og ákvað að það yrði enginn slíkur bragur á bókinni. Ég vildi ekki hafa neðanmálsgreinar því þá væri ég farinn að þykjast vera sagnfræðingur, sem ég er ekki. Ég er sögumaður og ég held að sagan sem ég er að segja sé sönn og rétt.“

Það er ákveðin hreinskilni í þessum orðum þó að augljóslega vefjist fyrir þeim sem tekur viðtalið að trúa Einari. Og hefur þó Kolbrún sjálf kynnst vandasömu hlutverki ævisöguritarans eftir að hafa skrifað fyrsta og eina bindi ævisögu Jóns Baldvins Hannibalssonar sem háir nú harða baráttu við sannleikann á síðasta æviskeiðinu. „Sannleikurinn fer aldrei neinar krókaleiðir,“ er haft eftir gríska harmleikjaskáldinu Sófókles (496/497–406 f.Kr.). Nútímamaðurinn hlýtur að brosa í kampinn yfir slíkum ummælum.

*(Sjá, Efasemdir um gildi sannleikans fyrir sagnfræðinga, eftir Róbert Haraldsson í bók hans: Ádrepur - Um sannleika, hlutleysi vísinda, málfrelsi og gagnrýna hugsun.)