c

Pistlar:

15. apríl 2021 kl. 11:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Óveðurský á lofti í hagkerfinu

Svo virðist sem stjórnarliðar telji að það sé allt með feldu í hagkerfinu, jú þeir gangast við því að það sé stór reikningur vegna kórónuveirunnar að falla á ríkissjóð (áætlaður 320 milljarða króna halli núna) en í reynd þurfi ekki að taka á því fyrr en í óskilgreindri framtíð. Það er reyndar eins og sumir þeirra gæli við að ríkissjóður þurfi jafnvel ekki að takast á við vandann vegna þess að þetta seytli allt inn í fjármálaáætlanir embættismanna fjármálaráðuneytisins en þessar sömu áætlanir hafa gert mörk birtu og skugga í hagkerfinu næsta óljós.

En undanfarið hefur sótt að mörgum hagspekingnum augljós kvíði sem stafar af því að það geisar talsverð verðbólga hér á Íslandi og það inni í til þess að gera vaxta- og hagvaxtarlausu hagkerfi. Þetta hefur án efa ýtt á eftir því að borgarastéttin setur meira fjármagn í hlutabréf og fasteignir sem hefur svo þrýst upp verði beggja sem hefur auðvitað margvíslegar afleiðingar, meðal annars það að það gjald að komast inn á húsnæðismarkað hækkar stöðugt. Seðlabankinn benti á það í fjármálastöðugleikariti sínu í gærmorgun að þrátt fyrir
„verðhækkanir á eignamörkuðum hefur sveiflutengd kerfisáhætta ekki aukist að neinu marki síðustu misseri.“ Að hluta til er Seðlabankinn að gefa eigin stefnu einkunn og fjármálastöðugleikaskýrslan núna ber meira keim af óskhyggju en raunverulegu stöðumati. Vissulega líður lækninum vel (fjármálakerfinu) en sjúklingurinn (atvinnulífið) er veikur.efnahagure

Verðbólgunnar þungi niður

Vandinn er að verðbólgunnar þungi niður verður ekki stöðvaður eins og birtist þegar rýnt er í umsagnir markaðsaðila. Árstaktur kjarnaverðbólgu sem stendur í 5,2% og þar með langt yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans en síðustu mánuði hafa greiningaraðilar verið að sjá hækkun verðbólgu en gáfu sér alltaf að hún myndi lækka skjótt með vorinu. Það virðist ekki ætla að ganga eftir.

Menn reyna að tala af varfærni og segja að það hafi orðið „hamskiptin á kjarnaverðbólgu í kjölfar kórónaveirufaraldursins,“ eins og Birgir Haraldsson, sjóðsstjóri hjá Akta, skrifar í Markaðinn í gærmorgun. Augljóslega blasir við verðbólguvandi til skemmri tíma og þáttaskil gætu verið fram undan þar sem há verðbólga gæti reynst viðvarandi vandamál og kallað á breytta stefnu Seðlabankans sem hefur haldið ríkisstjórninni í skjóli.

En framvinda verðbólguvænting undanfarið er augljóslega að valda Seðlabankanum áhyggjum um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmiðið hafi veikst. Traust kjölfesta verðbólguvæntinga hefur verið haldreipi bankans í gegnum nýlegt vaxtalækkunarferli eins og Birgir bendir á. Ef fer sem horfir gæti Seðlabankinn þurft að skipta um kúrs og þá gætu landsmenn skilið alvöru málsins í efnahagsmálum.

Skafl kostnaðarhækkana

Það sem verra er er að væntingar um vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands gætu þannig gjörbreyst á næstu misserum. Sífellt fleiri markaðsaðilar tala nú um að skafl kostnaðarhækkana framundan meðal annars vegna hækkunar á farmgjöldum (Viðskiptablaðið sagði þær fordæmalausar í morgun) og óraunhæfrar kaupmáttaraukningar. Birgir Örn Birgisson, fráfarandi framkvæmdastjóri Domino’s á Ísland og einn af forvígismönnum Samtak fyrirtækja á veitingamarkaði, vék að þessari stöðu í viðtali við Markaðinn í gær en augljóslega er staðan orðin alvarleg, það er á mörkum þess að hagkerfið standi undir launakostnaði og sívaxandi yfirbyggingu hins opinbera ofan á það.

„Kartöflukúrinn“ - raunhæft markmið?

Hér getur verið fróðlegt að skoða svipaðar aðstæður í dönsku hagkerfi árið 1985 en þá var verðbólga vaxandi og þensla í efnahagslífinu almennt og kaupmáttur óraunhæfur. Þá boðaði stjórn Pauls Schlüters forsætisráðherra „kartöflukúrinn“ svokallaða og þjóðin tók honum með jafnaðargeði - meðal annars til að sleppa við verðbólgu sem er eitur í beinum Dana. En stundum verður feigum ekki forðað og varla munu íslenskir kjósendur sætta sig við slíkt, eða hvað? Skiptir líklega engu, í verkalýðshreyfingunni er fólk sem sér ekki ísjakana framundan.

Enda virðast landsmenn vera bara nokkuð bjartsýnir eða hugsanlegt að þeir skilji ekki alvöru málsins eða kjósi að gera það ekki. Vissulega er skuldastaða heimila góð og enn og aftur sýnir sig að aðgerðir Leiðréttingarinnar voru mikilvægar. En það ríkir óskhyggja hjá almenningi enda hefur væntingavísitala Gallups ekki mælst hærri í þrjú ár en í mars síðastliðnum. Væntingar um betri tíð að hálfu ári liðnu ráða mestu um mikla hækkun vísitölunnar síðustu mánuði. Svo virðist sem landsmenn hyggi á kaup á bílum og íbúðum í talsverðum mæli en gera síður áætlanir um utanlandsferðir þessa dagana. Svona hugsar ofurbjartsýn þjóð. Kannski má bara kaupa sig út úr vandanum!