c

Pistlar:

9. september 2021 kl. 15:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áliðnaðurinn aldrei sterkari á Íslandi?

Ef það er einhver markaður á heimsvísu sem Íslendingar ættu að fylgjast með, þá er það álmarkaðurinn. Á Íslandi eru þrjú álver sem skipta miklu fyrir hagkerfið okkar eins og margoft hefur verið rakið í pistlum hér. Margir hafa horn í síðu þessarar starfsemi, fyrst af því þeir töldu að hún hentaði ekki Íslandi og að orkan væri gefin, þetta byggðist á einhverri andkapítalískri hugsun. Síðar var andstaðan byggð á því að álver og tilheyrandi orkuframleiðsla væri sérstök ógn við náttúru Íslands og nú síðast vegna þess að með vísun í loftslagsmarkmiða á heimsvísu beri að minnka álframleiðslu, líka hér á landi. Öll þessi rök eru byggð á einföldunum, þröngsýni og misskilningi. Margir hafa til dæmis haldið því á meðan á kórónuveirufaraldrinum hefur staðið að álverð sé á fallanda fæti og muni ekki ná sér á strik aftur. Það hefur sýnt sig vera rangt.

Álheimurinn hefur mótast af innkomu Kínverja og offramleiðslu þeirra. Það er velþekkt staðreynd að áliðnaðurinn þar mengar gríðarlega miðað við Ísland. Kínverjar framleiða um 60% af áli í heiminum sem skiptist milli fimm kínverskra álfyrirtækja. Síðan eru það álverin á Vesturlöndum. Þeirra stærst eru Rusal, Rio Tinto, Alcoa og Norsk Hydro og svo eru tveir stórir framleiðendur í Mið-Austurlöndum. Þar fyrir neðan er Century Aluminum en fyrirtækið framleiðir um milljón tonn af áli á ári, þar af um 320 þúsund tonn á Grundartanga. Þessi milljón tonn svari til um 1,5% af heimsframleiðslu áls. Nú stendur yfir vinna við að auka framleiðsluna á Grundartanga í kringum 330 þúsund tonn. Forstjóri Norðuráls segir í viðtali við Viðskipta-Moggann í gær að næsta fjárfesting á Íslandi muni felast í aukinni verðmætasköpun úr hráefninu með uppbyggingu nýs steypuskála. Fyrirtækið hefur nýverið samið við Landsvirkjun um kaup á meiri orku sem gerir því kleift að ráðast í þá uppbyggingu.álkall

Breytingar framundan í Kína

Í viðtalinu við Jesse Gary, nýjan forstjóra Century Aluminum, kemur fram að eftirspurnin eftir áli í heiminum hefur verið að aukast í langan tíma, eða að jafnaði um 2-3% á ári. Forstjórinn segir að það skýrist ekki síst af áherslunni á að gera farartæki léttari, þar með talið bíla og flugvélar, með notkun áls. Þurrkar hafa sett strik í reikninginn í raforkuframleiðslu vatnsaflsvirkjana í Kína og það hefur aftur leitt til þess að raforka til álvera þar í landi hefur verið skömmtuð. Afleiðingin er minni framleiðsla í kínversku álverunum. Því er ekki nema von að menn velti fyrir sér stöðu Kína. Svör Jesse Gary eru athyglisverð.

„Síðustu tvo áratugi eða svo hafa álverin í Kína mætt aukinni eftirspurn eftir áli en Kína fór þá ú því að vera smáframleiðandi í að vera stærsti álframleiðandi heims. En nú hafa Kínverjar greint frá því að þeir hyggist láta staðar numið við uppbyggingu álvera, í því skyni að draga úr losun
gróðurhúsalofttegunda, og miða framleiðslugetuna við 46 milljónir tonna. Til samanburðar hljóðar eftirspurnin í heiminum nú upp á 65 milljónir tonna af áli á ári. Og ef áform Kínverja ganga eftir mun í fyrsta sinn í tvo áratugi skapast þörf fyrir að byggja upp framleiðslugetu á Vesturlöndum til að mæta vaxandi eftirspurn,“ sagði Jesse Gary við Morgunblaðið.

Þetta eru athyglisvert að lesa og augljóslega er framboð orkunnar að breytast og eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort álframleiðsla á Vesturlöndum verði aukin í framhaldinu. Forstjóri Century Aluminum segir að það eigi eftir að koma í ljós. „Vonandi þar sem græn orka er notuð við framleiðsluna. Og framboðið á grænni orku er stöðugt að breytast enda er hún í vaxandi mæli framleidd á nýjum stöðum með vindorku og sólarorku, sem kemur til viðbótar vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Þetta þýðir að orkuverð er á niðurleið og það væri því auðveldast að mæta eftirspurninni í Evrópu og Bandaríkjunum með uppbyggingu álvera á þeim mörkuðum.“

Frekari uppbygging á Íslandi

Vel er líklegt að þessi þróun auki líkurnar á frekari uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi í framtíðinni og Norðurál hefur verið að skoða leiðir til að auka verðmætasköpunina á Grundartanga. Forstjórinn segist ekki geta hugsað sér betri stað til að framleiða ál en Ísland. Hér er framleitt hágæðaál og magn kolefnis sem fellur til við framleiðsluna er með því minnsta sem þekkist. Það sé jafnframt gott að starfa á Íslandi.

Forstjórinn benti ennfremur á að ríki heims séu nú að leitast við að draga úr útblæstri koldíoxíðs og álið hentar vel til þess. Því ætti að setja notkun á áli í forgang sem framleitt er með minna kolefni en annað ál. Þaðan kemur hugmyndin að baki Natur-Al sem Norðurál er núna að framleiða. Við framleiðsluna á því fellur til ríflega fjórum sinnum minna kolefni en að jafnaði í heiminum, eða um fjögur tonn. Meðaltalið er 18 tonn af kolefni fyrir hvert tonn af áli en í Kína fer kolefnismagnið vel yfir 20 tonn þegar álverin eru knúin með orku úr kolum.

Forstjóri Norðuráls segir notkun áls vera nauðsynlega við orkuskiptin fram undan, hvort sem um er að ræða rafbíla, endurnýjanlega orku, sólarhlöður eða vindorkuver en allt þarfnast þetta áls. Því ætti að nota ál sem leiðir til hvað minnstrar losunar kolefnis. Það eru þörf skilaboð inn í loftslagsumræðuna hér á landi og tónar ágætleg avið fróðlegt viðtal við Mike Bless, fráfarandi forstjóra Century Aluminum, sem birtist í Fréttablaðinu fyrr í sumar og var vitnað til hér.