c

Pistlar:

27. febrúar 2021 kl. 15:03

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Versnandi ástand í Nikaragva

Síðustu þrjú ár hefur ríkt hálfgerð óöld í Mið-Ameríkuríkinu Nikaragva eins og fjallað var um í pistli hér fyrir nokkru. Efnahagur landsins hefur versnað til muna og Nikaragva nú eitt fátækasta land Mið-Ameríku. Nýleg skýrsla Amnesty International sýnir að mannréttindi eiga mjög undir högg að sækja og landið er á svörtum lista samtakanna og annarra þeirra sem láta sig mannréttindi varða. Því miður virðast þær litlu lýðræðis- og efnahagsumbætur sem grillti í fyrir nokkrum árum vera að veðrast í burtu. Sósíalistastjórnin sem ræður nú ríkjum í Nikaragva hefur sýnt hið rétta eðli sósíalismans. Óstjórn, harðræði, spilling og ofsóknir gagnvart pólitískum andstæðingum eru nú daglegt brauð. Fólkið þjáist og engar breytingar sjáanlegar enda búið að taka hin lýðræðislegu ferli úr sambandi.nic

Eignarrétturinn tekin úr sambandi

Eins og gerist oft hjá sósíalískum stjórnum hefur eignarrétturinn verið tekin smám saman úr sambandi og þannig hefur nánast öll erlend fjárfesting horfið. Formlega segjast stjórnvöld áhugasöm um erlendar fjárfestingar en skortur á gagnsæi og fyrirsjáanleika dregur úr áhuga hugsanlegra fjárfesta. Um leið hefur stjórnin hert tök sín á hæstarétti landsins sem er orðin pólitísk framlenging af ríkisstjórn Daniels Ortega. Spilling er grasserandi og almenningur verður að bera fé á opinbera embættismenn til að fá þjónustu. Svona er nú komið í þessu landi sem er ríkt frá náttúrunnar hendi en talið er að helmingur landsmanna lifi undir fátæktarmörkum.

Allt síðan 2018 hefur dregið úr útlánum til einstaklinga og fyrirtækja og stjórnvöld stýra verðlagi að mestu. Það nær til nauðsynja eins og rafmagns, gas, húsnæðis og lyfja. Ýmsar nauðsynjar eru niðurgreiddar af stjórnvöldum, svo sem bensín og vatn. Landbúnaðarvörur og vefnaðarvörur standa undir helmingi af útflutningstekjum landsins.

Byltingarleiðtoginn Daniel Ortega

Núverandi forseti, Daniel Ortega, komst fyrst til valda árið 1979 í kjöl­far bylt­ing­ar sem gerð var til að steypa þáver­andi ein­ræðis­stjórn af stóli en Somoza ættin hafði stýrt landinu um árabil, meðal annars með stuðningi Bandaríkjamanna. Ortega var þá ung­ur bylt­ing­ar­leiðtogi Sandínistahreyfingarinnar og kunnu stjórn­völd í Banda­ríkj­un­um lítt að meta um­skipt­in í land­inu. Til að hindra að landið félli í hendur marx­ist­a ákváðu Banda­ríkja­menn að styðja Contra-skæru­liðana og reyna að grafa und­an sandín­ist­um. Það var ein af mörgum vondum ákvörðunum bandarískra stjórnvalda á þessu svæði. Borg­ara­stríð braust út, tugþúsund­ir féllu og Ortega hrökklaðist frá völd­um árið 1990 eftir að hafa tapað kosningum fyrir Violeta Chamorro, fyrstu konunni til að vera kosin forseti í lýðræðislegum kosningum í Ameríku. Þá var efnahagur landsins í molum eftir langvinn átök og óstjórn.

Breytti stjórnarskránni

Daniel Ortega komst aftur til valda eftir kosningar í nóvember 2006 og vann aftur 2010. Til að geta verið í framboði í þriðja sinn þurfti hann að breyta stjórnarskránni sem hann gerði vitaskuld. Segja má að stjórn Ortega hafi stjórnast af nokkurskonar hentistefnu (pragmatisma). Hann hefur stutt fjárfestingar og atvinnuuppbyggingu þó spillingin og harðræðið virðist nú vera að spilla öllum slíkum áformum. Ortega tók við þeim fjármunum sem Hugo Chávez (1954-2013) dældi í hann til að stuðla að áframhaldandi útbreiðslu sósíalisma í Mið- og Suður-Ameríku en virtist ekki tilbúin að ganga alla leið. Daniel Ortega og Rosario Murillo, kona hans, eru ásökuð um mikla spillingu en hún er varaforseti landsins. Hægri hönd þeirra hjóna er Néstor Moncada Lau sem kemur fram sem einhverskonar öryggisstjóri en hann hefur verið félagi Ortega allt síðan þeir voru skæruliðar saman. Néstor hefur auðgast mjög og er talin taka að sér skítverk forsetans þegar þarf að fást við andstæðinga hans.ortega

Amnesty lýtur svo á að það hafi ríkt krísa í mannréttindum Nikaragva síðan 2018. Eins og í flestum ríkjum sósíalista hefur stjórnin smám saman orðið afhuga lýðræði og snúist upp í frændhygli með tilheyrandi spillingu. Saka mót­mæl­end­ur Ortega og konu hans nú um spill­ingu og gagn­rýna opinskátt stjórn­ar­hætti hans þó það sé hættulegt en undanfarin ár hafa stjórnarandstæðingar verið handteknir umvörpum og pyntaðir og jafnvel myrtir.

„Í þrjú ár hefur ríkisstjórn Daniels Ortega sýnt aftur og aftur að hún er tilbúin til að gera allt til þess að hindra að mannréttindi séu virt og að landsmenn fái að njóta þeirra. Stjórnvöld í Nikvaragúa verða að hætt að traðka á réttindum þeirra þúsunda sem eru nú fórnarlömb þvingunaraðgerða stjórnvalda,“ segir Erika Guevara-Rosas, stjórnandi Amnesty International í Suður-Ameríku.