c

Pistlar:

8. apríl 2021 kl. 17:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að vera á móti kvótakerfinu - þekking eða blekking?

„Tæp 60 prósent Íslendinga eru andvíg núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi. Afstaða almennings virðist ekki breytast mikið milli aldurshópa en töluverður munur er á afstöðu kvenna og karla til kvótakerfisins.“

Þannig kynnti Vísir nýlega könnun sem Maskína gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar sem framkvæmd var um miðjan marsmánuð. Var þar meðal annars spurt út í afstöðu almennings til kvótakerfisins og eru mun fleiri andvígir núverandi kerfi en eru hlynntir því en 752 tóku þátt í könnuninni.

Ekki verður farið nánar út í skiptingu könnunarinnar né heldur ástæðu þessa að þetta málefni skyldi hafa verið tekið upp umfram önnur af þessum miðlum. Það má hins vegar velta fyrir sér afstöðu til hvers er verið að taka í könnuninni? Er fólk að meta fiskveiðistjórnun í landinu, aflahlutdeildarkerfið, nú eða bara einfaldlega að tjá afstöðu sína til sjávarútvegsins almennt en þó kannski sérstaklega sjávarútvegsfyrirtækjanna og stjórnenda þeirra. Gerir fólk greinarmun þar á í könnun sem þessari? Það er nú einu sinni svo að mjög margt við fyrirkomulag fiskveiða hér við land er nokkuð flókið og ekki hafa allir áhuga á að setja sig inn í það.slor

Afrakstur langrar þróunar

Eins og lesendur hafa tekið eftir hef ég alloft fjallað um sjávarútveginn í pistlum mínum. Hef ég þá reynt að meta þróun hans, fyrirkomulag og hagkvæmni fyrir þjóðarbúið, meðal annars í samanburði við það hvernig sjávarútvegur er rekin annars staðar. Hvaða skoðun sem menn hafa á tilurð aflamarkskerfisins þá getur engin með góðri samvisku þrætt fyrir hagkvæmni sjávarútvegsins hér enda hefur löggjafinn með þátttöku allra flokka unnið að því að sníða af agnúa hans í áratugi. Styrinn um hann hefur fyrst og fremst staðið um það hvort sjávarútvegurinn njóti einhverra ívilnana umfram aðrar atvinnugreinar vegna þess að hann nýtir fiskveiðiauðlindina hér við land. Fyrir það borgar hann sérstakt auðlindagjald en um upphæð þess og hvernig það er reiknað út má sífellt deila.

Tveir hópar

Íslenskir fræðimenn á sviði auðlindafræði og sjávarútvegs virðast sannfærðari um ágæti kerfisins en almenningur. Hér hefur oft verið vitnað til dr. Þráins Eggertssonar hagfræðings sem er þekktur fræðimaður á sviði stofnanahagfræði. Þráinn skipti andstæðingum kvótakerfisins upp í tvo hópa í bók sinni Háskaleg hagkerfi - tækifæri og takmarkanir umbóta (gefin út 2007). Fyrri hópurinn samanstendur af fólki sem telur að atvinnulífið í ákveðnum smáum byggðalögum (þar á meðal yfirleitt þess eigin heimahögum) hafi orðið fyrir skaðlegum áhrifum af kvótakerfinu. Það kennir þá kvótakerfinu um vaxandi samþjöppun atvinnugreinarinnar í fáum byggðakjörnum. Þessir gagnrýnendur vilja gjarnan afnema kerfið í heild og leysa það af hólmi með beinni stjórn í einhverju formi, svo sem markdagakerfi. Þráinn telur að þessi hópur hafi verið að vernda persónulega hagsmuni. Hafa má í huga að í viðamikilli úttekt sem dr. Birgir Þór Runólfsson dósent gerði fyrir auðlindanefnd árið 2000 er niðurstaðan sú að „ekkert samband virðist vera milli aflahlutdeildarkerfisins og byggðaþróunar hérlendis“. Þetta hefur einnig verið rætt hér í pistlum.

Hugmyndafræðileg barátta

En Þráinn segir hinn hópinn áhugaverðari út frá fræðilegum skilningi því þar sé andstaðan í grundvallaratriðum hugmyndafræðileg og reiðir sig á lögmætislíkön. Grunnafstaðan sé sú að fiskimiðin séu sameign íslensku þjóðarinnar og þingið hafi þannig svipt þjóðina lögmætri eign sinni með úthlutun kvóta (ókeypis) í upphafi. Sýnilegustu talsmenn þessa strangsiðferðilega viðhorfs eru menntamenn, bæði til hægri og vinstri segir Þráinn. Innan þessa hóps er fólk sem telur kvótakerfið meira að segja vera í andstöðu við stjórnarskrá landsins þó slík sjónarmið hafi aldrei fengið brautargengi fyrir Hæstarétti Íslands.

Baráttan sé því fyrst og fremst hugmyndafræðileg vegna þess að hinar efnahagslegu kringumstæður þessara gagnrýnenda myndu ekki batna verulega þótt stjórnvöld færu að tillögum þeirra segir Þráinn. Hann bendir á að aðgerðir þeirra séu þess í stað til marks um átök félagslíkna þar sem auðsöfnun „ómaklegra“ birtist með bættri stöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Við sjáum það aftur og aftur að grunsemdir um hagnað og arðgreiðslu sjávarútvegsfyrirtækja verða tilefni umræðu um að breyta kerfinu og auka greiðslur í ríkissjóð. Sem fyrr má spyrja sig hvort að önnur fyrirtæki sem nýti auðlindir landsins, svo sem hálendið verða að ganga í gegnum sömu umræðu sýni þau hagnað?