c

Pistlar:

2. maí 2021 kl. 13:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Haglýsing í byrjun maí


Nú eru liðnir um 14 mánuðir síðan kórónuveiran fór að gera vart við sig í íslensku samfélagi og óhætt er að segja að veiran og viðbrögð við henni hafi mótað allt samfélagið, bæði mannlífið og ekki síður efnahagslífið. Nú þegar staðfestar bólusetningaráætlanir liggja fyrir og tímasetning hjarðónæmis hefur verið gefin út blasir við að það þarf að fara að horfa aftur til venjulegra viðmiða um ástand hagkerfisins, svo sem verðbólgu, atvinnuleysi, ríkisfjármál og þjóðarskuldir. Af þessu eru síðan ýmsar afleiddar stærðir og þar skipta stýrivextir og eignaverð mestu.byggingastarf

En í liðinni viku greindi Hagstofan frá því að árshækkun vísitölu neysluverðs mældist 4,6% í apríl, samanborið við 4,3% í mars. Verðbólgan hefur ekki mælst hærri síðan í febrúar 2013. Hverju sætir þetta og hvernig er staðan í hagkerfinu? Jú, stutta útgáfan gæti hljómað svona: Vextir eru sögulega lágir, það er mikill halli hjá hinu opinbera, innlendir kjarasamningar virðast vera langt umfram framleiðniaukningu, það er að dynja yfir samfélagið kostnaður við styttingu vinnutíma hjá ríki og borg, það hafa verið verulegar alþjóðlegar verðhækkanir, svo sem á hrávöruverði, þá hefur orðið umtalsverð hækkun á gámafrakt. Dæmi eru um að verð þar hafi allt að þrefaldast. Þá geta ýmsir alþjóðlegir þættir haft áhrif svo sem aukinn hallarekstur ríkissjóða í kjölfar veirunnar, launaþróun í Bandaríkjunum, og svo mætti áfram telja.

Hrávörumarkaðir að hækka en væntingar um hagvöxt

Hvað hina alþjóðlegu þætti varðar er rétt að hafa í huga að margir sjá fyrir sér verulegan hagvöxt og byggja það meðal annars á sögulegum gögnum um viðbrögð hagkerfa í kjölfar veirufaraldurs. Meðfylgjandi graf er fengið að láni frá Economist og sýnir spá um hagvaxtarþróun stærstu hagkerfa heims. Augljóslega er gert ráð fyrir verulegum viðsnúningi og kröftugur hagvöxtur erlendis ætti að nýtast íslensku efnahagslífi, svo sem með hagstærðri verðþróun á okkar vörum. Á móti kemur að hrávörur hafa hækkað allt að 45% (í Bandaríkjadölum talið) á árinu og má sem dæmi taka að korn hefur hækkað um 80% frá ársbyrjun 2019.alhagv

Fasteignir seljast á yfirverði

Þegar þetta er skoðað er líklega ekki hægt að búast við öðru en talsverðri verðbólgu næstu misserin enda lítið sem vinnur beinlínis gegn verðbólgunni þessa daganna. Fasteignamarkaður er augljóslega uppspenntur en talið er að allt að þriðjungur fasteigna í sölu fari yfir ásettu verði og hlutfallið virðist fremur á uppleið. Þannig sjá menn fyrir sér að lækkun vaxta sé hætta að draga niður fasteignaliðinn í mælingu neysluvísitölu.

Fasteignamarkaður er vísbending um að eignaverð hefur almennt verið að hækka, bæði hér og erlendis og þó að mörgum þyki nóg um hækkun í kauphöllum, hér og erlendis, þá virðast mörg fyrirtæki enn vera á góðu verði. Það eru augljóslega miklar áskoranir fyrir hagstjórn í landinu sem þessa daganna virðist fyrst og fremst á herðum Seðlabankans.