c

Pistlar:

21. júní 2021 kl. 15:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Pólitísk stórtíðindi frá Svíþjóð

Að sumu leyti snúast sænsk stjórnmál fyrst og fremst um stöðugleika sem oftast er tengdur stjórn sem lýtur forystu Sósíaldemókrata sem sögulega séð hafa verið ráðandi flokkur í Svíþjóð og eigna sér með réttu eða röngu sænska þjóðfélagsmódelið sem hefur verið mörgum fyrirmynd. Til að sýna stöðugleikanum enn meiri lotningu er litlausasti stjórnmálamaður landsins, Stefan Löfven, (f. 1957) settur yfir þetta allt, nánast eins og fulltrú lægsta samnefnarans. Málmiðnaðarmaðurinn Löfven er slándi andstaða við litríka stjórnmálamenn eins og Olov Palme og Carl Bildt en hefur tekist að halda völdum síðustu sjö árin. Eftir mikinn vandræðagang við að mynda ríkisstjórn árið 2018 setti Löfven saman minnihlutastjórn með græningjum sem studdist við rétt um þriðjung atkvæða. Þar sýndi hann ákveðin pólitísk klókindi en stjórnin var rauðgræn í áherslum en hefur reynst fremur verklaus og átakafælin. Það að hún skyldi falla út af afstöðu til fyrirkomulags húsaleigu segir ekki nema hálfa söguna. Það er í raun búin að vera pólitísk kreppa í Svíþjóð í langan tíma sem birtist nú með einstökum hætti í stjórnmálasögu þjóðarinnar. Þá virðist djúpstætt vantraust ríkja milli stjórnmálaleiðtoga í Svíþjóð.löfen

Fátíð atburðarás

Það þurfti 175 atkvæði (meirihluta) til að koma í gegn vantrausti á Stefan Löfven forsætisráðherra (S) og ríkisstjórnar hans. Atkvæðagreiðsla í morgun á Riksdag leiddi í ljós að 181 greiddu atkvæði með, 109 á móti, en 51 þingmaður á ríkisþinginu sat hjá. Átta manns voru ekki á staðnum. Þannig lýsti meirihluti þingsins því yfir að hann beri ekki lengur traust til forsætisráðherra landsins og rauðgrænu stjórnarinnar. Það er í fyrsta sinn í Svíþjóð sem sitjandi forsætisráðherra missir völdin án undangenginna kosninga. Ekki aðeins er þetta sögulegur dagur heldur gerist það árið sem Svíar fagna 100 ára afmæli sænskra lýðræðis. Vinstri flokkurinn, sem hefur tekið þátt í að verja minnihlutastjórnina falli, ákvað að draga stuðning sinn til baka í síðustu viku vegna deilnanna um húsaleigu í nýju húsnæði.

Það er eftirtektarvert að sjá sænska fjölmiðla takast á við þessi tíðindi og stjórnmálaskýrendur landsins fá í hendurnar óvænta veislu. Atburðarás sem þessi er fátíð og menn þurfa að rifja upp hvað gerist næst samkvæmt stjórnskipun landsins. Löfven tilkynnti á blaðamannafundi í morgun að hann teldi sig hafa viku til stefnu að setja saman nýja stjórn en að því loknu verður líkast til að blasa til kosninga, einu ári áður en ráð er fyrir gert. Ekki hefur verið boðað til aukakosninga í Svíþjóð frá árinu 1958. Það er því skiljanlegt að sænskir fjölmiðlar séu að fletta stjórnarskránni til að átta sig á hvað bíður.

Hræðsluáróður Löfvens

Ástæðan fyrir samþykkt vantrausts nú er að stjórn Löfvens hugðist aflétta þaki á leiguverði nýbygginga, sem þingmenn töldu svik við „sænsku leiðina“ í húsnæðismálum. Sumir stjórnmálamenn hafa flutt hástemmdar yfirlýsingar að þessi leið hafi bjargað þeim á sínum tíma. Löfven virtist slegin yfir tíðindunum og er óspar á hræðsluáróður sem gengur út á að Sósíaldemókratar einir geti tryggt stöðugleika. Hugsanlega forsmekkurinn af því sem íslensku ríkisstjórnarflokkarnir munu segja fyrir kosningarnar í haust. En vel er líklegt að kosningar verði á sama tíma í Svíþjóð og á Íslandi.

Það dylst engum sem fylgist með sænskum stjórnmálum að málefni útlendinga og hælisleitenda krauma undir niðri og óvissa um hvert samfélagið stefnir með hlutfall innflytjenda að nálgast 20 prósent með tilheyrandi aðlögunarvandamálum. Löfven hefur gætt þess vandlega að ræða ekki þessi mál og taka stefnulaust á móti öllum innflytjendum og hælisleitendum sem banka á dyrnar. Svíar hafa löngum gagnrýnt innflytjendastefnu Dana en eins og var bent á hér fyrir stuttu hafa Danir stigið skref sem munu án efa hafa áhrif á stefnu nágranalanda þeirra.

Svíþjóðardemókratar lögðu vantrauststillöguna fram og næstu dagar geta orðið mikilvægir fyrir þá en þeir hafa verið mjög gagnrýnir þróun innflytjendamála í Svíþjóð. Lengst af hafa sænsk stjórnmál gengið út á að útiloka þá og voru aðrir flokkar nokkuð samstíga í að telja þá ekki stjórntæka. Það virðist hafa verið að breytast að undanförnu en þeir eru gjarnan kallaðir hægriöfgamenn í íslenskum fjölmiðlum en hafa notið fylgis fimmtungs sænsku þjóðarinnar.polis

Erfið tölfræði

En það er ekki hægt að horfa framhjá því að tölfræðin upplýsir að Svíþjóð sé það land í Evrópu þar sem eru flest dráp með byssu eru á hverja milljón íbúa. Á síðasta ári voru skráðir 366 skotbardagar, 47 létust og 117 særðust. Þetta er ekkert elsku Lína langsokkur lengur! Fyrir stuttu mátti lesa frásögn í Fréttablaðinu um Husby Híenurnar, glæpasamtökum yngri einstaklinga eins og segir í fréttinni, en hópurinn er talinn hafa staðið fyrir fleiri morðum í Hus­by.

Árið 2005 birtu sænsku glæpavarnir ríkisins (Swedish Crime Prevention Agency) skýrslu um tengslin milli innflytjenda og glæpa. Síðan þá hefur ekki verið gerð heildstæð rannsókn þrátt fyrir að Svíar hafi upplifað mikinn straum innflytjenda í bland við aukna glæpatíðni. Nýleg rannsókn, sem gerð var af Göran Adamson og Tino Sanandaji, er fyrsta vísindalega rannsókn á málinu í fimmtán ár.

Í stuttu máli eru innflytjendur 58% þeirra er rökstuddur grunur bendir til að hafi gerst sekir um glæpi á tímabilinu. Hvað morð, morðtilraunir og manndráp varðar þá er talan 73% og hlutfall þeirra í ránum er 70%. Óskráðir farendur eru taldir bera ábyrgð á um 13% glæpa.

Göran veltir ýmsu fyrir sér í skýrslunni, svo sem hvort menn tilkynni frekar glæpi ef innflytjendur fremji þá eða hvort þeir séu síður tilkynntir vegna ótta vitna við að stíga fram. Hann er enginn stuðningsmaður fjölmenningarstefnunnar og segir að þeir sem aðhyllast hana grafi ásamt markaðshyggjumönnum nýfrjálshyggjunnar undan þjóðríkinu og hætta sé á að sú tvíþætta hugmyndafræði breiðist út um allan hinn vestræna heim. Umdeildar yfirlýsingar en kannski til marks um að umræðan sé að breytast.